Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 21:43:44 (19)

                [21:43]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Við vitum það í raun og veru öll að verktími þessarar ríkisstjórnar er liðinn. Geta hennar til að ráða við vandann er búin. Það er eingöngu spurning hvort það verður vikan eða veturinn allur sem það tekur þá að átta sig á því að í raun og veru eiga þeir að sýna þann manndóm að standa upp og gefa þjóðinni tækifæri til þess að veita nýtt umboð nýrri landsstjórn.
    Í raun og veru þarf það ekki, góðir Íslendingar, að lýsa því hér í kvöld hvernig stjórnin hefur starfað. Við þekkjum öll sumarið, yfirlýsingar þeirra um óheiðarleika hvers annars, um lögbrotin, um geðþóttann og um svikin. Og við heyrðum það hér í kvöld hvernig forsrh. kemur annars vegar með glansmynd en utanrrh. býður okkur á hryllingsvöku um það sem fram undan er. Í raun og veru þarf ekki að verja kvöldinu hér í kvöld til að rekja loforð þeirra og sýna fram á efndirnar. Við vitum öll hver reynslan hefur verið. Við sjáum að á borðunum hér liggur nýtt fjárlagafrv. sem er í raun og eru vitnisburður um uppgjöf þessarar ríkisstjórnar, frv. sem felur það í sér að á þremur heilum árum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar verður hallinn á ríkissjóði 30 milljarðar. Það verður farangurinn, virðulegur utanrrh., sem þú kemur með á Þingvöll 17. júní á næsta ári í afmælisgjöf til lýðveldisins eftir rúmlega tveggja ára ríkisstjórn. Og er það ekki merkilegt að eini raunverulegi árangurinn sem forsrh. gat státað af hér í kvöld eru rúmlega 4 milljarðar hvað snertir minnkandi ríkisútgjöld til landbúnaðarmála. En er sá árangur byggður á verkum þessarar ríkisstjórnar? Nei. Hann er byggður á búvörusamningnum sem við ráðherrar Alþb. gerðum í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er nefnilega staðreyndin að þessi ríkisstjórn hefur ekki í reynd sýnt af sér getu til neinna stórra verka. En vandinn er vissulega mikill. Þar er ég sammála hæstv. utanrrh. Ágreiningur okkar hér í kvöld felst ekki í því hvort vandinn sé mikill eða lítill. Ágreiningurinn felst í því hvaða leiðir á að fara, hvaða svör á að veita, hver stefnan á að vera.
    Í grófum dráttum er hægt að segja að um þrjár leiðir sé að velja. Sú hin fyrsta er sú sem ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hefur fylgt í tvö ár. Það er leið samdráttar og niðurskurðar. Hún hefur hér á landi eins og alls staðar búið til vítahring vaxandi samdráttar, vaxandi halla, sífelldra vaxtahækkana og þannig koll af kolli. Ef ráðherrarnir skoðuðu tölurnar sínar betur þá munu þeir sjá það að á fyrstu tveimur árum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hafa ríkisútgjöldin vaxið, ekki minnkað heldur vaxið, um 6 milljarða miðað við fyrstu tvö árin í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þessi leið er því ekki fær. Það hefur reynslan þegar sannað.
    Önnur leiðin er sú að gefa hallanum lausan tauminn og taka erlend lán í trausti þess að ný eftirspurnaralda kunni að keyra þjóðfélagið upp úr öldudalnum. Það er leiðin sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið að gæla við að undanförnu og ég verð að segja við vini mína í Framsfl. að mér finnst þeir einum of oft gæla einnig við þessa leið erlendrar lántöku. Við í Alþb. höfnum henni. Við höfum hins vegar á undanförnum vikum og mánuðum á trúnaðarmannafundum okkar í kjördæmum landsins, á fundum miðstjórnar og þingflokks verið að leggja drög að annarri leið, hinni þriðju leið sem er byggð á rannsóknum fremstu hagfræðinga á Vesturlöndum á undanförnum missirum þar sem þeir hafa vísað veginn út úr öldudal samdráttarins og kreppunnar á Vesturlöndum. Þessi leið felur það í sér að gera útflutninginn að forgangsatriði í hagstjórninni, að breyta áherslum banka og lánasjóða, kerfisins alls, skattamála á þann veg að smáfyrirtæki og miðlungsstór fyrirtæki fái forgang til að efla hagvöxtinn, útflutningsstarfsemina og framleiðsluna, að búa til víðtækt samstarf atvinnulífs, stjórnvalda, launafólks, fræðimanna, vísindamanna og hugsuða til þess að fara nýjar leiðir. Þessi leið felur í sér þann kjarna að það er bjartsýni og hugvit, það sem býr í okkur sjálfum sem býr til hagvöxtinn. Þjóðir eins og Japanir, Danir og Hollendingar, sem ekki hafa miklar auðlindir, hafa sýnt okkur hvernig með réttri hagstjórn og hugviti er hægt að skapa hagsæld á nýjan leik.
