Ávarp forseta Íslands

162. fundur
Föstudaginn 17. júní 1994, kl. 11:46:01 (8082)

[11:47]
     Forseti Íslands (Vigdís Finnbogadóttir) :
    Forseti Alþingis, háttvirtir alþingismenn, góðir Íslendingar.
    Við minnumst þess í dag að hálf öld er liðin síðan því var lýst yfir hér á Lögbergi að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands væri gengin í gildi, hinn 17. júní 1944. Hér kaus Alþingi þann dag fyrsta forseta Íslands, Svein Björnsson. Hér á völlunum voru þennan hátíðar- og þjóðfrelsisdag saman komnir 25 þúsund Íslendingar til þess að fagna straumhvörfum í sögu þjóðarinnar. Loks höfðu landsmenn tekið öll sín mál í eigin hendur, öðlast fullt og óskorað sjálfstæði eftir að hafa lotið erlendri stjórn í liðlega sex aldir.
    Stofnun lýðveldis á Íslandi átti sér að sjálfsögðu langan og merkilegan aðdraganda. Á öndverðri 19. öld námu framsýnir íslenskir menn frelsisþeyinn sem fór um Evrópu í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789 og hófu á loft hugsjónafánann fyrir þjóð sína. Stjórnmálamenn í höfuðborg danska konungsríkisins hlýddu kalli tímans og sýndu Íslendingum meiri skilning en títt er í samskiptum tveggja þjóða. Í frelsisbaráttu sinni var þjóðin aldrei beitt þeirri óbilgirni sem valdið hefur illvígum átökum um víða veröld allt fram á þennan dag.
    Þjóðhollir hugsjónamenn nutu forustu og leiðsagnar Jóns Sigurðssonar, ruddu brautina og vörðuðu veginn til frelsis, farsældar og bjartari framtíðar. En þjóðfrelsisbaráttan var á stundum þung í vöfum, gekk ekki jafngreitt og frumherjarnir höfðu vænst. Eftir sár vonbrigði á þjóðfundinum 1851 reis Jón Sigurðsson upp og brýndi menn með þessum orðum: ,,Við getum seiglast, ef við nennum því og tekið okkur fram í mörgu, því við erum enda ekki undir frelsið búnir fyrr en við höfðum gengið nokkuð í gegnum.``
    Liðlega tveimur áratugum síðar, 1874, fagnaði þjóðin stjórnarskránni, en vissulega urðu Íslendingar að ,,ganga nokkuð í gegnum`` og þreyta sín próf áður en næstu stóráfangar voru í höfn, heimastjórn árið 1904 og síðan samningurinn milli Dana og Íslendinga um að Ísland skyldi vera frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku 1. desember 1918. Þann dag kom frelsið til Íslands. Með þeim sáttmála var endanlega mörkuð föst stefna og kveðið á um endurskoðun sem báðum samningsaðilum var þá þegar fullljóst að mundi leiða til fulls sjálfræðis Íslendinga á öllum sviðum. Næsti aldarfjórðungur skyldi vera umþóttunar- og undirbúningstími fram að þeim þáttaskilum er Íslendingar öxluðu sjálfir alla ábyrgð.
    Aldamótakynslóðin sem í landinu bjó taldi rúmlega 90 þúsund sálir, fátækt fólk sem reri til fiskjar á illa búnum fleytum og arði landið með amboðum víkingaaldar. Árið 1911 eignaðist þjóðin eigin háskóla og á undirbúningsárunum frá 1918 til 1944 er stórfróðlegt að fylgjast með hvernig eldhugar í hópi háskólakennara og stjórnmálamanna leggjast á eitt við að skapa þjóðinni þá sjálfsímynd sem hana hafði að mati Jóns Sigurðssonar skort árið 1851. Þeir tóku höndum saman við aðra baráttuhópa úr öllum stéttum og starf þeirra var undir eitt markmið sett: Að hér yrði á nýjan leik alsjálfstæð þjóð í eigin landi. Þegar tími var til þess kominn tók þjóðin af öll tilmæli: 98,6 af hundraði greiddu atkvæði, eða fleiri en nokkru sinni fyrr eða síðar í kosningum á Íslandi og 99,5 af hundraði þeirra sem greiddu atkvæði voru fylgjandi stofnun lýðveldis á Íslandi.
    Hér bar þann skugga á að styrjöld geisaði í Evrópu. Danmörk var hersetin og vitanlega hlutu Íslendingar að velta því fyrir sér hvort sú staðreynd ætti að breyta einhverju um þessa ákvörðun sem hafði verið í undirbúningi í fjórðung aldar. Margir Íslendingar höfðu verið við nám og störf í Danmörku og áttu Dönum gott eitt upp að inna. Það var því ekki óeðlilegt að ýmsum yrði hugsað til þess á stofndegi lýðveldisins að nú væri vík milli þeirra og danskra vina. Íslendingar urðu því djúpt snortnir á Þingvöllum hinn 17. júní 1944 þegar hingað barst skeyti með heillaóskum frá Kristjáni Danakonungi tíunda og var lesið upp við mikinn fögnuð hér að Lögbergi.
    Gagnvart Dönum eins og öðrum vinaþjóðum og grönnum iðkum við þá jafnvægislist að láta okkur annt um sérkenni okkar og þjóðararf samtímis því að skoða með opnum hug það sem þeir hafa fram að færa. Reynslu úr síbreytilegum heimi berum við svo hingað norður í svalann og blöndum í deiglu menntunar, menningar og lista saman við það besta sem heimafengið er.
    Á hálfrar aldar afmæli lýðveldisins verður okkur einnig hugsað til þeirrar kynslóðar sem hér kom saman fyrir 50 árum. Við hljótum að spyrja: Hvað var það sem menn vildu þá, hvað töldu þeir sig hafa unnið með fullu sjálfræði? Í hátíðaljóðum sínum svaraði skáldkonan Unnur Benediktsdóttir Bjarklind, Hulda, þessu fyrir hönd allra Íslendinga þegar hún sagði:

