Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 16:48:27 (7994)


[16:48]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa mikil tíðindi gerst. Formaður Sjómannafélags Reykjavíkur hefur neitað að reyna að efna til samstöðu um það að tryggja hagsmuni sjómanna. Hann kýs á þessu augnabliki að taka hagsmuni Sjálfstfl. fram yfir hagsmuni sjómanna og sjómannasamtakanna og Lífeyrissjóðs sjómanna. Það eru auðvitað mikil undur, verð ég að segja. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir sjómenn í landinu að gera sér grein fyrir því hvað hér er á ferðinni. Hér er maður sem í öðru orðinu telur sig vera talsmann sjómanna. Það harður flokksmaður að þegar honum býðst liðsinni til að sækja hagsmuni sjómannasamtakanna í landinu og sjómannastéttarinnar þá neitar hann samstöðunni um það mál. Það er mjög alvarlegur hlutur, hæstv. forseti.
    Hæstv. forseti. Ég hvet síðan til þess í framhaldi af þessum orðaskiptum að meðferð þessa máls verði frestað á þessu þingi þannig að hægt verði að leiðrétta mistök hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar í sumar þannig að það verði hægt að búa þetta mál með eðlilegum hætti í hendur Alþingis. Ég er tilbúinn til þess að hjálpa til við það.