Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 18:50:13 (8020)




[18:50]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég vil við lokaafgreiðslu þessa máls minna á það að við 1. umr. um málið í þinginu lýsti ég því yfir að ég mundi styðja það. Ég skildi vel þann vanda sem við væri að glíma á Vestfjörðum, en það yrði hins vegar að taka tillit til þess að það væru ýmsir fleiri staðir sem ættu við svipaðar aðstæður að glíma. Byggðastofnun var falið að kanna nánar hvernig háttaði til með önnur byggðarlög og það voru eftir því sem ég gat best skilið í því fólgin ákveðin fyrirheit um að málið kynni að taka breytingum í meðförum þingsins þar sem tekið yrði tillit til þess að það yrði að opna lögin fyrir aðstoð við fleiri staði. Nú er það því miður ekki gert og málið er auðvitað allt afar undarlega fram sett og ákvæði í því þess eðlis að það er mjög erfitt að framfylgja því, verður erfitt að láta það yfirleitt þjóna sínum tilgangi eða þær björgunaraðgerðir sem þarna á að vinna að. En þrátt fyrir það stend ég við það sem ég sagði við 1. umr., ég styð þetta mál, en lýsi óánægju minni með hvernig að því er staðið og að ekki skyldu gefast möguleikar á því að opna það frekar.