Vandi skipasmíðaiðnaðarins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:40:55 (8041)


[19:40]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin og sömuleiðis öllum þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni.
    Það er kannski rétt að rifja það upp að það kom fram þegar jöfnunaraðstoðin var ákveðin að gert var ráð fyrir því að nota hana til að greiða niður verkefnin um um það bil 13%. Það þýðir að við erum hér að tala um að tryggja veltu upp á um það bil 300 millj. kr. og af þeirri veltu er varlegt að áætla að ríkissjóður geti náð inn aftur a.m.k. allt að tvöfaldri þeirri tölu sem hann upphaflega leggur út í jöfnunaraðstoðina, jafnvel þrefaldri hef ég heyrt. Í raun og veru er það þannig að það borgar sig fyrir ríkissjóð að setja þessa peninga í verkið eins og margoft hefur komið fram, m.a. frá hæstv. iðnrh.
    Ég vil þess vegna hvetja mjög eindregið til þess að þessari jöfnunaraðstoð verði haldið áfram og hæstv. fjmrh. verði gerð grein fyrir því að hann beinlínis græði á því að opna aðeins ríkissjóð í þessu sambandi. Hér er líka um að ræða eina merkilegustu og efnilegustu iðngrein á Íslandi sem getur tekið við um þúsund manns í vinnu þegar upp væri staðið, grein sem hefur traustan alvörumarkað þegar fram í sækir. Greinin stendur hins vegar mjög illa núna þannig að það er brýnt að jöfnunaraðstoðinni verði haldið áfram. Þess vegna skora ég á hæstv. iðnrh. að láta hvergi deigan síga í þessum efnum fyrr en hæstv. fjmrh. hefur gert sér grein fyrir því hvað er ríkissjóði fyrir bestu í málinu.