Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 12:21:54 (7950)


[12:21]
     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir hans ítarlegu ræðu áðan. Ég tel að hún hafi verið mjög nauðsynlegur og gagnlegur þáttur í þróun þessa máls og þau sjónarmið sem hæstv. forsrh. setti þar fram mjög athyglisverð. Í sjálfu sér sýnist mér fljótt á litið að margt af því sem hæstv. forsrh. sagði sé á þann veg að það eigi að vera hægt að ná nokkuð breiðri samstöðu innan þingsins um þróun þessara mála á næstunni.
    Mér fannst það merkilegar upplýsingar að hæstv. forsrh. telur að ef óskað hefði verið eftir fríverslunarsamningi við Bandaríkin af hálfu Íslands í samræmi við þann frest sem bandaríska stjórnkerfið gaf, þá hefði þeirri ósk verið hafnað. Ef það er rétt mat, þá get ég fallist á það fljótt á litið að sú nálgun sem fram kemur í yfirlýsingunni sé á ýmsan hátt skynsamleg. En það væri fróðlegt að geta farið yfir það á vettvangi utanrmn. hvaða rök liggja á bak við það mat og vegna þess að utanrmn. hyggst síðar í dag leggja í fyrstu för utanrmn. Alþingis til Bandaríkjanna til að ræða þar við ráðuneyti og þing, þá getur verið mjög fróðlegt að taka upp þann þátt.
    Ég vil aðeins inna hæstv. forsrh. eftir því, en mun svo síðar í umræðunum víkja nánar að ýmsu því sem fram kom í hans ræðu, hvort hann óttast ekki að ef Ísland bíður eingöngu átekta með EES-samninginn og önnur ríki EES ganga í Evrópusambandið, þá verði mjög erfitt fyrir Ísland að standa í þeim sporum á fyrri hluta næsta árs, ef ekkert hefur gerst, að Evrópusambandið er sífellt að afgreiða nýjar og nýjar gerðir og nýjar og nýjar tilskipanir sem við eðli málsins samkvæmt eigum og höfum átt litla möguleika á að fylgjast með mótun þeirra en þurfum að standa frammi fyrir staðfestingu þeirra í samræmi við EES-samninginn á næsta ári ef engin niðurstaða hefur fengist um breytingar.