          Ó Ísland, fagra ættarbyggð,
          um eilífð sé þín gæfa tryggð,
          öll grimmd frá þinni ströndu styggð
          og stöðugt allt þitt ráð.
          Hver dagur líti dáð á ný.
          Hver draumur rætist verkum í,

          svo verði Íslands ástkær byggð
          ei öðrum þjóðum háð.
          Svo aldrei framar Íslands byggð
          sé öðrum þjóðum háð.

    Frelsið skipti þá sem nú meginmáli. Frelsið og sjálfstæðið, það sem fólst í að vera engum háður. Það hafði verið draumur íslenska bóndans, íslenska sjómannsins, íslensku húsfreyjunnar um aldir.
    Á þessum þjóðfrelsisdegi heiðrum við minningu þeirra ótöldu Íslendinga sem í orði og verki lögðu grunn að því þjóðríki sem við tókum í arf. Það er okkar að gæta fengins frelsis og við megum ekki gleyma liðinni tíð og tapa áttum. Staðfastur vilji til að ráða lífi okkar og gerðum skiptir meginmáli. Við viljum vera sjálfstætt fólk.
    Lýðveldið íslenska grundvallast á lýðræði sem samofið er sögu þjóðarinnar. Hugsjónir þess eru mannhelgi og mannréttindi, frelsi til orðs og athafna, virðing fyrir skoðunum, sannfæringu og samvisku þeirra sem eru samferða okkur á líðandi stund.
    Kynslóðir koma, kynslóðir fara. Okkur ber að hlúa að því æskufólki sem nú er að komast á manndómsár, --- hinni nýju aldamótakynslóð. Hún mun leiða íslenska þjóð inn í ókomna tíð og fær það vandasama verkefni að gæta fjöreggs okkar, sjálfstæðisins.
    Minningar þjóðarinnar verða ekki metnar til fjár en hafa dugað Íslendingum í aldanna rás til að efla með sér sjálfstraust og þann innri styrk sem þurfti til að þrauka á tímum erfiðleika og andstreymis. Menning og arfur liðinna alda er og verður það veganesti sem hverri nýrri kynslóð er ætlað að færa börnum sínum. Þannig tekur nútíð höndum saman við fortíð til að skapa framtíð.
    Megi Guð vors lands blessa þjóðina og landið um ókomna tíð.