    En það er líka spurning um landsstjórnina. Hvernig hefði það verið hér í fyrra fyrir ári síðan þegar forsrh. flutti sína svörtu messu ef hann hefði sagt þjóðinni þann sannleika, sem nú blasir við, að nýliðið fiskveiðiár var tíunda besta fiskveiðiárið í sögu okkar Íslendinga. Ætlast ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Jón Baldvin, hæstv. utanrrh., virkilega til þess að fá betri feng af ytri skilyrðum heldur en tíunda besta aflaárið í sögu Íslendinga eins og var á liðnu fiskveiðiári. Þeir tala mikið um samdráttinn en birta svo í fjárlagafrv. töflu sem sýnir að hagvöxturinn á Íslandi varð meiri í ár heldur en á Norðurlöndum öllum og það sem athyglisverðara er að Ísland sker sig úr Evrópubandalaginu í heild þar sem hagvöxtinn hjá okkur er meiri en í Evrópubandalaginu öllu. Ef þessar staðreyndir hefðu legið fyrir þá hefði takturinn í hagkerfinu vissulega verið annar. Þá hefðu stjórnvöldin haft forustu um það að skapa tækifæri í atvinnulífinu þannig að menn legðu í áhættu og væru tilbúnir að skapa ný atvinnutækifæri. Lykilorðin í umfjöllun okkar í Alþb. hafa verið: atvinna, jöfnuður og siðbót. Atvinna sem er byggð á endurreisn efnahagslífsins og víðtækum kerfisbreytingum. Jöfnuður sem byggir á því að deila þeim mikla auði sem er í okkar landi, jafnt meðal landsmanna allra, að neita að viðurkenna þá forsendu þessarar ríkisstjórnar að velferðin á Íslandi sé komin á endastöð, heldur búa börnum okkar og fjölskyldum jafngóðan hag, menntun og umönnun, heilsugæslu og dagvist eins og þekkist í nágrannalöndum okkar.
    Ísland morgundagsins hefur vissulega mikla möguleika. Við höfum löngum, Íslendingar, þegar einn fiskstofn brestur, notað aðra til þess að sækja okkur nýjan auð. Og ég hef bent á það á undanförnum mánuðum hvernig það sem ég hef kallað alþjóðavæðingu sjávarútvegsins getur fært okkur ný tækifæri álíka mikil og þegar við færðum út landhelgina. Alþjóðavæðing sjávarútvegsins sem byggir á því að stíga strax með stórum skrefum til samvinnu við þær þjóðir sem vilja nýta kunnáttu okkar, hæfni, tækni og bátakost, skipakost og fiskvinnsluhefðir til þess að vinna auð í sínum höfum. Nú þegar eru fjölmargar þjóðir, ekki bara Síle-búar heldur Indverjar, Mexíkanar og Rússar tilbúnir til samstarfs við okkur Íslendinga í þeim efnum en það er beðið eftir skilningi stjórnvalda til að stuðla að því að hægt sé að stíga þar stór skref.
    Við sjáum hvernig ferðamannaþjónustan hefur á síðustu árum verið öflugasta uppspretta nýs gjaldeyris. En hvað gerir ríkisstjórnin? Hún skattleggur þessa miklu uppsprettulind framtíðarinnar þar sem við vitum að þúsundir Bandaríkjamanna, Evrópubúa og Asíubúa eru reiðubúnir að greiða mikið fé fyrir að koma hingað og dvelja í hreinu lofti og fagurri náttúru. Væri það ekki athyglisvert, líkt og vinir okkar í Grindavík og á Suðurnesjum sem ætla að gera Bláa lónið að uppsprettu gjaldeyristekna með hagnýtingu læknisfræði, hjúkrunar og nýrra sjónarmiða í þeim efnum, að nota hið góða íslenska heilbrigðiskerfi, ekki til niðurskurðar og samdráttar, heldur í raun og veru sem útflutningsgrein líkt og sjávarútveginn sjálfan?
