Endurskoðun VII. kafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands

160. fundur
Fimmtudaginn 16. júní 1994, kl. 10:10:07 (8066)


[10:10]
     Flm. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir till. til þál. um endurskoðun á VII. kafla stjórnarskrár Íslands. Tillagan liggur fyrir á þskj. 1321. Samkomulag hefur orðið milli þingflokkanna um flutning þessarar tillögu í tilefni 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar, í tilefni 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi, að stefna beri að því að ljúka endurskoðun VII. kafla stjórnarskrárinnar, nr. 33 17. júní 1944, með síðari breytingum, fyrir næstu reglulegu alþingiskosningar.
    Miðað verði m.a. að því að færa ákvæði kaflans til samræmis við þá alþjóðlegu sáttmála um mannréttindi sem Ísland hefur gerst aðili að. Við endurskoðunina verði höfð hliðsjón af tillögum stjórnarskrárnefndar frá 5. apríl 1994.``
    Ég vil strax í upphafi láta það koma fram að VII. kafli stjórnarskrárinnar er margbreytilegur að efni. Þar er fjallað um mannréttindi sem borgurunum eru tryggð, svo og ýmis önnur atriði, t.d. ríkisborgararétt útlendinga, vörn landsins og hvernig standa skuli að breytingum á stjórnarskránni. Þó að kaflinn fjalli þannig um mörg ólík atriði hefur hann í daglegu tali iðulega verið nefndur mannréttindakafli stjórnarskrárinnar þar eð þær greinar, sem lúta að mannréttindum, eru rúmlega helmingur allra greina kaflans eða alls 8 greinar af 15.
    Það er skoðun okkar flutningsmanna að tímabært sé að VII. kafli stjórnarskrárinnar verði endurskoðaður og þá hugsanlega skipt í tvo eða fleiri kafla og mannréttindaákvæði hans þannig aðgreind frá öðrum ákvæðum. Við teljum að ýmislegt kalli á endurskoðun VII. kafla, ekki síst mannréttindaákvæðanna, og vel sé við hæfi að Alþingi taki ákvörðun um slíka endurskoðun nú þegar fagnað er hálfrar aldar afmæli lýðveldis á Íslandi.
    Þær breytingar sem mikilvægast er að gera á kaflanum varða mannréttindaþátt hans og því mun ég í framsögu minni einkum fjalla um þau atriði.
    Að mati okkar flutningsmanna þarf að efla, samhæfa og samræma mannréttindaákvæðin þannig að þau gegni betur en nú því hlutverki sínu að vera vörn almennings í samskiptum við þá sem með ríkisvald fara. Í því sambandi vil ég leggja áherslu á tvennt.
    Í fyrsta lagi eru mörg mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar ófullkomin auk þess sem þörf er á því að færa ýmis ákvæði til nútímalegra horfs, enda eru þau óbreytt frá því að fyrsta stjórnarskrá Íslands var sett árið 1874. Ég vil í þessu sambandi nefna að ákvæði stjórnarskrárinnar um trúfrelsi, ákvæðin um friðhelgi heimilis, ákvæðin um prentfrelsi og ákvæðin um félagafrelsi hefta ýmist í engu eða takmörkuðu leyti vald löggjafans. Sum mannréttindaákvæði ganga skammt efni sínu samkvæmt. Ákvæði 72. gr. nær þannig aðeins til prentfrelsis en eigi til tjáningafrelsis almennt. Þá fjallar 65. gr. fyrst og fremst um handtöku, sem er liður í rannsókn refsimála, en frelsi og réttaröryggi almennt nýtur þar ekki verndar. Einnig má nefna að 66. gr. verndar ekki einkalíf manna yfirleitt heldur takmarkast við ákveðna þætti þess.
    Í öðru lagi er tímabært að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar séu endurskoðuð með tilliti til þeirra þjóðréttarlegu skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir með því að gerast aðili að alþjóðlegum sáttmálum til verndar mannréttindum. Er þar einkum að nefna mannréttindasáttmála Evrópu frá 4. nóvember 1950, ásamt síðari viðaukum, sem lögfestur var hér á landi sl. vor, félagsmálasáttmála Evrópu frá 18. október 1961 og tvo mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 16. desember 1966, annars vegar um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hins vegar um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
    Aðstaðan hér er sú að íslensk lög ganga a.m.k. að ýmsu leyti skemmra í vernd mannréttinda en þessir sáttmálar. Getur þetta valdið vanda í lagaframkvæmd hér á landi og jafnframt orðið til þess að íslenska ríkið verði dregið til ábyrgðar fyrir þeim alþjóðastofnunum sem ætlað er að framfylgja nefndum mannréttindasamningum.
    Eins og fram kemur í texta þáltill. er gert ráð fyrir að við endurskoðun mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar verði höfð hliðsjón af tillögum stjórnarskrárnefndar frá 5. apríl sl. Ég vil því taka fram að veruleg vinna hefur þegar verið unnin að endurskoðun mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar á vegum stjórnarskrárnefndar og hafa færustu sérfræðingar unnið fyrir og með nefndinni að málinu.
    Nefndin hefur á allmörgum fundum sínum rætt þennan hluta stjórnarskrárinnar og á fundi hennar 5. apríl sl. náðist samstaða um tillögur sem sendar voru ríkisstjórn og þingflokkum. Þær tillögur eru birtar sem fskj. með þáltill. þessari. Nokkrir nefndarmanna lýstu þó áhuga á að taka inn fleiri ákvæði í mannréttindahluta stjórnarskrárinnar en um þau varð ekki samstaða innan nefndarinnar.
