Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 10:04:15 (7936)


[10:04]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hér er til umræðu var lögð fram í desembermánuði og ekki seinna vænna að hún verði tekin til meðferðar í þessari virðulegu stofnun.
    Hæstv. félmrh. lauk máli sínu með því að segja: Hér hefur mikill árangur náðst í atvinnumálum. Hér hefur tekist að koma í veg fyrir það að atvinnuleysið yrði það sem spáð var af aðilum vinnumarkaðarins.
    Hver er þessi mikli árangur? Hann er sá að núna er talað um að um það bil 8 þús. manns séu atvinnulausir í landinu. Það er hinn mikli árangur sem verið er að tala um. Ég skora á hæstv. félmrh. og aðra talsmenn ríkisstjórnarinnar að hætta að tala um árangur af þessari stjórnarstefnu vegna þess að meðan þessi fjöldi er á atvinnuleysisskrá er það eins og háðsmerki á ríkisstjórninni að tala um árangur og það er eins og blaut tuska framan í þann hluta þjóðarinnar sem er atvinnulaus að þessi ríkisstjórn, atvinnuleysisstjórn Davíðs Oddssonar, skuli taka sér orðið ,,árangur`` í munn þegar um er að ræða atvinnumál og atvinnuleysi.
    Staðreyndin er sú að þessi mál hafa verið til meðferðar allt það tímabil sem núv. ríkisstjórn hefur setið. Við alþýðubandalagsmenn höfum flutt mörg þingmál um þessi mál, m.a. frv. til laga um rétt þeirra sem ekki hafa vinnu sem fól í sér heildarendurskoðun á öllum þeim lögum sem snerta málefni atvinnulausra og þetta frv. var flutt á miðju síðasta þingi. Við höfum flutt tillögur um rannsóknir á afleiðingum atvinnuleysis, sem voru samþykktar á síðasta þingi og þessi skýrsla er til orðin í framhaldi af þeirri samþykkt sem varð til vegna þáltill. okkar.
    Hæstv. félmrh. lagði fram fyrr í vetur frv. til laga um vinnumiðlun sem er samkomulagsniðurstaða allmargra aðila sem undirbjuggu það mál. Ég vil byrja á að spyrja hæstv. félmrh.: Af hverju var það frv. ekki á forgangslista ríkisstjórnarinnar? Af hverju mátti það frv. liggja og bíða? Af hverju þurfti frekar að afgreiða frv. til laga um vog, mál og faggildingu heldur en frv. til laga um vinnumiðlun? Af hverju þurfti frekar að afgreiða frv. um eftirlit með skipum heldur en frv. um vinnumiðlun sem felur í sér heildarbreytingu á þeim gildandi lögum sem til eru í landinu um vinnumiðlanir?
    Ég tel satt að segja að það áhersluleysi sem birtist af hálfu ríkisstjórnarinnar varðandi þetta mál og fleiri sýni að þar er engin samstaða um raunverulegt átak í þessum efnum.
    Ég vil, hæstv. forseti, um leið og ég þakka fyrir það að skýrslan er lögð fram gagnrýna þar tvö mjög mikilvæg atriði. Í fyrsta lagi það að á bls. 4 í skýrslunni segir, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin telur vegna stöðu ríkissjóðs ekki tímabært að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir eins og þær sem fjallað er um í fskj. 3.``
    Þar er bent á margvíslegar aðgerðir varðandi skipulag vinnumiðlana og vinnumarkaðarins sem hægt væri að ráðast í án þess að það þyrfti að taka til sín mjög mikla fjármuni. Ég gagnrýni það sérstaklega að hæstv. félmrh. skuli ekki hafa þann metnað að gera grein fyrir því núna hvernig nákvæmlega hún mundi vilja fara í málin með hliðsjón af þeim ábendingum sem bent er á í fskj. 3 en fela aðallega í sér ábendingar um það hvernig vinnumarkaðsmálum og vinnumiðlun er háttað í öðrum löndum.
