Þingfrestun

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 20:19:45 (8055)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Háttvirtir alþingismenn. Nú verður gefið stutt yfirlit yfir störf þingsins:
    Þingið stóð yfir frá 1. okt. til 21. des. 1993 og frá 24. jan. til 11. maí 1994. Þingfundadagar urðu alls 110. Þingfundir hafa verið 159.

     Þingmál og úrslit þeirra:

     Lagafrumvörp voru samtals 213. Stjórnarfrumvörp voru 132 og þingmannafrumvörp voru 81.
    93 stjórnarfrumvörp voru afgreidd sem lög, tvö voru kölluð aftur, en óútrædd stjórnarfrumvörp eru 37.
    18 þingmannafrumvörp urðu að lögum, sjö var vísað til ríkisstjórnarinnar, en 56 þingmannafrumvörp eru óútrædd.
    Af 213 frumvörpum urðu alls 111 að lögum.

     Þingsályktunartillögur voru alls 110.
    Stjórnartillögur voru 19 og þingmannatillögur 91.
    35 tillögur voru samþykktar sem ályktanir Alþingis, tveimur var vísað til ríkisstjórnarinnar og 73 eru óútræddar.

     Skýrslur voru samtals 25 skýrslur. Beiðnir um skýrslur frá ráðherrum voru sex og bárust skýrslur við öllum nema einni. 20 aðrar skýrslur voru lagðar fram.

     Fyrirspurnir bornar fram voru 278. Allar voru þær afgreiddar nema þrjár.
    Munnlegar fyrirspurnir voru 171 og var þeim öllum svarað nema einni sem var kölluð aftur.
    Beðið var um skrifleg svör við 107 fyrirspurnum og bárust 105 svör.
    
    Alls voru til meðferðar í þinginu 627 mál og þar af hlutu 455 þingmál afgreiðslu og fjöldi prentaðra þingskjala var 1320.

