Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 17:36:26 (8005)


[17:36]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Er ekki rétt að þetta mál heyri undir sjútvrh.?
    ( Forseti (StB) : Verðjöfnunarsjóður?)
    Já.
    ( Forseti (StB) : Forseti er nú ekki með þau skjöl hér við höndina nema . . .  )

    Ég held að við getum í sameiningu slegið því föstu að það geri það, en samt er það nú svo bara til þess að athygli sé vakin á því einu sinni enn að að sjálfsögðu er hæstv. sjútvrh. ekki viðstaddur þessa umræðu, ekki inni í þingsal frekar en venjulega. Og að sjálfsögðu svarar hæstv. sjútvrh. ekki spurningum sem hér eru fram bornar frekar en venjulega. Og að sjálfsögðu er ekki hægt að fá hér neina umræðu um það hvort hugsanlega sé hægt að ná einhverju samkomulagi um afgreiðslu þessa máls á grundvelli þess að breyta ráðstöfun þeirra fjármuna sem þarna standa eftir í sjónum eins og hér er annars vegar brtt. fyrir um og hins vegar hefur verið munnlega óskað eftir að tekið yrði upp. Ég tel það alveg nauðsynlegt, hæstv. forseti, að menn átti sig á því við hvaða kringumstæður og með hvaða hætti er verið að bjóða mönnum upp á þingslit, hvers konar eiginlega samskiptamáti það er að verða sem hér er upp tekinn, þvílík hyldýpis lítilsvirðing sem sérstaklega þingmenn Sjálfstfl. og hæstv. sjútvrh. sýna Alþingi við þessar aðstæður. Það er alveg með ólíkindum. Ég held að þessir menn séu á rangri hillu. Þeir líta greinilega svo niður á Alþingi Íslendinga að það getur varla verið samboðið þeirra virðingu að vera að sitja hér sem kjörnir þingmenn. Maður hlýtur að fara að spyrja sig að því hvers vegna í ósköpunum hæstv. sjútvrh. segir ekki af sér þingmennsku úr því að hann lítur svona niður á þennan vinnustað að það er fyrir neðan virðingu hans að sinna hér störfum eins og aðrir menn gera, þingmenn og ráðherrar. Hæstv. sjútvrh. er hér aldrei í þingsalnum, hann svarar aldrei spurningum, hann er aldrei í forsvari fyrir sinn málaflokk, treystir helst á hv. 5. þm. Norðurl. e. sem aðallega flytur svo málflutning Sjálfstfl. í formi frammíkalla undir umræðum. Ég skora einu sinni enn á hæstv. sjútvrh. að koma og svara þeirri spurningu eða þeim spurningum sem fyrir hann voru bornar í umræðu um þetta mál, annars vegar af mér og hins vegar í umræðum um þá brtt. sem ég flyt og hins vegar það sem hv. 9. þm. Reykv. dró inn í umræðuna.
    Annars er mér skapi næst, hæstv. forseti, að koma með þá stórsnjöllu tillögu til hæstv. forseta að hann fresti nú fundinum um stundarskeið og menn fari niður og fái sér kaffi, labbi jafnvel einn hring í kringum Tjörnina og velti því svo fyrir sér hvort menn geti ekki komið hérna til starfa aftur í svolítið betra skapi og léttara andrúmslofti og ræðst þá við af einhverjum einlægum vilja og viti um það hvort hægt sé að ná einhverjum botni í þinghaldið. Auðvitað er það svo að stjórnleysið og upplausnin í störfum þingsins sem er forustuleysinu og verkstjórnarleysinu að kenna er búið að vera með ólíkindum og það er nálægt að menn reyni nú að ljúka þessu með einhverjum sómasamlegu hætti svo að ég legg til að forseti hugleiði þessa góðu tillögu um að hann geri hlé á fundinum, fresti þessari umræðu og geri hlé á fundinum og hugsi sinn gang.