Þingfrestun

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 20:29:48 (8056)


[20:29]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Fyrir hönd okkar alþingismanna vil ég þakka hæstv. forseta fyrir hlý orð og góðar óskir okkur og fjölskyldum okkar til handa. Árið 1994 hefur verið tileinkað fjölskyldunni og nú óska ég þess að virðulegur forseti og við alþingismenn getum notað þetta þinghlé til að gefa okkur meiri tíma með fjölskyldunni og ég vænti þess að vinna okkar á komandi haustþingi beinist í enn meira mæli að því að bæta hag fjölskyldunnar í þessu landi.
    Þetta þing hefur um margt verið með betri svip en oft áður og vil ég þakka það m.a. þeim árangri sem náðist við breytingu þingskapalaga á sl. hausti. Ég vona að áframhald verði á því. Þótt við gerum nú hlé á reglubundnum þingfundum um sinn fer því fjarri að um raunverulegt frí sé að ræða, eins og margir fyrir utan þetta virðulega hús virðast álíta. Þingmenn og forseti þurfa áfram að sinna miklu og erilsömu starfi þó að þingfundum ljúki. Það gildir ekki hvað síst um virðulegan forseta vorn sem hefur með höndum skipulagningu allra funda Alþingis.
    Ég vil óska hæstv. forseta allra heilla í mikilvægu starfi. Ég vil einnig óska forseta og fjölskyldu hennar góðs sumars. Enn fremur færi ég öllu starfsfólki þingsins þakkir okkar þingmanna fyrir frábærlega vel unnin störf í þágu þingsins í allan vetur og ekki síst þann tíma og við þær annir sem ríkt hafa undanfarið. Ég vil einnig taka undir þakklæti og góðar óskir til handa skrifstofustjóra Alþingis.
    Ég vil biðja hv. þingmenn að taka undir þessi orð mín með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]