Skerðing á eingreiðslum til lífeyrisþega

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:50:34 (8045)


[19:50]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég er dálítið undrandi á því að þetta mál skuli valda slíku uppnámi nú. Ég vil taka það fram að um þetta atriði sem hér er til umræðu var ekki samið í síðustu kjarasamningum. Ég endurtek, var ekki samið í síðustu kjarasamningum á miðju sl. ári. Það hafði hins vegar verið samið um þetta atriði árið áður.
    Fjárlagafrv. sem lagt var fram var að mínu áliti nokkuð skýrt um þessu efni, enda gat hv. síðasti ræðumaður þess að það hefði komið fram í greinargerð með frv. og einnig í umræðum um frv., sérstaklega við 1. umr.
    Þá vil ég að það komi fram að 5. nóv. var gefin út yfirlýsing af hálfu forsrh. þar sem annars vegar var sagt að framkvæmdin á eingreiðslunum til lífeyrisþega yrði ákveðin í nánu samráði við samtök launþega og aðra hagsmunaaðila og einnig var sagt að aðgerðir í vaxtamálum væru reistar á þeirri forsendu að halli á ríkissjóði á næsta ári yrði alls ekki meiri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Þetta var að sjálfsögðu gert ljóst aðilum vinnumarkaðarins í byrjun nóvember sl.
    Þann 13. des. á síðasta ári var haldinn fundur með fulltrúum Alþýðusambandsins og á þeim fundi var sérstaklega rætt um það að gera þyrfti tillögur sem væru í samræmi við það sem kemur fram í fjárlagafrv., enda stóð ekki til að breyta frv. og því var ekki breytt eins og ég tel að hv. þingmenn hljóti að vita. Fulltrúar Alþýðusambandsins sögðu þá að þeir væru ekki tilbúnir til þess að standa að breytingum. Niðurstaða fundarins varð að starfshópurinn mundi starfa áfram en kynna sitt starf þegar hann hefði skilað einhverjum niðurstöðum. Þetta er þess vegna hluti af fjárlögunum og öllum varð ljóst allan tímann í hvert stefndi. Í morgun var svo haldinn samráðsfundur með annars vegar fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og hins vegar öðrum samtökum sem þetta mál snertir og lagðar fram tillögur á fundinum eða drög að tillögum öllu fremur til skoðunar, en auðvitað koma fleiri leiðir til greina.
    Það sem kannski skiptir mestu mál er að það er ekki hægt að búast við því að ríkissjóður geti búið við það til framtíðar að ákvörðun um eingreiðslur á borð við þessa sem við erum hér að ræða, ráðist algerlega af niðurstöðum kjarasamninga. Það gerðist til að mynda í næstliðnum kjarasamningum að lágmarkslaun eða þröskuldurinn var hækkaður talsvert og það margfaldaði þær greiðslur sem þarf að greiða út úr Tryggingastofnun ríkisins. Þá var um það samið, en það var ekki gert í síðustu kjarasamningum. Þetta þýðir að ríkisútgjöldin eigi að markast á hverjum tíma af samningum aðila vinnumarkaðarins án þess að þess sé getið eða um það samið við ríkisvaldið. Slíkt getur ekki gengið upp og það sem við erum að gera hér er að viðurkenna það að taka hluta upphæðarinnar sem samið var um í hittiðfyrra og koma henni fyrir í tryggingakerfinu með eðlilegum hætti, en ekki með sama hætti og gert hefur verið á undanförnum árum og fellur mjög illa að almannatryggingakerfinu. Um það eru ráðagerðir uppi.
    Þetta er það sem skiptir máli og ég held að það byggist á misskilningi ef menn halda því fram að um þetta hafi verið samið á sl. ári. Það var ekki gert. Það er ekki tímabært að ræða einstakar tillögur sem fram hafa komið. Það er skylda okkar í fjmrn. og þeirra sem að þessu koma í heilbrrn. einnig að tala við og eiga samráð við þá aðila sem þetta mál snertir. Það erum við að gera. Fundirnir sem haldnir hafa verið, þar á meðal í morgun, eru liður í því starfi og eiga þess vegna ekki að þurfa að vekja þetta uppnám sem hér hefur orðið í þessari umræðu.