    Ég gæti, virðulegi forseti, varið öllu kvöldinu í kvöld og langt fram á nótt í að rekja þá möguleika sem okkar þjóð getur vissulega hagnýtt sér. En samt sem áður er það svo að endurreisn atvinnulífsins getur aldrei orðið nema við í þessum sal og þjóðin öll sameinist um það sem við höfum í umfjöllun okkar innan Alþb. á undanförnum vikum kallað nýja siðbót. Siðbót sem felst í því að heiðarlegar leikreglur, velsæmi og hegðun sé með þeim hætti að menn geti verið stoltir af. Það er ekki sæmandi að ráðherrar landsins séu á sumardögum með spilltum hætti á kafi í því að troða vinum sínum og flokksgæðingum í embætti. Það er ekki sæmandi að hegðun þeirra á opinberum vettvangi sé með þeim hætti að þjóðfélagið allt logar í sögusögnum mánuðum saman. Þeir sem gera tilkall til að leiða þjóð og það á erfiðum tímum verða að sýna gott fordæmi. Þeir verða að gæta velsæmis og heiðarleika og virða eðlilegar leikreglur. Hin nýja siðbót þarf þess vegna að fela það í sér að ráðherrarnir leggi ekki mest upp úr tignarsætunum, ferðalögunum, bílunum eða viðhöfninni, veislugleðinni eða öðru slíku, heldur ráðherrarnir af hógværð og sparnaði, stillingu og velsæmi hugi fyrst og fremst að verkunum sjálfum, breytingum og því að búa í haginn fyrir þjóðina alla. Sú nýja siðbót þarf að fela það í sér að fjármál stjórnmálaflokkanna og starfsemi þeirra öll verði opin bók, þeir hafi ekkert að fela. Sú siðbót þarf að fela það í sér að dómskerfið sjálft verði ekki vettvangur fyrir vinargreiða eða skipun flokksgæðinga í dómarastöður. Sú siðbót þarf að fela það í sér að stórfyrirtækin í landinu verði ekki vettvangur til að skipa ættmenni og afkomendur, vini og kunningja, í forstjórastöður eða stjórnarsæti. Við náum aldrei að endurreisa íslenskt efnahagslíf ef atvinnulífið í landinu heldur áfram að vera leikvöllur fyrir afkomendur og börn þeirra sem kolkrabbanum hafa ráðið.
    Íslensk þjóð hefur menntað þúsundir af ungu hæfileikafólki. Hæfileikafólki sem er tilbúið að koma til starfa með menntun sína, hugmyndir og krafta en krefst þess að eðlilegar leikreglur ríki í okkar þjóðfélagi. Krefst þess að fá að sitja við sama borð. Krefst þess að hinar spilltu embættaveitingar séu liðin tíð. Krefst þess að stórfyrirtækin hætti að láta ættmenni og kunningja sitja fyrir um stjórnunarstöður. Ef við getum virkjað þessar þúsundir til starfa, þetta unga fólk á næstu árum, þá þurfum við ekki að óttast um íslenska framtíð en til þess þarf sú forustusveit sem situr í þessum sal og sérstaklega sú sem situr hér á ráðherrabekkjum að sameinast um hina nýju siðbót. Sameinast um eðlilegar leikreglur, heiðarleika og velsæmi.
    Góðir Íslendingar. Það eru vissulega miklir erfiðleikar en erfiðleikarnir eru til að sigrast á þeim með breyttri stefnu, nýrri forustusveit, nýjum áherslum og víðtækri samvinnu í þjóðfélaginu öllu. Ég vil segja við þá ráðherrasveit sem hér situr til hliðar: Ábyrgð ykkar er mikil ef þið ætlið í tvö ár enn að sitja með þeim sama hætti og þið hafið setið til þessa. Þið skuluð sýna manndóm og skynsemi og standa nú upp og segja við þjóðina: Nú skal þjóðin veita nýtt umboð. Alþb. er reiðubúið að ganga til þess leiks með sína stefnu og sínar áherslur, við treystum því að skynsemi þjóðarinnar ráði heilt í þeim efnum. Megi gæfan fylgja okkur Íslendingum á komandi tíð. --- Takk fyrir.