Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 13:28:15 (7955)


[13:28]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að tala mikið í þessu máli. Ég ætla aðeins að gera grein fyrir einu grundvallaratriði og hæstv. utanrrh. er væntanlega starfandi umhvrh. ( Utanrrh.: Nei, því miður.) Þá er það svo að það væri kannski ekki verra að fá hæstv. villidýramálaráðherra inn. Hann er einhvers staðar, að passa villidýrin sennilega. Það er spurning, hæstv. forseti, hvort það væri hægt að ná í hæstv. ráðherra.
    ( Forseti (SalÞ): Forseti er búinn að gera ráðstafanir.)
    Já. ( Gripið fram í: Hver fer með málefni villidýranna?) (Gripið fram í.) Það er hinn frjálsi markaður.
    Nú gengur hæstv. ráðherra villidýra í salinn. Mér þykir vænt um að hann skuli heiðra okkur með nærveru sinni.
    Þannig háttar til, hæstv. forseti, að ég hafði hugsað mér að gera dálitla grein fyrir grundvallarviðhorfum sem ég hef í þessu máli, sem allt í einu eru að verða að stóru, pólitísku máli hér og er kannski ekkert skrýtið þó að það verði það vegna þess að hér er auðvitað verið að fjalla um mikilvægt mál.
    Fyrir mér, hæstv. forseti, snýr þetta mál, satt að segja, alveg á haus. Þetta mál er þannig að hér

er í raun og veru allt bannað nema það sem umhvrh. leyfir og það er nokkuð sérkennilegt með þjóð sem hefur lifað á náttúrunni og hlýtur að lifa á náttúrunni og á þess vegna að lifa af því sem náttúran gefur í sátt við hana. Síðan er auðvitað hugsanlegt að af ýmsum ástæðum séu hlutirnir bannaðir, en það eru þá undantekningar en ekki regla. Það ótrúlega í þessu frv. er það að menn eru að gera bannið að reglu. Og það er nokkuð sérkennilegt með þessa ríkisstjórn, sem hefur það að markmiði, að sögn, og vegvísi að koma hlutunum þannig fyrir að í viðskiptum gildi frelsi, samkeppni og guð veit hvað það heitir allt saman, að þegar kemur að öðrum þáttum eins og t.d. samskiptum við náttúruna og umhverfið með þessari þjóð sem getur auðvitað ekki lifað í þessu landi öðruvísi en hún geri það í sátt við náttúruna, þá er tekin upp þessi ótrúlega bann- og haftastefna. Og hún er svo smámunasöm, hæstv. forseti, að það er satt að segja engu lagi líkt.
    Ég ætla út af fyrir sig ekki að fara yfir þetta frv. í einstökum atriðum. Ég verð þó að játa að ég tók mig til hér á dögunum, og iðrast þess að hafa ekki gert það fyrr og bið forsetann afsökunar á því, og las þetta mál alveg í þaula. Ég hafði satt að segja hugmyndir um að þetta mál mundi liggja jafnvel áfram og menn mundu ekki reyna svo mikið til þess að ljúka því. Síðan sýnist mér núna að það sé ætlunin að ljúka málinu eða þróa það alla vega betur áfram og þess vegna finnst mér rétt að segja nokkur orð varðandi þessi grundvallaratriði. Mér finnst nálgunin í málinu röng miðað við Ísland og íslenskar aðstæður.
    Af þessu leiðir svo aftur það, hæstv. forseti, að hér eru uppi tillögur um ótrúlega smámunasemi í lagasetningu, alveg ótrúlega. Hér er t.d. gert ráð fyrir því í lögum, sem er óvenjulegt, að umhvrh. skipi fulltrúaráð sem kemur fram fyrir Íslands hönd í Alþjóðafuglaverndarráðinu sem Ísland er aðili að. Venjan er sú varðandi stofnanir af þessu tagi að þá verður Ísland aðili að viðkomandi samningi. Síðan er það ákvörðunaratriði í ráðuneytinu hvernig með þessi mál er farið, en það er ekki gert ráð fyrir því að það sé sett í lög nákvæmlega hvernig þeim hlutum er háttað.
    Í öðru lagi ætla ég svo að benda á það að þó svo að almenna reglan í þessu frv. sé bann, almenna reglan er bann, þá liggur það líka fyrir að réttur landeigenda, þ.e. þeirra sem eiga landið, virðist vera mjög vel tryggður, mjög rúmur að því er þessa hluti varðar, og þannig tel ég að að mörgu leyti megi halda því fram að frv. mismuni okkur Íslendingum, annars vegar okkur sem eigum ekkert land og hins vegar þeim sem eiga jarðir og lendur hér, eins og fram kemur t.d. mjög glöggt í 8. gr. frv.
