Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 16:49:43 (7995)


[16:49]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég óska eftir að hæstv. sjútvrh. verði kallaður til umræðunnar, hann tók þátt í henni með býsna beinum hætti með frammíköllum og merkjasendingum í þingsalnum áðan. Er ekki hægt að verða við því að fá hæstv. sjútvrh. hingað? --- Hv. þm. Árni Johnsen er eitthvað óvenju ruglaður í ríminu ef hann heldur að hann sé sjútvrh. Það er nú sem betur fer ekki svo illa komið fyrir íslenskum sjávarútvegi. --- Má ég ekki bara gera hlé á ræðu minni, hæstv. forseti?
    ( Forseti (VS) : Forseti óskar eftir að hv. þm. bíði andartak. Hæstv. sjútvrh. hlýtur að vera hér alveg á næstu grösum.)
    Það dugar bara ekki.
    ( Forseti (VS) : Hæstv. sjútvrh. mun vera alveg á næstu grösum. Hv. þm. verður að doka andartak.)
    Hæstv. forseti. Mér leiðist nú frekar biðin, er ekki hægt að fresta þessari umræðu og taka eitthvað annað fyrir á meðan? Ég vil ekki tefja fyrir því að önnur mál komist hér að á meðan hæstv. sjútvrh. er dreginn hingað. --- Hæstv. forseti, ég held að þetta sé nú illa farið með tímann.
    ( Forseti (VS) : Hæstv. sjútvrh. er kominn í hliðarsal.)
    Já, hæstv. sjútvrh. heldur uppteknum hætti að hafa sig ekki inn í þingsalinn. Ég held að það verði að slá saman í sjóð og standa einhvern veginn straum af kostnaði til þess að senda hæstv. ráðherra í meðferð gagnvart þessari miklu fælni sem hæstv. ráðherra er haldinn, að taka með eðlilegum hætti þátt í þingstörfum. Það kann að vera að þeir séu orðnir óþægilegir ráðherrastólarnir í þessari hæstv. ríkisstjórn, og hafa sennilega alltaf verið það fyrir suma ónefnda hæstv. ráðherra, sem hafa átt erfitt með það að vera undir ýmsa aðra settir, eins og kunnugt er. En það er sérlega áberandi og pínlegt hvað hæstv. sjútvrh. þolir illa

við í sínu sæti í þingsalnum.
    Staðreyndin er sú að hér gerðust mjög óvæntir og satt best að segja alveg fáheyrðir hlutir undir lok þessarar umræðu, eða það héldum við að væri, sem ég held að sé algjörlega óhjákvæmilegt að taka hér upp með nýjum hætti. Það gerist hér að hv. 16. þm. Reykv., Guðmundur Hallvarðsson, kemur undir lokin á umræðunni með þau brigsl, með þann áburð á þá sem gegndu ráðherrastörfum í ríkisstjórn á þeim tíma þegar tilteknar breytingar voru gerðar á lögunum um Lífeyrissjóð sjómanna, að sökum vanefnda þeirra, svika á gefnum loforðum, um að ríkissjóður stæði straum af þeim útgjöldum sem leiddu af auknum réttindum sjómanna, m.a. til töku lífeyris við 60 ára aldur, væri þessum málum komið eins og komið er. Og hæstv. sjútvrh. bætti um betur og kom í hliðarsal, í dyr og með frammíköllum og merkjasendingum lét það álit sitt í ljós að þetta væri rétt, að m.a. hv. þm. Svavar Gestsson, þáv. hæstv. heilbr.- og trmrh., væri vanefndamaður af þeim fyrirheitum sem gefin hefðu verið á sínum tíma um það að bæta Lífeyrissjóði sjómanna þau útgjöld sem hann yrði fyrir vegna þessara auknu réttinda.
    Hvað er hér á ferðinni? Hér er það á ferðinni að til afgreiðslu er viðkvæmt og vandasamt frv., sem allir vita að er enginn gleðiboðskapur neinum manni, eða vonandi er það ekki svo, þar sem verið er m.a. að breyta lagaákvæðum þannig að úr lögum hverfi þau ákvæði sem tryggt hafa sjómönnum réttindi umfram aðra eftirlaunaþega, m.a. það að hefja töku lífeyris við 60 ára aldur eftir 25 ár á sjó, og þetta vald sé fært yfir í reglugerð í höndum stjórnar sjóðsins, sett með tilteknum hætti.