    Ég vil í öðru lagi gagnrýna sérstaklega það sem kemur fram á næstu síðu í þessari skýrslu þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Það er hins vegar ekki tímabært að boða nýjar breytingar á lögunum fyrr en einhver reynsla er komin á þær breytingar sem gerðar hafa verið.``
    Ég mótmæli þessari uppsetningu mála líka og ég tel að það sýni líka metnaðarleysi að gera ekki grein fyrir því hvernig lögin hafa komið út og gera grein fyrir breytingum sem eru óhjákvæmilegar á þeim lögum. Hvaða mál eru það sem hafa verið rædd hér í vetur varðandi atvinnulausa sérstaklega? Hæstv. ráðherra nefndi þau ekki í sinni ræðu. Það eru atvinnuleysisréttindi vörubifreiðastjóra, það eru atvinnuleysisréttindi námsmanna, það eru atvinnuleysisréttindi trillusjómanna, það eru sérstaklega þau námskeið sem atvinnulausum standa til boða. Allt eru þetta mál sem hafa verið uppi í vetur með margvíslegum hætti, bæði í formi þingmála, fyrirspurna og utandagskrárumræðna en í rauninni kemur ekkert fram um það í þessari skýrslu né heldur í máli ráðherrans og ég spyr: Hver er áhuginn, krafturinn, dugnaðurinn? Hvar er skilyrðasetning hæstv. félmrh. sem er heimsfræg, a.m.k. á Íslandi, og gerir það að verkum að 70% af þjóðinni telur að hún sé betri formaður Alþfl. en utanrrh.? Hvar er skilyrðasetningin öll? Það má setja þessi skilyrði þegar kemur að öðrum málum, einstökum frumvörpum, en þegar kemur að því að taka heildstætt á málefnum atvinnulausra þá segi ég, hæstv. forseti: Það hefur ekkert verið gert nema það sem við lögðum til á síðasta þingi um það að færa öll þessi mál yfir í félmrn. og opna vissa þætti þeirra fyrir sjálfstætt starfandi atvinnurekendum. Að öðru leyti hafa menn ekki fengist til að gera eitt eða neitt.
    Þessi tvö atriði vil ég gagnrýna í skýrslunni. Ég tel með öðrum orðum að skýrslan sé ófullkomin. Ég segi hins vegar: Ég þakka fyrir þann þátt í skýrslunni sem fer rækilega yfir hinn beina kostnað sem verður af völdum atvinnuleysis þar sem það kemur fram að hvert tapað atvinnutækifæri þýðir tapaðar tekjur fyrir þjóðina á ári um 1,5 millj. kr. þannig að það atvinnuleysi sem menn eru að tala um núna kostar á ársgrundvelli um 12 milljarða kr., um 12 þúsund millj. kr. eru menn að tala um að tapist út úr þjóðarbúinu beint og óbeint vegna þess atvinnuleysis sem í gangi er. Og það er af þeim ástæðum sem það er ekki bara réttlætanlegt heldur líka sjálfsagt að verja verulegum peningum til vinnumarkaðsaðgerða, til átaks í atvinnumálum m.a. í verkefni sem þarf að vinna hvort eð er eins og í samgöngumálum upp á fleiri milljarða kr. og bíða. Það er réttlætanlegt að fara í þau einmitt nú um þessar mundir eins og staðan er í dag.
