Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 17:12:07 (7996)


[17:12]
     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Það hefur nú komið í ljós við umræðu þessa máls að það er full ástæða til þess að skoða það betur. Það er liðið nokkuð á daginn og það hefur a.m.k. verið ljóst fyrir mér eftir fund með formönnum þingflokka í morgun að stefnt væri að því að ljúka þingstörfum í dag, en það yrði að gerast fyrir miðnætti, ef það ætti að takast, vegna þess að hæstv. forseti þingsins hefur ákveðið að ekki verði frestað fundum þings nema það takist að gera það fyrir miðnætti.
    Það eru ýmis mál eftir á dagskrá þingsins í dag sem þurfa umræðu og ekki er hægt að skilja við með einhverjum stuttum umræðum. Það er búið að boða töluverða umræðu t.d. um frumvarpið um villidýrin sem menn hafa talað mikið um áður. Mér finnst að það sé full ástæða og fullur rökstuðningur fyrir því að taka þetta mál af dagskránni og menn geta þá kannski rætt um það hvort einhver samkomulagsflötur er á því að taka það inn á dagskrá aftur í dag ef menn finna einhverja leið til að ná sátt í málinu. Það er alveg greinilegt að hér mun halda áfram umræðu um nokkra stund um þetta mál að óbreyttu. Og það er auðvitað krafa hv. þingmanna að hæstv. sjútvrh., sem hefur látið koma fram sínar skoðanir á þessu máli með samtölum við hv. þingmenn í hliðarsölum og annars staðar, geri grein fyrir sínum skoðunum í ræðustól í þinginu þannig að menn viti nákvæmlega hvað hann er að fara.
    Ég held að þetta ætti ekki að vera mjög erfitt, að ná samkomulagi um gang málsins. Það verður síðan að reyna á það hvort sá meiri hluti sem ber fram þessa tillögu vill taka sér þann tíma sem þarf þá til þess að ræða þetta mál. En ég legg áherslu á það, hæstv. forseti, að menn fresti þessari umræðu um stund á meðan málið verður kannað nánar.