    Eins og sjá má á yfirlitinu hafa störf þessa þings verið með áþekku sniði og á undanförnum árum. Málatala hefur þó hækkað. Það stafar fyrst og fremst af því að fyrirspurnum hefur fjölgað, en hver og ein þeirra er talin sérstakt þingmál.
    Það er stundum sagt að þriðja þing hvers kjörtímabils sé rólegra þing en önnur á kjörtímabili. Þá hafi slotað stormviðri sem fylgir í kjölfar kosninga og menn séu enn að safna kröftum til nýrra átaka fyrir næstu kosningar. Að sumu leyti finnst mér sem svo hafi verið í vetur. Mörg merk mál hafa engu að síður hlotið afgreiðslu, lög sem vel hefur verið vandað til og vonir eru um að standi um langan tíma og önnur mál sem átök hafa verið um og varða mikilvæga hagsmuni í þjóðfélaginu.
    Þetta þing hefur verið styttra í tímum og dögum talið en hin fyrri á kjörtímabilinu. Skýringin er sú að sveitarstjórnarkosningar eru fram undan og að venju víkja landsmálin um sinn fyrir málefnum sveitarstjórna.
Enn fremur kann skýringar á yfirbragði þinghaldsins að vera líka að leita í þeim breytingum sem gerðar voru á þingsköpum sl. haust, en þá var leitast við að stytta 1. umr. um lagafrumvörp í því skyni að þau fengju athugun í nefnd áður en til mikilla umræðna kæmi hér í þingsalnum. Ekki er að svo stöddu unnt að meta hvort hér hafi orðið veruleg breyting, en ég hef orðið þess vör að margir þingmenn hafa þá skoðun að svo hafi orðið. Það er ljóst að það þarf að gera enn frekari breytingar á þingsköpum Alþingis og koma betra lagi á umræður hér í þingsalnum, eitthvað í þá veru sem við þekkjum frá þjóðunum í kringum okkur. Ég legg mikla áherslu á að slíkar breytingar leiði ekki til þess að réttur minni hlutans til að tjá sig og hafa áhrif á gang mála verði þrengdur. Breytingin á fremur að miða að því að umræðuformið hér á Alþingi komist í betri takt við samtímann, í takt við það upplýsingaþjóðfélag sem við lifum í.
    Þegar útvarpssendingar hófust frá Alþingi voru settar sérstakar reglur um slíkar umræður. Nú er hins vegar svo að meiri hluti þjóðarinnar hér í kringum þingstaðinn getur fylgst með störfum þingsins í beinni sjónvarpssendingu. Mér finnst eins og Alþingi eigi að athuga sinn gang, sín vinnubrögð með hliðsjón af þessum staðreyndum.
    Á þessu þingi var lögð fram tillaga til þingsályktunar um að forsætisnefnd Alþingis sjái til þess að sjónvarpsútsendingar frá þingfundum nái til landsins alls sem fyrst. Tillaga þessi á mikinn hljómgrunn í forsætisnefndinni og eflaust hjá þingmönnum öllum, en nauðsynlegt er að þetta mál verði kannað betur, einkum kostnaðarhlið þess, og er forsætisnefnd ráðin í því að ljúka athugun á þessu máli fyrir haustið.
    Ein af þeim breytingum sem stefnt var að með stjórnarskrárbreytingunni 1991 var að efla nefndastarf Alþingis. Ég hygg að flestir alþingismenn séu sammála um að vel hafi tekist til um starfsemi nefndanna og komist hafi meiri festa á nefndastörfin. Hitt er svo ljóst að við höfum ekki haft tækifæri til þess að búa nefndunum þau starfsskilyrði sem nauðsynlegt er. Þar er komið að húsnæðisvanda Alþingis, sem ekki verður gerður að umræðuefni hér, en óvíða kreppir meira að Alþingi en í nefndastarfinu. Ég hygg að margir þeir gestir sem koma á fund þingnefnda undri sig á því hve starfsaðstaða þeirra er bágborin.
    Ég vil líka í þessu sambandi minna á að hið breytta skipulag Alþingis hefur aukið vinnuálag á þingmenn. Algengt er nú orðið að þingmenn hefji nefndastörf klukkan átta að morgni og séu bundnir við störf sem tengjast þinginu með einum eða öðrum hætti fram undir kvöldmat flesta daga vikunnar og er þá ekki minnst á önnur störf sem krafist er að alþingismenn sinni utan sjálfra þingstarfanna og eru þau þó að sönnu mjög mikilsverð. Ég er ekki viss um að allir landsmenn geri sér að öllu leyti grein fyrir þeirri miklu vinnu sem krafist er af alþingismönnum.
    Nú hefur verið samþykkt tillaga til þingsályktunar um frestun á fundum Alþingis fram að þjóðhátíðardegi. Við horfum fram til þess að þann 17. júní verði þess minnst á Þingvöllum að 50 ár eru liðin frá því að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands gekk í gildi. Það fór fram á fundi Alþingis að Lögbergi 17. júní 1944. Sá atburður er þeim sem þar voru ógleymanlegur, mitt í skugga styrjaldarinnar úti í heimi. Það

er vissulega tilefni til þess að minnast þess nú þegar hálf öld er liðin og því hefur Alþingi ákveðið að halda fund á Þingvöllum í minningu þessa atburðar.
    Það er mín skoðun að Alþingi mætti oftar halda fundi á Þingvöllum en verið hefur þó tilefnin væru eitthvað minni en nú er. Það er sannfæring okkar að Alþingi það er nú starfar sé framhald þess þings sem forfeður okkar komu á fót fyrir 1064 árum. Alþingi hefur verið rauði þráðurinn í þjóðarsögu Íslendinga alla tíð og það fór því vel á því, og í rauninni kom ekkert annað til greina, en að því yrði lýst yfir að Lögbergi við Öxará að Ísland væri orðið lýðveldi. Ég veit að þingflokkar munu vinna ötullega að því að ná samstöðu um verðug málefni sem fram verða borin á fundinum á Þingvöllum.
    Nú við lok þinghaldsins vil ég þakka öllum alþingismönnum fyrir ánægjulegt samstarf á þessu þingi. Sérstakar þakkir færi ég varaforsetum fyrir ágæta samvinnu og aðstoð við stjórn þinghaldsins, svo og formönnum þingflokkanna fyrir mjög gott samstarf.
    Starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð og fyrir mikið og gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna. Skrifstofustjóra, Ólafi Ólafssyni, þakka ég sérstaklega fyrir hönd okkar alþingismanna. Hann mun senn ljúka langri og dyggri þjónustu í þágu Alþingis, tæplega fjögurra áratuga starfi, en hann lætur af störfum síðla sumars. Hafi hann bestu þakkir fyrir störf sín hér á Alþingi.
    Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á ný er Alþingi kemur saman til þess að minnast 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi.