Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 15:26:25 (7980)


[15:26]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er augljóst að það eru ekki margir hv. þm. sem hafa áhuga á Lífeyrissjóði sjómanna og málefnum hans. Í fyrsta lagi vil ég segja, hæstv. forseti, að þegar komið er að þinglokum og við höfum lagt nótt við dag til að ljúka þeim málum sem ríkisstjórnin hefur talið bráðnauðsynleg þá sýna menn hér nýtt mál eða mál sem ekki hefur verið á dagskrá síðustu daga og ætlast til þess að keyra það í gegn með sama offorsi og önnur mál á hinu háa Alþingi.
    Hv. 5. þm. Norðurl. v. ber fyrir sig að þetta sé mikið hjartans mál sjómannasamtakanna til þess að bjarga sjóðnum, eins og hann svo kallar það. Nú vitum við það öll að á þessu kjörtímabili hefur verið unnið að því leynt og ljóst og fyrst og fremst ljóst að skerða verulega, að rýra verulega kjör sjómanna í sínum eigin lífeyrissjóði og nægir að minna á lög sem gengu í gildi á árinu 1992 þar sem réttur manna til Lífeyrissjóðs sjómanna var stórlega skertur. Ég átti þó nokkuð langar ræður um það mál. Nú er enn hoggið í sama knérunninn og enn skal skerða kjör sjómanna.
    Fyrir nokkrum árum var barist fyrir því á tímum vinstri stjórnar og í ráðherratíð hv. núv. 9. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, að sjómenn mættu fara í land sextugir að aldri og fá lífeyri vegna verulega lækkaðra tekna þó að þeir héldu síðan áfram einhverri vinnu í landi. Nú skal þetta síðasta hálmstrá tekið af sjómönnum. Mér er alveg sama hvað samtök sjómanna segja um þetta mál, ef þeim er annara um sjóðinn en sjómennina þá verður það að vera þeirra mál. Við vitum það einnig að allir lífeyrissjóðir landsmanna verða meira og minna í gjaldþroti í framtíðinni. En ég ætla að segja hv. 5. þm. Norðurl. v. og varaformanni hv. efh.- og viðskn. að einn er sá sjóður sem enginn hefur áhyggjur af að verði gjaldþrota og nú ætla ég að kenna honum nokkrar tölur.
    Árið 1993 --- og ég bið hv. þm. að hlusta á mig --- fengu 140 manns eftirlaun eða lífeyri úr lífeyrissjóðum alþingismanna og ráðherra. Það voru 140 sálir sem fengu greiðslur úr þessum sjóði. Meðalgreiðsla á árinu var 820 þús. til þessara 140 einstaklinga. Sama ár, árið 1993, fengu 2.000 sjómenn, nánar tiltekið 1.999 og ég nennti ekki að deila með því, fengu 2.000 sjómenn, ekkjur þeirra og börn 524 millj. kr. sem er ekki mikið meira en fimm sinnum meira fyrir 2.000 manns en fyrir 140. Með öllu sem þar er inni í: ellilífeyrir, örorkulífeyrir, makalífeyrir, barnabætur og hvað þetta nú heitir, var meðalgreiðslan handa 2.000 sjómönnum ekki 828.000, hún var 262.000.
    Ég hef engan heyrt hafa áhyggjur af því að þessi sjóður okkar ágætu hv. alþm. og hæstv. ráðherra sé í neinum sérstökum vandræðum en ég býst við að hann sé það. En ætli því verði ekki bjargað öðruvísi.
