Skerðing á eingreiðslum til lífeyrisþega

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:57:23 (8047)



[19:57]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni nokkuð sérkennilegt mál. Það var ljóst þegar frv. til fjárlaga kom fram að það stóð til að skerða lífeyrisgreiðslur um 200 millj., eins og kemur fram í frv. til fjárlaga á bls. 331. Það er líka ljóst að það fylgdu þar með ýmis önnur áform sem áttu að bitna á öllum almenningi, en ASÍ og fleiri brugðust hart við og töldu sig hafa komið í veg fyrir að þessi áform næðu fram að ganga, þar með taldar þessar 200 millj. Það er ljóst að ASÍ taldi að þetta mál hefði verið komið út af borðinu.
    Nú kemur fjmrh. og upplýsir það að hópur er búinn að vera að vinna í þessu máli og er með tillögur um það að þessi skerðing nái fram að ganga. Ég fæ ekki betur séð en með þessu sé hér verið að koma í bakið á verkalýðshreyfingunni. Það kann að vera að þarna sé einhver misskilningur á ferð, en þeir túlka það þannig og þessar upplýsingar koma þeim mjög á óvart. Og ef hæstv. fjmrh. ætlar að standa við þessi áform þá er hann auðvitað að efna til ófriðar við verkalýðshreyfinguna, það er alveg ljóst, og það gengur þá þvert á þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur staðið mjög fast við, að reyna að halda jafnvægi og friði á vinnumarkaði og birtist þessa dagana í þeirri gífurlegu hörku sem meinatæknar eru beittir af hálfu ríkisins. Ég get ekki látið hjá líða að minna á það að verkfall þeirra stendur enn og hefur staðið í sex vikur og virðist ekkert lát á, því miður. En ég get ekki annað en tekið undir það að ég skora á hæstv. ráðherra að lýsa því hér yfir að það verði ekki ráðist á lífeyrisþega með þeim hætti sem hér er fyrirhugað. Ég skora á hæstv. ráðherra að skoða þetta mál betur og standa við þau loforð sem Alþýðusambandið og fleiri töldu sig hafa fengið í þeim mótmælum sem hér áttu sér fyrir síðustu jól.