Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:03:44 (8028)

[19:03]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 1310 flyt ég till. til rökst. dagskrár sem er á þessa leið:
    ,,Þar sem fram hafa komið ábendingar um að ríkissjóður eigi að standa undir kostnaði Lífeyrissjóðs sjómanna vegna 60 ára lífeyrisaldurs sjómanna felur Alþingi ríkisstjórninni að kanna þessar ábendingar og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.``
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að þeim mönnum sem fyrr í dag, hæstv. sjútvrh. og hv. 16. þm. Reykv., töldu að ríkissjóður ætti að standa undir þessum kostnaði, gefist kostur á því að fara betur yfir málið. Ég skora á þá að styðja þessa tillögu vegna þess að þar með gefst þeim kostur á því að láta það koma fram að þeir hafi í raun og veru stuðst við rökrænan veruleika en ekki einhvern áróðurslegan tilbúning í höfðinu á sér. Ég sé að vísu að hæstv. sjútvrh. virðist ætla að greiða atkvæði gegn þessari tillögu sem kemur mér algerlega á óvart. Það bendir til þess að hann ómerki þar með ummæli sín frá því fyrr í dag. Hef ég sjaldan séð ráðherra með þessum hætti ómerkja ummæli sín með jafnstuttu millibili því að það er ekki nema rúmlega klukkutími frá því að hann viðhafði þau ummæli að fyrirheit lægi fyrir um að ríkissjóður ætti að standa undir þessum kostnaði.