    Það vill nú til, hv. 5. þm. Norðurl. v., það þýðir ekki að ávarpa þann ráðherra sem hér er ekki til staðar, að sem sjómannsbarni úr Hafnarfirði er mér ýmislegt minnisstætt, eins og það þegar heilu skipshafnirnar voru að farast, ekkjur þeirra stóðu uppi með stóran barnahóp og fengu ekki greiddan einn eyri í bætur af nokkru tagi. Þess vegna er mér töluvert sárt um að þessi sjóður sé verndaður eins og unnt er. Það er hins vegar svo einkennilegt að þegar skerðingarlögin voru sett 1992, þar sem tekinn var alls kyns réttur af íslenskum sjómönnum --- hvað var þá gert í leiðinni? Um árabil og ég held allt frá stofnun, ef ég man rétt, þó kann það að vera vitleysa, höfðu þessar greiðslur verið inntar af hendi í Tryggingastofnun ríkisins og munaði svo sem ekkert um það. Það var gert meira og minna af almennum rekstri Tryggingastofnunar með sérbókhaldi en enginn hafði nokkru sinni kvartað yfir því að sú afgreiðsla væri ekki með ágætasta móti.
    Þegar þessi lög voru sett 1992 þá var Lífeyrissjóður sjómanna tekinn út úr Tryggingastofnun og þessi sárt leikni sjóður --- hvað gerði hann fyrst af öllu? Hann réðist í að kaupa hús undir yfirstjórn sjóðsins sem nú stendur í 35 millj. kr. og er þó langt í land að það sé að fullu innréttað. ( Gripið fram í: Það er rangt.) 23 millj. var kaupverðið, menn segja mér að þetta húsnæði fari aldrei undir 40 millj. kr. (Gripið fram í.) Það er mikill kostnaður eftir enn, ég hef áreiðanlegar frásagnir af því og þó það væri ekki þá eru 35 millj. líka peningar, hv. 16. þm. Reykv. og forsvarsmaður sjómanna um alla tíð.
    Það er nefnilega alltaf hægt að eyða peningum í svona lagað og það hefur enginn áhyggjur af lífeyrissjóði sem greiðir 828 þús. kr. að meðaltali á ári 140 alþingismönnum en það er sjóðurinn sem borgar 262 þús. kr. handa 2.000 sjómönnum sem menn hafa áhyggjur af.
    Ég veit ekki, satt best að segja, hvað samtökum sjómanna gengur til. Ég held að það sé komið fyrir þeim eins og ýmsum forustumönnum í samtökum sem þessum að menn horfa á einhverja dálka og gleyma fólkinu sem þeir eru umboðsmenn fyrir. Þeir gleyma fólkinu sem hefur trúað þeim fyrir þessum

sjóðum. Menn eyða hundruðum þúsunda í fundaferðir út og suður, erlendis og hérlendis, og það er ekki spurt hvort sé til fyrir því. Það eru alltaf til peningar fyrir því. En helst til bjargar sjóðnum skyldi leggja niður réttindi þeirra fáu sálna sem geta t.d. fengið einhvern smávegis lífeyri þegar þeir verða að hætta á sjó og verða að skipta um vinnu.
    Nú segja menn: Það stendur náttúrlega ekkert um þetta í þessu nýja frv. og það er alveg rétt vegna þess að lagaákvæði sjóðsins eru einfaldlega felld niður. Nú skal þetta allt gert með reglugerð. Ég er með drög að reglugerð hér og ég sé ekki annað en að hún ríghaldi í að allar þær skerðingar sem komu með lögunum 1992. Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja hv. varaformann efh.- og viðskn.: Nægir þetta til að bjarga sjóðnum, eins og það heitir?
    Það væri líka gaman að spyrja hv. þm.: Hvað skuldar útgerðin núna Lífeyrissjóði sjómanna?
