Skerðing á eingreiðslum til lífeyrisþega

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 20:06:00 (8051)


[20:06]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Svo vel vill til að í salnum er hæstv. forsrh. og það er óhjákvæmilegt að leggja fyrir hann spurningu í framhaldi af þeim upplýsingum sem komu fram frá hæstv. félmrh.: Hefur ríkisstjórnin samþykkt að fella niður eingreiðslur til aldraðra og öryrkja? Félmrh. segir nei. Ríkisstjórnin hefur ekki samþykkt það. Hæstv. fjmrh. segir hér allt annað og hans niðurstaða er greinilega á misskilningi byggð. En það er auðvitað nauðsynlegt í þessu sambandi að spyrja: Hefur ríkisstjórnin á fundi fjallað um það hvort þessar eingreiðslur verða felldar niður eða ekki? Og það er raunar alveg bersýnilegt að á grundvelli þess sem hæstv. félmrh. sagði hér áðan þá verður a.m.k. að ætlast til þess af hæstv. fjmrh. að það verði hætt við niðurskurð á þessum eingreiðslum til þeirra tekjulægstu í landinu. Er ekki hægt að finna aðra til þess að bera vanda ríkisjóðs heldur en aldraða og öryrkja? Það er satt að segja hrottalegur endir á þessu þingi ef svarið við þeirri spurningu er það að ríkisstjórnin finni enga aðra heldur en gamalt fólk og fatlaða.