Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 11:27:23 (7945)


[11:27]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil nota þessar tvær mínútur til að ítreka spurninguna um hvað hafi verið gert til þess að skoða möguleika á innflutningi á ferskum fiski. Ég vil nota líka þann tíma sem ég á eftir til þess að ítreka hlutverk sveitarfélaganna í atvinnumálum því að það vill svo einkennilega til að sveitarfélögin hafa verið skattlögð í ríkissjóð um 500 millj. í Atvinnuleysistryggingasjóð og hafa aðeins fengið 300 millj. til baka samkvæmt skýrslunni. Þetta er óviðunandi ástand og ef þetta á að vera svo áfram, þá á að leggja þessa skattheimtu af og treysta sveitarfélögunum til þess að taka á í atvinnumálum því að þau eru auðvitað næst fólkinu og sveitarstjórnarmenn vita það hvar eldurinn brennur heitast í þessum efnum. Það er alveg ófært að það sé staðið þannig að málum gagnvart sveitarfélögunum í landinu sem hafa haft mikið og stórt hlutverk í atvinnumálum í gegnum tíðina og munu hafa það áfram.