    Í ræðu sem ég flutti fyrir tveimur árum, og það var nákvæmlega 12. maí 1992, sagði ég, með leyfi hæstv. forseta, ég hef verið búin að lesa ástæðuna fyrir því að það verður að skerða sjómennina af því að sjóðurinn stendur svo illa:
    ,,Hér hljótum við að stansa við orðin ,,vegna vangoldinna iðgjalda``. Sjómenn hafa greitt sín iðgjöld, þau eru tekin af launum þeirra. Hverjir skulda þá iðgjöld? Það hljóta að vera útgerðarmenn. Ég sneri mér til Tryggingastofnunar ríkisins sem sér um afgreiðslu þessa sjóðs og spurði: Hvað skuldar útgerðin Lífeyrissjóði sjómanna? Ég fékk samstundis svar undirritað af framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins, Árna Guðmundssyni. Ógreidd útgjöld útgerðar 31. mars 1992`` --- sama árið og lögin voru sett --- ,,eru 126 millj. 925 þús. 357 kr. að viðbættum dráttarvöxtum 23 millj. 799 þús. 506 kr.`` Eða samtals skuldaði útgerðin þá 150 millj. 724 þús. 863 kr.
    Hefði ekki verið hægt að byrja á því að innheimta hjá útgerðinni?
    Ég segi það eins og er, virðulegur forseti, að ég skil ekki upp eða niður í þessum aðgerðum. Ég skil ekki hvað mönnum gengur til að samþykkja þetta því mér sýnist að með þessu sé mælt á velflestum helstu stöðum, svo sem hjá Farmanna- og fiskimannasambandi, Sjómannasambandi Íslands og öðrum slíkum. En það er kannski Hafnfirðingurinn í mér sem á erfitt með að kyngja þessu. Ég er ekki búin að gleyma þessu hérna og þetta var ekki lítið mál. ( Gripið fram í: Hvað er þetta?) Þetta er listi yfir sjómenn sem voru skipverjar á togaranum Júlí. Í mínu litla byggðarlagi þurfti að halda minningarathöfn um alla þessa menn og allar þessar fjölskyldur þurftu svo sannarlega á lífeyrissjóði að halda. Það er alveg óskiljanlegt hvernig er verið að fara með þetta.
    Lífeyrissjóður togarasjómanna var stofnaður með lögum nr. 49/1958 og sjóðfélagar voru þá allir þeir sem lögskráðir voru á íslenska togara. Árið 1962 --- og takið eftir hvað er stutt síðan --- þegar þessi mynd birtist 1959 var þessi sjóður ekki til. Þarna stóðu uppi milli 20 og 30 ekkjur með fullt hús af börnum. ( GHall: Það er rangt. Sjóðurinn var stofnaður 1957.) Hann var þá a.m.k. mjög nýr og það má ímynda sér hversu greiðslurnar hafa verið háar fyrir þá sem voru búnir að vera í sjóðnum í tvö ár. Svoleiðis að það bjargaði líklega litlu.
    En árið 1962 urðu farmenn aðilar að sjóðnum og þá var nafni sjóðsins breytt í Lífeyrissjóð togarasjómanna og undirmanna á farskipum. Þetta er með ólíkindum. Hér koma einmitt fram upplýsingar sem ég hef aflað mér að einmitt á fyrsta ári sjóðsins, hv. 16. þm. Reykv., fórst togarinn Júlí frá Hafnarfirði, nánar tiltekið 8. febrúar 1959, á Nýfundnalandsmiðum. Á skipinu var 30 manna áhöfn, flest ungir menn, yngsti skipverjinn var 16 ára, sá elsti 48 ára. Flestir voru þessir menn á aldrinum 20--30 ára. Af þessum mönnum voru 19 frá Reykjavík, 5 frá Hafnarfirði og 6 frá öðrum stöðum á landinu. 12 heimilisfeður voru í þessum hópi og létu þeir eftir sig konur og börn. Samtals 39 börn innan 15 ára aldurs urðu föðurlaus í þessu slysi.