    Síðan eru í næstsíðustu mgr. 8. gr. dæmi um það að það er farið óþarflega nákvæmlega í hlutina þar sem fjallað er um tiltekin mál og tiltekna breidd á stöðuvötnum, fjörðum, vogum og sundum sem skipta landareignum og veiðirétti á milli tiltekinna landeigenda og einnig um það hvernig þessum veiðirétti skal skipta í ám og í lækjum. Þar kemur fram að það eigi að miða þarna við 230 metra á breidd og meira. Þessi setning þarna í 8. gr. er ásamt öðrum til marks um það að hér eru menn alveg ótrúlega nákvæmir og smámunasamir að því er varðar einstök atriði í lagasetningu. Ég ætla ekki að fara sérstökum orðum um það sem kemur fram í 17. tölul. 9. gr. þar sem segir um skotvopn: ,,Skotvopn skulu vera óhlaðin meðan á akstri stendur. Þau skulu einnig vera óhlaðin nær vélknúnu farartæki á landi en 250 metra.`` --- Nákvæmlega 250 metrar skulu það vera, hæstv. forseti, og væri fróðlegt að vita hvaða vísindi standa á bak við þá tölu nákvæmlega.
    Síðan sé ég það í 11. gr., mér til mikilar ánægju, hæstv. forseti, að það þarf ekki veiðikort til að drepa rottur og mýs og það þarf ekki veiðikort til að drepa hagamýs t.d. heima hjá sér. Og það má segja út af fyrir sig að það sé alveg sérstakt fagnaðar- og þakkarefni að ríkisstjórnin skuli vera svo frjálslynd að menn megi drepa hagamýs inni hjá sér án þess að hringja áður í umhvrn. til þess að fá sérstakt leyfi og veiðikort frá hæstv. umhvrh. Þó veit maður það ekki vegna þess að hæstv. umhvrh. getur sett reglur um það að menn þurfi að vera búnir sérstakri hæfni til veiða á þessum kvikindum. Þannig að það er aldrei að vita nema námskeið í drápi hagamúsa verði talin forsenda þess að menn megi nálgast þessi kvikindi með þeim hætti. ( Viðskrh.: Nálgast þau með hvaða hætti?) Að drepa þau, hæstv. villidýramálaráðherra.
    Varðandi 12. gr. um refi ætlaði ég ekki að segja í sjálfu sér margt. Hún er mjög sérkennileg. Ég ætla að leyfa þingheimi að heyra næstsíðustu mgr. í 17. gr., sem er sérstaklega fyrir hv. 3. þm. Suðurl.:
    ,,Óheimilt er að þeyta flautur, fljúga flugvélum eða vera með annan hávaða að óþörfu í grennd við fuglabjörg.`` --- Það hafa því verið alveg síðustu forvöð fyrir hv. þm. að fljúga gegnum Dyrhólagatið hér forðum eins og frægt varð. Það verður bannað frá og með samþykkt þessara laga. ( ÁJ: . . .  banna flugið yfir Íslandi.) Banna flug yfir Íslandi, segir hv. þm., sem er athyglisverð ábending og ég hugsa að sé í raun og veru alveg rétt, nema umhvrh. leyfi. Þannig að smámunasemin í frv. sem slíku er ótrúleg. Ég ætla að nefna hér eitt dæmi enn, með leyfi forseta:
    ,,Á takmörkuðum svæðum, þar sem andarvarp er mikið, skal veiðirétthafa heimilt að taka egg frá eftirtöldum andartegundum: æðarfugli, stokkönd, rauðhöfðaönd, urtönd, duggönd, skúfönd, hávellu, húsönd og toppönd. Við slíka eggjatöku skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri. Heimilt er og að taka grágæsar- og heiðagæsaregg, en þá skulu eigi færri en tvö egg skilin eftir í hreiðri.`` Síðan kemur hængurinn á, það má hvorki bjóða þessi egg til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf með einum eða öðrum hætti. ( GHelg: En ef það eru fúlegg . . .  ?) Þetta er góð hugmynd hjá hv. 14. þm. Reykv., það vantar hér bersýnilega fúlegg, hvernig með skuli fara. ( Viðskrh.: Og páskaegg.) Ég tala nú ekki um páskaegg eins og hæstv. villidýramálaráðherra bendir á, að páskaegg eru stórlega vanrækt hér í þessu plaggi. ( Gripið fram í: Það er ekki ætlast til þess að fúleggin verði borðuð.) Né seld eða gefin og svo er bannað að taka við þeim sem gjöf líka og eins er það með önnur egg.
    Ég nefni þetta nú, hæstv. forseti, ekki fyrst og fremst til þess að hafa málið í flimtingum heldur aðallega til þess að undirstrika það að mér finnst að það sé gengið allt of langt í smámunasemi í lagasetningartilraun í þessu frv. Ég virði það sem gert hefur verið af hv. umhvn. í þessu máli og ég virði það sem gert hefur verið af umhvrn. til að laga frv. frá því sem var í upphafi. En mér finnst að sú smámunasama lagasetningarstefna sem hér birtist sé í raun og veru ekki brúkleg og þess vegna skora ég á hv. nefnd og hæstv. ráðherra þessara mála að taka málið nú til betri athugunar í því skyni að endurskrifa það og með það að stefnu að koma svo með málið aftur fyrir þingið í haust í alveg nýjum búningi. Í þeim búningi að þar verði fyrst og fremst byggt á þeim íslensku forsendum sem eru þær að hér þurfum við að hafa lög af þessu tagi um það hvernig við eigum að lifa í sátt við náttúruna. Það er númer eitt, tvö og þrjú að mínu mati, hæstv. forseti.