Kjarasamningar opinberra starfsmanna

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 14:59:31 (7971)


[14:59]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það hefur komið fram að ýmis samtök opinberra starfsmanna leggja á það mikla áherslu að við þær breytingar á lögum um stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem þarf að gera í framhaldi af þessum breytingum hér verði haft við þau náið samráð og ég fagna því yfirlýsingu hæstv. félmrh. um það efni. Ég treysti því að að þessu máli verði unnið í sumar og fyrir þing á næsta hausti verði lagðar tillögur um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem feli í sér eðlilega aðild allra þeirra samtaka opinberra starfsmanna sem nú þurfa að koma að framkvæmd þessara mála í kjölfar þeirra breytinga sem hér eru lagðar til á tilhögun atvinnuleysisbótaréttarins. Hitt er alveg augljóst mál að það hefði verið bersýnilega ósanngjarnt að láta sveitarfélögin vera lengur án þeirra réttinda sem þau eiga náttúrlega heimtingu á nú eftir að hafa tekið að greiða af sínum starfsmönnum iðgjöld til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þess vegna styðjum við það fyrirkomulag að þessar breytingar séu nú gerðar en málinu síðan lokið með breytingu á lögunum um atvinnuleysistryggingar á næsta hausti.