    Ég er nú í hópi þeirra þingmanna, hæstv. forseti, sem hafði á því skilning að stjórnendum Lífeyrissjóðs sjómanna þætti bera brýna nauðsyn til að reyna að taka á málum sjóðsins og ná þar endum saman og þess vegna vildu þeir m.a. fá í hendur heimildir til að takmarka þessi réttindi. En ég átti ekki von á því að stuðningur minn m.a. við það, með fyrirvara þó og skilyrðum, að þetta mál yrði afgreitt hér, yrði m.a. metinn með þeim hætti sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson eru hér bersýnilega að gera. Að kenna mönnum um þann vanda sem orðinn er í Lífeyrissjóði sjómanna og væntanlega er þá fundin skýringin sem hv. þingmenn Sjálfstfl., hæstv. sjútvrh., hinn hláturmildi í hliðarherbergjum, ætla að koma með gagnvart þeim sjómönnum m.a. sem stendur til að skerða stórkostlega lífeyrisréttindin gagnvart. Þetta er Alþb. að kenna. Þetta er ráðherrum Alþb. á sínum tíma, þeim hv. þingmönnum Svavari Gestssyni og Ragnari Arnalds, að kenna. Þeir sviku gefin loforð um að bæta Lífeyrissjóði sjómanna þessi útgjöld.
    Nú liggur það auðvitað þannig að hefði ríkisstjórn gefið með einhverjum skuldbindandi hætti loforð um það að bæta Lífeyrissjóði sjómanna útgjöld af þessum sökum þá er það ekki þannig að það sé bundið við einhverja einstaka ráðherra sem sitja í augnablikinu á ráðherrastólum. Hæstv. sjútvrh. hefur sennilega ekki heyrt um það að það er þannig með gildar embættisákvarðanir ráðherra að þær binda embættið sem slíkt og það verður þar með embættisskylda þeirra sem á eftir koma að framkvæma réttmætar og gildar ákvarðanir forvera sinna. Þannig að væri þetta tilfellið þá liggur málið þannig að það hefði verið embættisskylda allra þeirra ráðherra í embætti fjármálaráðherra og/eða tryggingaráðherra sem síðan hafa setið að uppfylla þessi fyrirheit. En hvar eru þessi fyrirheit annars staðar en í ómerkilegum tilraunum þingmanna Sjálfstfl. hér til þess að hengja vanda þessa máls á pólitíska andstæðinga sína? Hvar eru þau, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, hvar eru gögnin? Hvar eru skjölin? Hvers vegna er það sem forráðamenn Lífeyrissjóðs sjómanna óska nú eftir því að flutt sé frv. um þessa skerðingu? Það er vegna þess að það hafa aldrei verið dregin fram í dagsljósið nein gögn sem sýndu það að með skuldbindandi hætti hefðu verið gefin fyrirheit um það að Lífeyrissjóði sjómanna væru bættir þessir fjármunir. Og láta menn sér detta það í hug að frá slíku hefði verið gengið með einhverjum munnlegum hætti úti undir vegg, undir fjögur augu eða hvað? Hverjum heilvita manni dettur það í hug að fjmrh. mundi undir nokkrum kringumstæðum, nokkurn tímann, ganga þannig frá hlutunum? Auðvitað ekki.
    Hér kom það fram að við það sem snýr að tryggingahlið málsins hefur verið staðið og því er ekki á móti mælt, þannig að eftir hanga í lausu lofti þær fullyrðingar hv. þingmanna Sjálfstfl. um að þarna hafi verið gefin væntanlega þá einhver munnleg loforð sem svo hafa verið svikin. Og það verður að segjast alveg eins og er að það er náttúrlega óvenjuómerkilegur og lélegur málflutningur að fá þetta upp undir lokin á umræðunni með þeim hætti sem raun ber vitni. Það verður að vísu að segjast, hæstv. forseti, í fullri alvöru af þeim sem hér talar, að hér eiga að vísu í hlut þeir tveir hv. þm. Sjálfstfl. sem mér kemur einna minnst á óvart að standi fyrir ómerkilegheitum í málflutningi af þessu tagi og þar á ég við hv. þm. Guðmund Hallvarðsson og hæstv. sjútvrh. Þorstein Pálsson. Að mörgu leyti er það því miður þannig að þessi hv. þm. og hæstv. ráðherra leggjast á köflum óvenjulega lágt í ómerkilegum málflutningi sínum, eins og ég tel þetta atvik sýna og sanna. Þetta er að mínu mati óvenjulega léleg framkoma í garð annarra þingmanna og þeirra sem hafa átt aðild að afgreiðslu þessa máls eða meðferð þess hér á þinginu, óvenjulega léleg.
