Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 15:47:00 (7982)


[15:47]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að hv. 5. þm. Norðurl. v. hafi hitt naglann á höfuðið. Auðveldasta leiðin til þess að sjóðurinn standi undir sér er að borga engum neitt úr honum. Hann sagði líka að það væri sjálfsagt að ríkistryggja lífeyrissjóð alþingismanna og ráðherra. Auðvitað, ekki hef ég á móti því. Það er með alþingismenn eins og sjómenn að við erum fámenn stétt og eigum sjálfsagt afar erfitt með að halda úti eigin lífeyrissjóði. En væri það þá ekki nær að ríkistryggja lífeyrissjóð þeirra manna sem draga að landi næstum allt það sem þessi þjóð lifir af heldur en að skerða réttindi þeirra sem í sjóðnum eiga sér athvarf?
    Hæstv. forseti. Hvað sagði hv. þm.? Hann talaði um sjómannsekkjur sem þyrftu á peningum að halda. Já, ég býst við að þær þurfi þess. Ég held nefnilega að þær þurfi framfærslu og framfærsla þeirra í núverandi sjóði gæti verið milli 15 og 20 þús. kr. á mánuði. Þetta nær engri átt. Misréttið og óréttlætið í þessu þjóðfélagi er svo yfirgengilegt að það undrar mig að menn skuli geta treyst sér til að verja þetta. Og enn síður, eins og ég hef þegar sagt, skil ég samtök sjómanna. Sjóðurinn hefur samt, eins og ég benti á áðan, efni á að byggja yfir líklega forstjórann og ritarann og deildarstjórann og upplýsingastjórann og hvað það heitir nú sem vinnur á svona skrifstofum. Sjóðinn munaði ekki mikið um að renna út 35 millj. til þess. Það eru til peningar fyrir því. Trú mér til, þeir fara suður til Genfar á vinnumálafundi og einhver alþjóðasjómannasamtök og guð veit hvað. Ég segi aðeins eitt, hæstv. forseti, ég bara mótmæli þessu.