Afgreiðsla frumvarps til tollalaga

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 17:40:47 (8007)


[17:40]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Ég er nú ekki vanur að tefja störf þingsins en get því miður ekki orða bundist út af ákveðnu máli sem ég vil hér hreyfa.
    Fyrir þinginu hefur legið frv. til laga um breytingu á tollalögum, flutt af mörgum þingmönnum Sjálfstfl. Þetta mál var á fullri ferð og var komið frá efh.- og viðskn. inn í þingið. Frv. er um það að fjmrh. sé heimilt að reka eða leyfa rekstur verslana með tollfrjálsar vörur í flugstöðvum í Reykjavík, Keflavík og á mörgum stöðum úti á landi.
    Annað frv. hafði legið fyrir efh.- og viðskn. um breytingu á tollalögum. Það var frv. þingmanna Sunnlendinga og Austfirðinga um að það fengjust lagabreytingar fyrir aðaltollhöfn á Höfn í Hornafirði og í Þorlákshöfn. Þetta frv. var ekki afgreitt út úr nefndinni. Hv. formaður efh.- og viðskn. sem því miður er nú ekki staddur í salnum, nýr formaður Framsfl., hafði þann hátt á að hann flytur brtt. við frv. Guðmundar Hallvarðssonar og fleiri, flytur brtt. við það frv. um að Höfn í Hornafirði sé tekin inn sem tollhöfn en gleymir að taka Þorlákshöfn með. Því var það að við hv. þm. Guðni Ágústsson lögðum fram brtt. um að Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði yrði tekin inn sem aðaltollhafnir. Við vildum ekki gera greinarmun á þessum höfnum, heldur yrðu þær báðar teknar.

    Næst er að frétta af þessu máli að hæstv. fjmrh. virðist vera farinn að ákveða dagskrá fundar í stað forseta. Hann stöðvar þetta mál. Hann hafði víst dregist á við hv. formann efh.- og viðskn. að afgreiða Höfn en ekki Þorlákshöfn. Og við það að við leggjum fram tillögu um að Þorlákshöfn gangi líka fram, þá sýnist hæstv. fjmrh. stöðva allt málið, þar á meðal ágætt frv. Guðmundar Hallvarðssonar og fleiri og frv. versnaði ekki neitt við það að þessar tollhafnir yrðu teknar með.
    ( Forseti (StB) : Forseti vill minna hv. þm. á að hann óskaði eftir að ræða hér stjórn fundarins.)
    Ég gat ekki annað en rætt þetta undir þessum lið þar sem hæstv. fjmrh. virðist vera farinn að ákveða hér dagskrá eða hvað fer á dagskrá. Ég vil mótmæla þessum vinnubrögðum flokksbróður míns, hæstv. fjmrh. Það er alveg furðulegt að enda nú Alþingi á að leyfa ekki þessu frv. að fara í gegn og samþykkja aðaltollhafnir bæði í Höfn og Þorlákshöfn. Þetta er lítið mál. Það er lítill kostnaður við að afgreiða þetta í Þorlákshöfn og er alveg furðulegt að þessi sumargjöf sé ekki send til Þorlákshafnarbúa og svo Hafnarbúa. Hv. formaður efh.- og viðskn. er að vísu ekki hér staddur og er upptekinn, kannski að elta lestina hjá hæstv. lestarstjóra Jóni Baldvini til Brussel, en ég ítreka mótmæli mín, virðulegi forseti, við þessum vinnubrögðum.