    Ég vil í þessari umræðu, hæstv. forseti, leggja fyrir hæstv. félmrh. nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. félmrh. hvað hefur verið gert varðandi þær ábendingar sem ráðuneytið telur þó framkvæmanlegar og eru neðst á bls. 4 í skýrslunni þar sem segir: ,,Hins vegar eigi margar þeirra erindi nú þegar sem tilraunaverkefni á vegum ríkis, sveitarfélaga og Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þetta á t.d. við um aðgerðir sem stuðla að hreyfanleika vinnuafls innan lands, aðgerðir sem hvetja menn til sjálfstæðrar atvinnusköpunar, námsatvinna, deildar stöður og vinnuskipti.``
    Þetta er allt auðvelt segir í þessari skýrslu. Þetta er hægt að gera og ég spyr: Hvað hefur verið gert í þessum málum? Ég óska eftir að hæstv. ráðherra geri ítarlega grein fyrir því.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það sem fram kemur í skýrslunni á bls. 5 þar sem segir m.a. að það geti orðið þörf á því að koma á sérstöku launatengdu tryggingakerfi vegna atvinnuleysisins. Hvað er hæstv. ráðherra að boða þarna? Er hæstv. félmrh. og ríkisstjórnin að boða sérstaka skattlagningu umfram það sem er nú beint í ríkissjóð og Atvinnuleysistryggingasjóð til þess að standa undir þessu atvinnuleysiskerfi? Það er mjög nauðsynlegt að fá um það upplýsingar hvort hér er verið að boða nýjan skatt í þessu skyni. Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að kostnaðinn við atvinnuleysið eigi að bera uppi úr hinum almenna ríkissjóði landsmanna og menn geta mín vegna aflað skatta í hann í því skyni. Þetta er þjóðarverkefni. Þjóðin í heild og þeir þingmenn sem standa að þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið í efnahagsmálum standa í raun og veru á bak við þá ábyrgð sem við blasir að því er varðar atvinnuleysið í landinu. Þess vegna á að kosta það sem þarf í þessum efnum með beinum greiðslum úr ríkissjóði en ekki með einhverjum sérstökum tekjustofnum sem eru látnir standa undir atvinnuleysinu og munu líta út eins og ölmusupeningar þegar upp verður staðið enn þá meira niðurlægjandi en þegar er orðið fyrir það fólk sem missir sína atvinnu og getur ekki selt sitt vinnuafl.
    Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað hafi verið gert varðandi þau atriði utan þessa kerfis sem í raun og veru var ekki fjallað um í hennar ræðu en er óhjákvæmilegt að fara aðeins nánar yfir. Allt það fólk sem er utan þessa kerfis, hvað hefur verið gert til að ná því inn? Hvað vill ráðherrann gera í því efni? Hvað um fólk sem er að koma úr námi? Hvað með fólk sem er að koma úr fæðingarorlofi? Hvað með það fólk sem er að standa upp úr veikindum? Hvað með heimavinnandi húsmæður o.s.frv.? Hvað vill hæstv. ráðherra í þriðja lagi gera til þess að koma til móts við þessa aðila?
    Í fjórða lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur verið gert sérstaklega til að tengja námskeiðakerfi í þágu atvinnulausra við menntakerfið í landinu? Ég sé að þær ábendingar sem fram koma frá menntmrn. á bls. 9 í þessari skýrslu, miðri 9. síðu, eru ágætar ábendingar, faglegar og ágætar ábendingar og ég spyr: Hvað hefur sérstalega verið gert til þess að tengja saman menntakerfi og námskeiðakerfið þannig að þetta sé ekki uppbótarkerfi svo að segja þetta námskeiðakerfi heldur tengist það með einhverjum hætti hinu almenna skólakerfi í landinu ef þeir atvinnulausu vilja tengja þetta tvennt saman?
    Í fimmta lagi bendi ég á að það koma fram margar ábendingar á bls. 8 í skýrslunni varðandi ábendingar ráðgjafarnefndar, t.d. um skyldurétt til vinnu, að langtímaatvinnulausir fái skyldurétt til vinnu. Hvað á ráðuneytið við með þessu? Hvað hefur verið gert að því er varðar langtímaatvinnulausa sérstaklega? Hefur ráðherra hugsað sér að þeim verði boðin vinna með virkari hætti en verið hefur og hvað með unga fólkið en 17% af þeim sem eru á vinnumarkaði eða vilja vera þar á aldrinum 16--20 ára eru nú atvinnulausir.
    Hér er gerð tillaga um að sveitarfélögunum verði gert að samræma lágmarksframfærslu og hér er gert ráð fyrir því að vinnumiðlanir veiti ráðleggingar og leiðbeiningar til að auka atvinnumöguleika atvinnulausra. Ég spyr í fimmta lagi hvað hefur verið gert í þessum efnum og í sjötta lagi endurtek ég þær spurningar sem ég bar fram áðan um trillusjómenn og vörubifreiðastjóra sérstaklega.