    Ég margóskaði eftir því í efh.- og viðskn. þegar þetta mál kom þangað öðru sinni til umfjöllunar að það yrði upplýst hvort eitthvað lægi fyrir í málinu um það að ríkisvaldið eða stjórnvöld væru með einhverjum hætti skuldbundin eða samningsbundin til að bæta Lífeyrissjóði sjómanna þessi útgjöld. Og hvaða svar fékk ég? Ég fékk það svar að það væri þýðingarlaust, gagnslaust, að reyna frekar í því máli. Það hefði aldrei borið neinn árangur og það hefði aldrei verið hægt að sýna fram á það með neinum sannanlegum hætti að nokkuð lægi fyrir um það að ríkisvaldinu bæri að bæta þennan halla. Það voru svörin sem

ég fékk. Var verið að ljúga að efh.- og viðskn.? Fékk hún ekki allar upplýsingar um málið? Sé svo, og geti þeir hér sannað mál sitt, hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, þá skora ég á þá að gera það og vera þá menn að meiri, en fara ekki hér með dylgjur af þessu tagi annaðhvort úr þessum ræðustóli eða á göngunum hringinn í kringum salinn, eins og hæstv. sjútvrh. hefur verið að gera í dag. Það er svo afspyrnuómerkilegt að jafnvel hæstv. sjútvrh. lækkar í loftinu við það að ganga þannig fram í þessu máli.
    Ég skora á hæstv. sjútvrh. að koma hér og standa við það, ef hann getur það, að það sé hans skoðun að það hafi verið gefin bindandi loforð um það á sínum tíma að Lífeyrissjóði sjómanna yrði bættur hallinn af því að flýta t.d. eftirlaunatökurétti sjómanna. Ef svo er og ef hæstv. sjútvrh. eða hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur eitthvað fyrir sér í þessu máli þá er auðvitað sjálfgefið, hæstv. forseti, að fresta afgreiðslu þessa máls. Sjálfgefið vegna þess að þá er það rekið á röngum forsendum og þá er sú ótrúlega staða uppi að sjálf stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna er að afsala Lífeyrissjóði sjómanna þessari leiðréttingu, þessum fjármunum frá ríkinu. Því hvað væri að gerast ef þetta mál, undir þeim formerkjum sem það er hér rekið, nær fram að ganga núna? Þá geta menn í öllu falli gleymt því að það þýði að koma eftir það til ríkisvaldsins og biðja um lagfæringu á fjárhagsstöðu sjóðsins á grundvelli einhverra fyrr gefinna loforða. Auðvitað á þá að fresta afgreiðslu málsins og það mun væntanlega ekki standa á þeim sem bera hagsmuni þessa sjóðs fyrir brjósti að ganga þá í lið með sjómönnum og sækja þessi réttindi sem á nú að fara að skerða. En að ætla sér að koma málinu í gegnum þingið með þessum hætti. Annars vegar að þrýsta á um að fá það afgreitt eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur hér gert, gengið á milli manna og óskað eftir því að fá málið afgreitt, m.a. leitað til þess sem hér talar og beðið um stuðning við það, að ég ræddi við mín flokkssystkin sem hafa haft efasemdir um málið og greiddi fyrir því að það næði fram að ganga. En á hinn bóginn segja, það er hins vegar þannig að þeir lofuðu því á sínum tíma, Svavar og Ragnar, hv. þingmenn, að ríkið ætti að bæta sjóðnum þetta upp og þeir eru auðvitað svikarar. Þetta gengur ekki upp, svona málflutningur gengur ekki upp því þetta er í fyrsta lagi þversögn og mótsögn. Ef hv. þm. og hæstv. sjútvrh. meina það sem þeir eru að segja þá verða þeir auðvitað að koma hér og gera hreint fyrir sínum dyrum. Eru þeir eru þá tilbúnir til að leggja til frestun á málinu og safna liði í því að það verði staðið við þessi svokölluðu loforð sem þeir eru að vitna til? Og hvar eru þau? Koma með þau. Ég geri því ekki skóna að mennirnir fari bara með tómt fleipur, ekki fullyrða menn þetta út í loftið. Eitthvað hljóta menn að hafa fyrir sér þegar þeir bera svona lagað upp á menn eins og hér var gert. Það er alveg á hreinu.
    Hæstv. forseti. Ég óska því eindregið eftir því að umræðunni ljúki ekki við þessar aðstæður. Ég skora reyndar á hæstv. sjútvrh., en það er auðvitað neðan við allar hellur að hann skuli ekki geta haldist við hérna inni í þingsalnum þegar reynt að eiga orðaskipti við hann. Það var tekin dálítil lota á þeirri lítilsvirðingu sem hæstv. sjútvrh. sýndi í raun og veru umræðum um sjávarútvegsmál í gær, þegar hér voru til umræðu stórmál á hans málefnasviði. Hæstv. ráðherra bar það ekki við að sitja inni í þingsalnum. Hann bar það ekki við að svara spurningum sem fyrir hann voru lagðar í þessu efni og hneykslaði auðvitað þá sem voru í þingsalnum við þetta tækifæri með framkomu sinni, leyfi ég mér að fullyrða, því það hafa fleiri en einn og fleiri en tveir rætt það við mig eftir þá frammistöðu hæstv. sjútvrh. í gærkvöldi. Nú er það sama upp á teningnum.
