Stjórn fiskveiða

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 14:11:52 (7958)


[14:11]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það hefur verið komið þó nokkuð til móts við sjónarmið krókaleyfisbátanna í þeim tillögum sem hér liggja fyrir, en félagar þeirra sem eru á aflamarksbátum undir 6 tonnum eru í hópi þeirra manna sem verst hafa farið út úr skerðingu á þorskveiðum undanfarinna ára. Það er með miklum ólíkindum að ekki skuli vera hægt að fá hv. alþingismenn til þess með neinum hætti að koma á réttlæti milli þessara manna sem eru að gera út sambærilega báta. Og þó svo að ekki hafi verið möguleiki að ná samkomulagi um það að gera þetta þannig að réttlætið fyndist betra með öllum sem eru að gera út, þá hefði a.m.k. verið hægt að komast hjá slíku ósamræmi milli manna sem eru að gera út sambærilega báta eins og verið er að greiða atkvæði um þessa tillögu. Ég segi já.