Vandi skipasmíðaiðnaðarins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:38:33 (8040)


[19:38]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Helsta vandamál íslensks skipasmíðaiðnaðar í dag er hvorki skortur á verkefnum né samkeppnishæfni. Helsta vandamálið er það að flest stærstu fyrirtækin í greininni ramba á barmi gjaldþrots eftir þá gríðarlegu erfiðleika sem þau hafa átt við að glíma síðustu 7--8 árin. Nú er svo komið að fimm af stærstu skipasmíðafyrirtækjunum eru í greiðslustöðvun, Slippstöðin Oddi, Stálsmiðjan, Þorgeir og Ellert, Skipasmíðastöð Njarðvíkur og Skipasmíðastöð Marsellíusar og það hlýtur að vera mál málanna að koma þessum fyrirtækjum í rekstrarhæft ástand að nýju. Hjá þeim unnu fyrir nokkrum árum 700--800 manns, en í dag má áætla að starfsmannafjöldi þeirra sé í mesta lagi 300 og fer niður í núll á næstu vikum ef ekki tekst að rétta fyrirtækin við.
    Það er nú svo margrætt hér á Alþingi hvers vegna svona er komið fyrir þessum iðnaði að það er kannski ekki ástæða til að vera að rifja það upp enn einu sinni. Ég er þeirrar skoðunar að það áhugaleysi og vantrú á íslenskum skipaiðnaði sem einkenndi sex ára ráðherraferil fyrrv. iðnrh. hafi vegið þar þungt, en þar hefur sem betur fer orðið jákvæð breyting með nýjum ráðherra.
    Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur ýmislegt verið gert til að laga grundvöll skipaiðnaðarins. Hæstv. sjútvrh. beitti sér fyrir breytingu á lögum um aðgengi erlendra skipa að íslenskum höfnum sem þegar hefur skilað verulegum verkefnum fyrir skipasmíðaiðnaðinn. Lánshlutföllum Fiskveiðasjóðs var breytt þannig að innlend framkvæmd fær hærra lán en erlend. Sett var fé í markaðs- og vöruþróun. Afnám aðstöðugjalds og lækkun vaxta hefur bætt afkomuna verulega. Framlag ríkisins til jöfnunaraðstoðar til að mæta niðurgreiðslum erlendra stöðva hefur skapað mikil verkefni og þarf að auka þau framlög. Þá er í bígerð að taka upp jöfnunartolla. Fleira mætti tína til, en allt þetta hefur gerbreytt samkeppnisstöðu skipasmíðastöðvanna sem jafnframt hafa notað erfiðleikaárin til að fara í nýja framleiðslu, m.a. á sviði fiskvinnslubúnaðar fyrir skip og fiskvinnsluhús.
    Ég tel því að framtíð þessarar iðngreinar sé bjartari en hún hefur verið um langt árabil að því gefnu að það takist að koma fyrirtækjunum í rekstrarhæft ástand á ný. Þar verður að koma til sameiginlegt átak ríkisvalds og lánastofnana. Ég er sannfærður um að möguleikar á stórfjölgun atvinnutækifæra eru hvergi meiri en einmitt í þessari grein þar sem laun eru hærra hlutfall af veltu en í flestum öðrum atvinnugreinum.