    Ég tel, hæstv. forseti, að það blasi alveg við hvað það er sem gera þarf núna í þessum málum sem snerta atvinnulausa. Þá er ég ekki að tala um atvinnumálin sem slík sem er auðvitað aðalatriðið. Auðvitað þarf að rífa hér upp atvinnulífið. Það þarf að gera það með markvissum og skipulegum hætti en að því er varðar þjónustuna við atvinnulausa tel ég að það sé þrennt sem skiptir mestu máli og á því vil ég ljúka máli mínu, hæstv. forseti.
    Í fyrsta lagi tel ég að það eigi að endurskoða lögin í heild um atvinnuleysistryggingar, vinnumiðlun og um vinnumálaskrifstofu félmrn. Grundvallaratriðið eigi að vera það að réttur til atvinnuleysisbóta verði altækur þannig að allir þeir sem vilja vera á vinnumarkaði, hafa heilsu og eru að leita sér að vinnu, fái atvinnuleysisbætur. Það verði ekki unnt að hólfa fólk niður eins og nú er gert eftir aðild að stéttarfélögum. Ég spyr hæstv. ráðherra líka: Af hverju hefur þetta ekki verið gert? Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan þá hafa legið fyrir um það upplýsingar mjög lengi. Liggur í augum uppi að það kerfi sem hér er um að ræða á Íslandi er miðað við allt aðrar aðstæður. Af hverju hefur þetta ekki verið lagað? Þetta hefur legið fyrir alveg frá því að hæstv. núv. ríkisstjórn tók við. Hvaða gauf er þetta? Gera menn sér ekki grein fyrir þeim vanda sem svo að segja nístir í merg og bein á þeim heimilum þar sem fólk býr við atvinnuleysi og hefur jafnvel gert langtímum saman?
    Í öðru lagi tel ég að það eigi að virkja vinnumiðlanir miklu betur en gert hefur verið. Það á að gera þær þannig að þær hafi frumkvæðið, þær leiti upp hina atvinnulausu, sem hafa verið atvinnulausir lengi, og sérstaklega unga fólkið. Það verði farið yfir málin og gerðar ráðstafanir til að tryggja það t.d. að enginn ungur maður, karl eða kona, verði atvinnulaus eða þurfi að vera atvinnulaus lengur en í tvo mánuði, segjum þrjá í mesta lagi, áður en kemur sérstakt vinnutilboð til þessa fólks. Það er svo niðurbrjótandi, það er svo alvarlegt vandamál fyrir þjóðfélagið að þetta fólk hafi ekki vinnu langtímum, mánuðum eða missirum saman og það er í rauninni fráleitt að líða það að hlutirnir þróist með þeim hætti.
    Í þriðja lagi tel ég mikilvægt, hæstv. forseti, að tengja skipulegar saman menntakerfið og námskeiðin heldur en gert hefur verið og bendi í því sambandi á að Atvinnuleysistryggingasjóður er sjálfur núna að borga verulega fjármuni til að standa undir námskeiðum, 3,5 millj. kr. á mánuði. Það tel ég gott, en ég tel, hæstv. forseti, að þetta eigi að vera verkefni okkar, þjóðfélagsins og ríkissjóðs, að standa undir þessum kostnaði.
    Virðulegi forseti. Hvað er það að missa vinnuna? Það að missa vinnuna er það að þjóðfélagið, markaðurinn, hafnar því eina sem þú átt, sem er vinnuaflið. Þegar upp er staðið er það þannig að það er ekki unnt að rífa af þér vinnuaflið til þess að selja í gjaldþrotaúrskurðum eða við nauðungaruppboð. Þetta er það eina sem þú átt ef þú hefur heilsu. Þjóðfélag sem hafnar þessari einu eign einstaklinganna er að lítilsvirða þetta fólk og við eigum að taka á því með myndarlegum hætti meðan hér er atvinnuleysi að búa til kerfi, sem tekur á móti þessu fólki með fullri virðingu, stolti og reisn en niðurlægi það hvergi.