Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:07:25 (8030)


[19:07]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það hafa orðið nokkuð athyglisverðar sviptingar í kringum meðferð þessa máls hér á þingi í dag og komið fram yfirlýsingar sem gerðu það að verkum að við þingmenn Alþb. brugðumst nokkuð hart við og óskuðum eftir því að menn færðu sönnur á mál sitt eða drægju þau ummæli til baka ella, að það væri sérstaklega sökótt við þá menn sem gegndu ráðherradómi á þeim tíma þegar breytingar urðu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna og 60 ára lífeyristökualdur kom til. Í framhaldi af þeim umræðum var svo flutt tillaga um frávísun eða rökstudda dagskrá og hefði þar með þeim mönnum sem töldu sig geta sannað og sýnt fram á að Lífeyrissjóður sjómanna ætti rétt á fjármunum úr ríkissjóði til að standa undir þessum útgjöldum gefist kjörið tækifæri til að fylgja orðum sínum eftir og styðja það að málið yrði skoðað í sumar, dregið fram gögn um þetta atriði. En nú brá svo við að það gerðu þessir sömu hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar ekki. Ég tel að með atkvæði sínu hér áðan hafi þeir ómerkt eigin ummæli, dregið þau til baka, þau hafi fallið dauð og ómerk og þá er í sjálfu sér af minni hálfu ekkert að vanbúnaði að ljúka umfjöllun um þetta mál og ég er eftir atvikum sáttur við það að umræðunni ljúki með þessum hætti, að menn svari sjálfum sér með atkvæði sínu eins og þeir hafa hér gert.