[14:21]
     Aldursforseti (Matthías Bjarnason) :
    Nú verður minnst látins fyrrv. alþingismanns.
    Eysteinn Jónsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, andaðist á Landspítalanum 11. ágúst, 86 ára að aldri.
    Eysteinn Jónsson var fæddur á Djúpavogi 13. nóvember 1906. Foreldrar hans voru hjónin Jón prestur í Hofsþingum í Álftafirði Finnsson prests á Klyppstað í Loðmundarfirði Þorsteinssonar og Sigríður Hansdóttir Becks bónda og hreppstjóra á Sómastöðum í Reyðarfirði, sonar Christens Becks verslunarmanns á

Eskifirði. Að loknu námi í barnaskóla stundaði hann verslunarstörf og ýmsa aðra vinnu 1921--1923 og sjómennsku 1924--1925 jafnframt heimanámi hjá föður sínum. Haustið 1925 hóf hann nám í Samvinnuskólanum og lauk þaðan prófi vorið 1927. Sumarið 1929 var hann við nám í Pitman College í Lundúnum.
    Að loknu námi í Samvinnuskólanum var Eysteinn Jónsson starfsmaður Stjórnarráðsins á árunum 1927--1930 og jafnframt stundakennari við Samvinnuskólann og endurskoðandi fyrir Skattstofu Reykjavíkur 1928--1930. Skattstjóri og formaður niðurjöfnunarnefndar Reykjavíkur var hann 1930--1934. Árið 1933 var hann kjörinn alþingismaður í Suður-Múlasýslu, 26 ára, og endurkjörinn 1934. Hefst þá ráðherraferill hans, 27 ára gamals, yngsta manns sem setið hefur í ráðherrastóli á Íslandi. Hann var fjármálaráðherra 1934--1939, viðskiptamálaráðherra 1939--1942, menntamálaráðherra og fór einnig með kirkju-, heilbrigðis- og flugmál 1947--1949, fjármálaráðherra 1950--1956 og fjármála- og samgöngumálaráðherra 1956--1958. Frá 1943--1947 var hann framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar Eddu. Á Alþingi átti hann sæti nær samfellt frá 1933--1974, var utan þings skamman tíma eftir alþingiskosningarnar 1946, en settist á þing um haustið í forföllum aðalþingmanns og tók við þingsætinu eftir andlát hans á næsta ári. Hann var þingmaður Sunnmýlinga til 1959, síðan þingmaður Austurlandskjördæmis til 1974, sat á 48 þingum alls á rúmlega 40 ára þingferli. Forseti sameinaðs þings var hann síðasta kjörtímabilið, 1971--1974. Hann átti sæti á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins í Strassborg 1966--1971 og var í Norðurlandaráði 1968--1971, formaður menningarmálanefndar þess frá 1969.
    Eysteinn Jónsson var oft valinn til starfa í nefndum og ráðum. Árið 1930 var hann skipaður í nefnd til að koma nýrri skipan á ríkisbókhald, ríkisreikninga og fjárlög, 1931 í verðrannsóknarnefnd, 1933 í undirbúningsnefnd kosningalaga og 1938 í milliþinganefnd í gjaldeyrismálum. Árið 1940 var hann kosinn í milliþinganefnd um gjaldeyrisverslun og innflutningshömlur. Formaður bankaráðs Búnaðarbanka Íslands var hann 1941--1942. Árið 1943 var hann skipaður í milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum. Hann átti sæti í skilnaðarnefnd og stjórnarskrárnefnd til undirbúnings lýðveldisstofnun 1944. Í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins var hann 1947--1973, en starfaði þar ekki þá tíma sem hann var ráðherra. Hann var í landsbankanefnd 1950--1957, í stjórn byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna, síðar Byggingarsjóðs verkamanna 1950--1970, í bankaráði Framkvæmdabankans 1953--1966 og í stjórn Framkvæmdasjóðs 1966--1968. Árið 1959 var hann kosinn í milliþinganefnd í öryrkjamálum og skipaður 1968 í endurskoðunarnefnd laga um friðun Þingvalla og um náttúruvernd. Í Þingvallanefnd var hann 1968--1975, formaður hennar frá 1972. Árið 1971 var hann skipaður í nefnd til að gera tillögur um framtíðarskipan verslunarmenntunar og nefnd til að semja frumvarp um stofnun og rekstur félagsmálaskóla verkalýðs- og samvinnuhreyfingar, enn fremur í landnýtingar- og landgræðslunefnd, var formaður hennar og í nefnd til að endurskoða rekstur Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg. Í apríl 1972 var hann skipaður formaður Náttúruverndarráðs, lét hann af því starfi 1978. Árið 1973 var hann kosinn í neyðarráðstafananefnd vegna eldgossins á Heimaey og var formaður hennar. Í stjórn Þjóðhátíðarsjóðs var hann 1977--1988.
