Skerðing á eingreiðslum til lífeyrisþega

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 20:08:52 (8053)


[20:08]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er alveg ótrúlegt hvernig þetta ber hér að. Hæstv. fjmrh. setur undir sig hausinn og heldur því fram að þetta hafi allt verið ákveðið í fjárlögunum, sem er rangt. Vegna þess að það er alveg ljóst, bæði í forsendum greinargerðar fjárlagafrv., í umræðum um frv. við 2. og 3. umr., að þar stóðu

menn í gagnstæðri trú, að þessi skerðing hefði verið samin út af borðinu. Í yfirlýsingu hæstv. forsrh. er ekki minnst einu orði á skerðingu. Það er talað um endurskoðun á framkvæmd, meira í þeim anda sem hæstv. félmrh. talar hér áðan. Það er greinilegt að hæstv. félmrh. er algerlega á gagnstæðri skoðun við fjmrh. og telur að það eina sem hér sé til umræðu sé endurskoðun á framkvæmd og tilhögun þessara eingreiðslna. En það er ekki hægt að dulbúa 300 millj. kr. skerðingu, þar sem m.a. er felld út með öllu viðmiðun við láglaunabætur almenna vinnumarkaðarins gagnvart lífeyrisþegum, sem einhverja endurskoðun á framkvæmdum. Það er ekki þannig, hæstv. fjmrh. Og þó að 100 millj. færist yfir í lögin um félagslega aðstoð þá er það allt annar hlutur.
    Ég skora á hæstv. forsrh., sem ber ábyrgð á yfirlýsingunni frá 5. nóv. sl., á grundvelli hvers kjarasamningarnir voru framlengdir, að koma hér upp áður en þinginu lýkur og gefa um það yfirlýsingu að hann muni ekki ganga á bak orða sinna. Það er auðvitað alveg ljóst að Alþýðusambandið mælti með framlengingu kjarasamninganna á grundvelli þess að þessar bætur héldu sér til allra landsmanna, ekki bara sumra, og það er ekki hægt að fara svona með þennan hóp. Hann á það ekki skilið. Það er ömurlegur endir á þinghaldinu og kaldar kveðjur út í þjóðfélagið á síðasta kvöldi þinghaldsins frá hæstv. ríkisstjórn ef hún ætlar að skilja við þetta mál upp í loft, ég tala nú ekki um ef við megum eiga von á því að hæstv. fjmrh. hafi betur í þessari glímu. Það yrði ömurleg niðurstaða að rífa af lífeyrisþegunum láglaunabæturnar eða ígildi þeirra og skerða þessar greiðslur svo nemur um 300 millj. kr. Ég trúi því ekki að hæstv. forsrh. láti hæstv. fjmrh. hafa sig í það að sitja þegjandi undir þessari umræðu og skora á hann að koma hér upp og gefa þessa yfirlýsingu.