Þróunarsjóður sjávarútvegsins

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 14:24:28 (7963)


[14:24]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Verði þetta frv. samþykkt er tekin upp sú stefna að mismuna á freklegan hátt atvinnugreinum á Íslandi. Sjávarútveginum verður hér eftir ekki gert að greiða sérstakan auðlindaskatt þannig að þeir sem róa til fiskjar verða hér eftir að greiða ákveðið gjald beint í ríkissjóð. Ég dreg einnig mjög sterklega í efa, svo ekki sé fastara að orði komist, að það standist að samþykkja hér að skylda sjávarútveginn til að greiða með sérstökum skattstofni töpuð útlán og skuldbindingar ákveðinna sjóða. Það stríðir gegn öllu viðskiptasiðferði að lögþvinga þá sem ekki fengu fyrirgreiðslu úr þessum sjóðum til að greiða og ábyrgjast skuldir þeirra og það alls óskyldra fyrirtækja eins og hér er lagt til. Því greiði ég atkvæði gegn þessu frv., virðulegi forseti, og segi nei.