    Hvað er hér á ferðinni? Menn tala um mikilvægi sjávarútvegs öllum stundum og það eru ekki lítið merkileg mál sem við höfum verið að afgreiða hvert á annað ofan um verðjöfnunarsjóði, þróunarsjóði og stjórn fiskveiða. Hverjir veiða þennan fisk? Það eru ekki menn sem semja langlokur á borð við það sem hér er verið að samþykkja sem mestan part er eintóm vitleysa og síst af öllu nokkur stjórn á fiskveiðum. En þegar kemur að sjómönnunum sjálfum þá má vaða yfir þá aftur og aftur á þeim þremur árum sem þessi ríkisstjórn hefur verið við völd og skera niður við trog þann sjálfsagða rétt sem þeir hafa aflað sér á reyndar örfáum árum sem sjóðurinn hefur starfað. Þeir íslenskir sjómenn sem allra lengst hafa starfað eru góðir með að fá núna eftir ævilangt starf á sjó milli 20 og 30 þús. í eftirlaun sem fer svo niður held ég um helming þegar lífeyrishafinn deyr og makinn tekur við greiðslunni. Það má vel vera að þetta þyki gott og gilt hjá Alþýðusambandi Íslands, ég efast ekki um að Vinnuveitendasambandið er að sjálfsögðu, eins og hér segir, ánægt með þetta. Hér segir Sjómannasamband Íslands, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Er markmið þeirra breytinga fyrst og fremst`` --- þ.e. þessa nýja frv. --- ,,að bæta fjárhagsstöðu sjóðsins`` --- með því að skera niður þann auma rétt sem sjómenn hafa innan sjóðsins.
    Það hrákalda í þessu máli er nú það að þessi atvinnuvegur, sem veitir okkur u.þ.b. 75% allra tekna þjóðfélagsins, þessi vinna er unnin af svo fáum mönnum að það er ekki hægt að halda úti lífeyrissjóði af iðgjöldum. Það er ekki nema svo sáralítill hluti af vinnandi fólki í landinu sem vinnur þessi störf, svo dýrmæt sem þau eru. Ég vil fá svar við því hvort menn telja ekki lengur, eins og ég hef alltaf skilið á Alþingi Íslendinga þau 14 ár sem ég hef setið hér, að starf sjómanna sé áhættumeira, mikilvægara en nokkur önnur störf í þessu þjóðfélagi. Eru menn hér með hættir að hugsa þannig? Telja menn að þeir vinnandi menn í þessu landi sem setja líf sitt í mesta hættu eigi að vera með lakasta lífeyrissjóðinn? Hafa menn hugsað þetta mál til enda?
    Nú lofaði ég, hæstv. forseti, af því að ég tróð mér eiginlega fram fyrir hv. áhugamenn um rottur og mýs til að koma þessu máli að, að tala ekki allt of lengi en ég gæti talað lengi um þetta mál. ( Gripið fram í: Hverjir eru það?) Fjölmargir hv. þm. að sjálfsögðu sem hafa áhuga á rottum og músum og öðrum jarðarinnar dýrum.
    En ég vil að lokum að segja þetta: Má ekki til samkomulags um lok þingsins þar sem fjöldi hv. þm. er farinn ýmist erlendis eða heim í hérað, fara fram á það við hæstv. forseta að þessu frv. verði hreinlega frestað til haustsins og skoðað betur? Ég segi fyrir mig að ég kysi að fá tækifæri til að ræða augliti til auglitis við samtök sjómanna. Ég held að þeir hljóti að hafa misskilið þetta mál. Ég sé það að hv. 5. þm. Norðurl. v. hristir höfuðið. Fyrir honum og ýmsum þeim sem hann umgengst dags daglega er þetta bara mál sem á að rúlla í gegn, eins og sagt er. Það þarf að rétta stöðu sjóðsins, þetta er eins og sú dæmalausa bætta staða þjóðfélagsins sem hæstv. forsrh. er að guma af. Málið er bara að fólkið í Lífeyrissjóði sjómanna mun ekki finna fyrir neinni bót af þessu frv. nema síður sé fremur en fólkið í landinu hefur fundið fyrir efnahagsbata hæstv. ríkisstjórnar.
    Þess vegna er sú eindregin bón mín að þessu verði ýtt út af borðinu um sinn og tekið upp aftur í haust eftir nánari skoðun. Ég þakka síðan hæstv. forseta fyrir liðlegheitin að leyfa mér að tala um þetta mál.