Vandi skipasmíðaiðnaðarins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:43:07 (8042)


[19:43]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. fyrir þau orð sem fallið hafa í þessari umræðu. Ég vil aðeins upplýsa það að sú aðstoð sem hér um ræðir tryggir mun meiri veltu heldur en 300 millj. Hún tryggir það vegna þess að inni í veltunni eru ýmsar framkvæmdir, svo sem véla- og tækjakaup sem ekki eru styrkhæf. Þannig að ég gæti trúað því að sú velta sem þessi aðstoð tryggði sé eitthvað á fimmta hundrað millj. kr. þegar saman er talið.
    Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanna. Ég held að við séum sammála um það, það fer ekki á milli mála, að þær fjölþættu aðgerðir sem hefur verið gripið til hafa gerbreytt andrúmsloftinu í þessari iðngrein. Þar ríkir nú meiri bjartsýni, meiri framkvæmdavilji og meiri hugur í mönnum heldur en ríkt hefur

um langt skeið.