    Eysteinn Jónsson var í forustusveit Framsóknarflokksins. Hann var ritari í stjórn hans 1934--1962 og formaður flokksins 1962--1968. Formaður þingflokksins var hann 1934 og 1943--1969. Hann var samvinnumaður, hafði ásamt öðrum forgöngu um stofnun Kaupfélags Reykjavíkur og var stjórnarformaður þess 1931--1934. Árið 1932 hafði hann forgöngu um stofnun Byggingarsamvinnufélags Reykjavíkur, fyrsta félags sinnar tegundar, og var í stjórn þess til 1934. Í stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga var hann 1944--1978, varaformaður 1946--1975, formaður 1975--1978.
    Eysteini Jónssyni auðnaðist á langri og gifturíkri starfsævi að eiga gildan þátt í starfi og stríði þjóðar sinnar á leið til sjálfstæðis, framfara og hagsbóta í mörgum efnum. Samvinnuhreyfingin var honum jafnan hugfólgin og hann var óhvikull forvígismaður hennar um áratugi. Í þjóðmálum var hann alla þingmannstíð sína í fararbroddi, oft í flokki landstjórnenda, en stundum í andstöðu við ríkjandi stjórn. Í ríkisstjórn sinnti hann lengst fjármálum þjóðarinnar og sýndi í því starfi gætni og festu. Hann var snjall ræðumaður, mælskur og rökfastur, traustur málsvari flokks síns og þeirra stefnumála sem hann bar fyrir brjósti. Undir lok þingferils síns átti hann frumkvæði að setningu laga um náttúruvernd og tók síðan að sér formennsku við framkvæmd þeirra laga. Starfi sínu á Alþingi lauk hann í forsæti sameinaðs þings, ríkur að reynslu og stóð fyrir umbótum í starfsháttum þingsins og starfsaðstöðu alþingismanna. Við snögg þinglok vorið 1974 var hann kvaddur með lofi og þökkum.
    Eysteinn Jónsson var heilsteyptur og drengilegur í stjórnmálastörfum sínum. Hann barst aldrei á, var hógvær, óeigingjarn og ósérhlífinn. Víðlesinn var hann og minnugur, fróður um sögu þjóðar sinnar. Í hléum frá miklum önnum stundaði hann útivist, ferðaðist víða um land, um byggðir og óbyggðir. Hann kaus að hætta opinberum störfum að stjórnmálum fullur starfsorku, enda ferillinn orðinn langur og mörgu komið til leiðar í þágu lands og þjóðar. Eiginkona hans og náinn samverkamaður í margvíslegum opinberum störfum frá unga aldri var Sólveig Eyjólfsdóttir úr Reykjavík.
    Við fráfall Eysteins Jónssonar á íslenska þjóðin á bak að sjá einum helsta stjórnmálaforingja sínum á þessari öld.
    Ég vil biðja þingheim að minnast Eysteins Jónssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]