    Það er auðvitað ekkert hægt að ráðleggja hæstv. sjútvrh. annað en að gera það sem bersýnilega væri honum fyrir bestu og það er að segja af sér í hvelli því hæstv. ráðherra er greinilega gjörsamlega uppgefinn á því að gegna sínu embætti. Auðvitað er hann búinn að brotlenda með sinn málaflokk líklega harkalegar heldur en nokkur einstakur fagráðherra hefur gert í langan tíma, a.m.k. ráðherra sjávarútvegsmála, og það er skiljanlegt að hæstv. sjútvrh. sé svona heldur álkulegur á fluginu, hæstv. forseti, ef svo má að orði komast, sem sjútvrh. En það breytir ekki því að á meðan hæstv. sjútvrh. teppir stólinn þá verður hann að bera sig að sem slíkur þó hinn kosturinn sé auðvitað fyrir hendi og nærtækastur fyrir hann, að rýma hann, eins og þetta ber allt saman að.
    Hæstv. forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég var í þeim hópi sem ætlaði að standa að því, þó ég hefði vissulega um það efasemdir, að þetta mál yrði afgreitt nú hér á þinginu, þó það sé á margan hátt ekki í góðum búningi til þess, m.a. vegna þess að það hefur komið í ljós að málið er ekki nógu vel unnið. Það er ekki nógu vel unnið gagnvart baklandi sjómanna, það er ekki í sjónmáli samstaða um stjórn þessa lífeyrissjóðs og þar með um það hvernig staðið verði að setningu þeirrar reglugerðar sem hann á að starfa eftir og það er greinilegt að af þessum sökum einum væri að mörgu leyti æskilegast að fresta afgreiðslu málsins og vinna það betur. Þetta tel ég að menn hafi viðurkennt m.a. með því að fallast á að flytja þá brtt. sem hér er til umræðu við þessa 3. umr., að það verði ekki af þessum breytingum fyrr en efh.- og viðskn. þingsins hefur fengið til umsagnar þá reglugerð sem sjóðurinn á að starfa eftir í kjölfar breyttra laga. Ég lít svo á að með því séu menn í raun og veru að viðurkenna það að nokkru leyti að hér sé verið að taka mjög afdrifaríkt spor. Lífeyrisréttindi sjómanna hafa verið bundin í lögum í miklu ríkari mæli heldur en aðrar stéttir hafa átt við að búa og í raun og veru er það svo með flesta almenna lífeyrissjóði að þeir starfa eingöngu á grundvelli reglugerða en ekki laga. Það kemur til af því að um þessi réttindamál sjómanna hafa á Íslandi um áratugi og aldir gilt sérstakar reglur og það er ekkert nýtt og ætti ekki að vera neitt nýtt fyrir mönnum að t.d. um skattamál og lífeyrismál sjómanna væri búið með sérstökum hætti og þess vegna hér í lögum á Alþingi. Þannig að auðvitað eru það tímamót í sjálfu sér ef lögin verða nánast felld niður eða gerð að einfaldri rammalöggjöf og útfærsla þeirra að öllu leyti sett yfir

í reglugerð.
    Hæstv. forseti. Þetta hefði svo sem verið alveg nægjanlegt af minni hálfu til þess að ég hefði talið það ekki síður skynsamlegt að fresta afgreiðslu málsins, þó fyrir því séu vissulega líka rök að núverandi ástand sé erfitt og óþægilegt fyrir stjórnendur sjóðsins. Það skiljum við líka sem höfum skoðað stöðu hans. En þetta sem hér hefur bæst við í umræðuna kallar á alveg nýja upptekt á málinu, nema það skýrist þá í umræðum og svörum hæstv. sjútvrh. eða hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, sem reyndar er nú flúinn, hvernig þetta mál er vaxið ( GHall: . . .  hv. þm., ég hlustaði á orð þín.) og þeir reiði þá fram þau gögn eða komi með þær sannanir fyrir sínu máli sem dugi okkar í þessum efnum. Ég óska þess vegna eindregið eftir því að hæstv. sjútvrh. fyrstur manna ríði hér á vaðið og geri grein fyrir sjónarmiðum sínum í þessu máli þannig að við megum hlusta á þau og meta það svo eftir að hafa heyrt mál hæstv. ráðherra hvaða forsendur eru fyrir frekari umræðum eða áframhaldi þessa máls.