    Ég tel mikilvægt að þingflokkarnir komi sér sem fyrst saman um tillögur um breytingar á VII. kafla stjórnarskrárinnar og leggi fyrir Alþingi strax í haust. Þannig er tryggt að þingið hafi nægan tíma til að fjalla um málið og geti afgreitt frv. til stjórnskipunarlaga fyrir lok þinghalds, sem væntanlega verður í mars 1995, þar sem frv. til stjórnskipunarlaga þarf að samþykkja á tveimur þingum til að það öðlist gildi. Mætti með þessum hætti taka málið til meðferðar á ný þegar á fyrsta þingi á næsta kjörtímabili.
    Þegar rætt er um hvaða mannréttindaákvæði skuli vera í stjórnarskrá er oft erfitt að draga mörkin og margt lendir utan stjórnarskrár sem vissulega má líta á sem mikilvæg mannréttindamál. Mér kemur t.d. í hug sú umræða sem var fyrir stuttu um aðgengi hreyfihamlaðra að opinberum stofnunum. Engum blandast hugur um að hér er um mikið hagsmunamál fatlaðra að ræða og að líta megi á kröfu þeirra um að allar opinberar byggingar í landinu séu aðgengilegar fötluðum sem eðlilega mannréttindakröfu. Ég vil því nota þetta tækifæri til að láta í ljós ánægju með yfirlýsingu Davíðs Oddssonar forsrh. um að gerð verði könnun á aðgengi fyrir fatlaða í opinberum stofnunum. Slík könnun væri mikilvægur liður í því að hrinda í framkvæmd úrbótum á þessu sviði fyrir fatlaða.
    Þó að við Íslendingar höfum búið við stjórnarskrárvarin mannréttindi meira en heila öld og séum farnir að líta á slíkt sem sjálfsagðan hlut er okkur hollt að minnast þess að í stórum hluta heimsins nýtur fólk ekki slíkra réttinda. Daglega berast okkur fréttir af mannréttindabrotum víða um heim. Barátta fyrir sjálfsögðum grundvallarmannréttindum er því víða háð enn. Í þessu sambandi ber að virða sérstaklega starf samtaka á borð við mannréttindasamtökin Amnesty International, sem unnið hafa mikið og gott verk á undanförnum áratugum. Það er einnig ánægjulegt að á þjóðhátíðardaginn 17. júní er ætlunin að stofna á Þingvöllum íslensku mannréttindaskrifstofuna, en að henni standa meðal annarra Íslandsdeild Amnesty International, Rauði kross Íslands, Biskupsstofa og Lögmannafélag Íslands. Eitt af hlutverkum hennar verður að útbreiða þekkingu og fræðslu sem hjálpað geti fólki til að tileinka sér sjónarmið mannréttinda. Það er von mín að stofnun Mannréttindaskrifstofunnar verði til að efla virðingu hérlendis fyrir mannréttindum og um leið geti Íslendingar lagt meira af mörkum til alþjóðlegrar baráttu fyrir auknum mannréttindum víða um heim.
    Það er ósk mín og trú að við Íslendingar megum ávallt standa í fremstu röð þeirra þjóða sem virða mannréttindi í orði og verki. Þjóðirnar á meginlandi Evrópu hafa hins vegar valdið vonbrigðum þegar við lítum til þess hildarleiks sem nú er háður í Júgóslavíu. Gróf mannréttindabrot og viðurstyggilegt ofbeldi innan sjálfrar Evrópu hefur valdið okkur hryggð og skapað vantrú á samtökum Evrópuríkja og reyndar einnig Sameinuðu þjóðunum. Hinar voldugu þjóðir Evrópu hafa í reynd brugðist og hik þeirra og skortur á samstarfi hefur kostað óbærilegar þjáningar fyrir hundruð þúsunda íbúa fyrrum ríkja Júgóslavíu.
    Þá getum við heldur ekki gleymt ofbeldi, mannúðarleysi og grimmd í ýmsum ríkjum Afríku og Asíu. Við biðjum og vonum að þessar þjóðir geti í framtíðinni lifað við lík mannréttindi og lífskjör og við búum við þó að um leið sé rétt að líta í eigin barm og vona að okkur takist að tryggja að íslenskir þegnar eigi eftir að búa við enn öruggari og betri mannréttindi.
    Ég get ekki lokið máli mínu án þess að minnast á það sem ég tel vera ánægjulegasta viðburðinn á sviði mannréttindamála á þessu ári á alþjóðavettvangi en það er sigur lýðræðis og mannréttinda í Suður-Afríku. Þar standa vissulega upp úr Nelson Mandela og de Klerk, sem báðir hafa sýnt mikið hugrekki á erfiðum tímum. Þeir hafa án nokkurs vafa átt stærsta þáttinn í því hversu átakalaust umskiptin hafa gengið fyrir sig í landinu. Sameiginlega hafa þeir náð ótrúlegum árangri í því að leggja grunn að lýðræðisríki Suður-Afríku. Mestar væntingar eru vitaskuld nú bundnar við Nelson Mandela, nýkjörin forseta landsins, sem stigið hefur fram á leiksvið sögunnar sem einn af helstu stjórnmálaleiðtogum síðari hluta 20. aldarinnar, maður sátta og umburðarlyndis og laus við hatur og hefnigirni þrátt fyrir að hafa setið fangelsi hvíta minni hlutans í nær 30 ár. Ég vil því ljúka ræðu minni með því að óska honum og leiðtogum hvítra manna í þessu landi alls hins besta í því erfiða starfi sem þeirra bíður.
    Að lokum legg ég til, virðulegi forseti, að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu.