Áburðarverksmiðja ríkisins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 15:19:33 (7976)

[15:19]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það ganga nú mjög hratt fram málin hér og þannig háttar með 5. dagskrármálið,

frv. til laga um Áburðarverksmiðju ríkisins, að ég hafði hugsað mér að flytja brtt. við það mál við 3. umr. en hef ósköp einfaldlega ekki haft tóm til að ganga frá henni skriflega. Nú er það að vísu svo að samkvæmt þingsköpunum er heimilt að flytja munnlegar brtt. en það er kannski ekki einfaldasti framgangsmátinn fyrir slíkt þannig að ég leyfi mér að óska eftir því við hæstv. forseta að umræðu um þetta mál verði frestað stundarkorn á meðan ég geng frá þeirri brtt. sem ég hafði hugsað mér að láta koma til atkvæða eftir 3. umr. málsins. Brtt. varðar sérstaklega tvö ákvæði frv. sem urðu að umtalsefni við 2. umr., þ.e. annars vegar stjórn fyrirtækisins eins og hún verður úr garði gerð ef af breytingunum yfir í hlutafélag verður og í öðru lagi meðferð hlutafjárins og heimildir hæstv. ráðherra til að selja það að hluta til eða öllu leyti. Um þessi tvö efnisatriði hafði ég hugsað mér að flytja brtt. og ég óska þess vegna eftir því að umræðunni verði frestað stundarkorn svo mér gefist kostur á að ganga frá þessum tillögum.