Forseti Íslands setur þingið

0. fundur
Föstudaginn 01. október 1993, kl. 14:16:00 (1)

     Forseti Íslands (Vigdís Finnbogadóttir) :
    Hinn 23. september 1993 var gefið út svofellt bréf:
    ,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:
    Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar föstudaginn 1. október 1993.
    Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett, að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.
Gjört í Reykjavík, 21. september 1993.

Vigdís Finnbogadóttir.

_____________
Davíð Oddsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman til fundar föstudaginn 1. október 1993.``

    Samkvæmt bréfi því sem ég nú hef lesið lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett. Bið ég yður að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.
    [Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þessi orð með ferföldu húrrahrópi.]
    Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi þar til kosning forseta Alþingis hefur farið fram. Ég bið aldursforseta, Matthías Bjarnason, 1. þm. Vestf., að ganga til forsetastóls.