Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 16:24:20 (7988)


[16:24]
     Vilhjálmur Egilsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hygg að það geti verið hægt að segja sem svo að ýmist hafi allir brugðist eða enginn brugðist í þessu máli. Eins og hv. þm. gerði grein fyrir þá hygg ég að flestum hafi ljóst verið þegar þessi breyting var gerð að sjóðurinn ætti ekki fyrir þessum skuldbindingum. Síðan eru liðin 13 ár, hv. þm., og á þeim árum hafa setið margar ríkisstjórnir sem hafa ekki verið tilbúnar til að velta öllum þessum skuldbindingum yfir á ríkissjóð. Á þessum tíma hafa líka verið gerðir, hv. þm., nokkrir kjarasamningar milli sjómanna og útvegsmanna og í þeim hafa hvorki sjómannasamtökin né útvegsmenn staðið þannig að málum að iðgjöld til sjóðsins væru hækkuð til að hægt væri að standa undir þessum réttindum sem þarna var lofað. Þannig að ég hygg að það megi segja sem svo að þetta sé annaðhvort öllum að kenna eða engum. Staðan er einfaldlega þessi að réttindin eru meiri en eignir sjóðsins standa undir og framtíðarskuldbindingar eru slíkar að sjóðurinn getur ekki staðið undir þeim og það verður að taka á þessu máli. Samtök sjómanna og útvegsmanna vilja taka á málinu og þinginu er ekki stætt á öðru en að leyfa þeim að gera það.