Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 21:57:39 (20)

[21:57]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Samkvæmt þingskapalögum skal hæstv. forsrh. flytja þjóðinni stefnuræðu sína innan 10 daga frá setningu Alþingis og skal henni útvarpað svo heyra megi skilaboð ríkisstjórnarinnar til fólksins í landinu um afkomu þess og hag í næstu framtíð í framhaldi af ástandinu eins og það er. Fólk hlýtur því að hlusta grannt. Hver voru svo skilaboðin til íslensku fjölskyldunnar í aðdraganda árs fjölskyldunnar árið 1994 hér í kvöld? Hæstv. forsrh. sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: ,, . . . hvar sem litið er á viðurkennd efnahagstákn sést ótvíræður árangur.``
    Íslenska fjölskyldan kynni að spyrja: Hvað eru viðurkennd efnahagstákn? Eru það launin okkar eins og þau eru orðin, skuldirnar okkar, atvinnuleysið, niðurskurður á velferðarþjónustunni sem í áratugi hefur verið þjóðarsátt um? Niðurskurðurinn á Lánasjóði ísl. námsmanna? Fólk hlýtur að hrista höfuð sín og hugsa sem svo: Þessi efnahagstákn hæstv. forsrh. koma okkur ekkert við. Þau eru auðvitað einungis fyrir fólkið í landinu sem á meira en það þarfnast og efnahagsbatinn er líklega þar, hann er ekki hjá okkur.
    Hæstv. forsrh. svaraði þessum hugrenningum þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í þau fáu skipti sem boðberar öfundarhyggju og stéttaátaka hafa haft sitt fram hefur það verið flestum til ills og fáum til góðs.``
    Það er sem sagt öfundarhyggjan sem herjar á sálir ykkar, góðir hlustendur, ef misréttið í landinu ergir ykkur. Það ætti einungis að gleðja ykkar spilltu hugi að hæstv. heilbrrh. hefur tíföld laun verkakonu meðan hann lokar leikskólum litlu barnanna og ákveður hvaða gamalmenni skuli á vetur sett. En hæstv. forsrh. trúir á sína þjóð og heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ef einhver þjóð er laus við stéttarmeting og ríg þá er það hin íslenska þjóð.``
    Einn er þó sá galli á hugmyndafræði hæstv. forsrh. og hann er sá að hann á ekki það sem honum hefur verið trúað fyrir. Við eigum það öll, líka þið, góðir landsmenn.
    ,,Ein er sú orsök þess að mér er óhægt að ganga yðar erindi á Íslandi,`` sagði Arnas Arnæus við Þjóðverjann, ,,sú að hann sem býður að selja landið er ekki eigandi þess.``
    Það er þessi sama siðferðisvitund sem fær menn til að spyrja í undran: Af hverju á ég að borga 4 millj. kr. jeppa undir forstöðumann Byggðastofnunar? Af hverju eigum við að greiða 600 millj. kr. fyrir Miklalax? Af hverju eigum við að greiða 140 millj. fyrir útgerðarfyrirtæki sem fékk lán úr Atvinnutryggingarsjóði en notaði það til annars en til var ætlast? Vantaði mig og okkur tvo forstjóra í Tryggingastofnun ríkisins? Spurningarnar hrannast upp. --- Öfundarhyggja, segir hæstv. forsrh. við fólkið sem hefur 50--70 þús. kr. á mánuði í dagvinnulaun.
    Væri ekki ráð að tala hér mannamál? Það fólk í þessu landi, sem er að ala upp næstu kynslóð,

undirstöðu framtíðar landsins og er að missa heimili sín vegna skulda, merkir í engu efnahagsbata. Gamla fólkið sem engan hefur til að annast sig gerir það ekki heldur. Litlu börnin sem ganga sjálfala eins og lausagöngufé hálfan daginn skilja ekki einu sinni orðið ,,efnahagsbati``. Hinir fötluðu sem biðja þess eins að fá að taka þátt í störfum samfélagsins og búa á eigin heimili finna engan efnahagsbata.
    Hæstv. forseti, góðir landsmenn. Ástæðan fyrir því að enginn skilur ræður af þessu tagi --- og þetta er ekki sú eina --- er sú að í henni var hvergi að finna nálgun við veruleika íslenskra launamanna. Þessi samsetningur starfsmanna ráðuneytanna á ekkert erindi inn á íslensk heimili. Hann var ekkert annað en skilaboð til þeirra sem yfir fjármagninu ráða um hvernig þeir gætu ávaxtað það best á komandi ári, sér einum til handa. Skilaboð um meiri gróða á færri hendur. Í honum var hvergi vikið að batnandi hag þeirra sem verkin vinna, betri samfélagsþjónustu, jafnrétti til náms, rétt allra barna til menntunar og þroska. Skuldir heimilanna víkja fyrir ríkistryggðu áhættufé misviturra atvinnurekenda sem ætla að græða sem mest á sem stystum tíma. Áhættufjárfesting allra foreldra er hins vegar framtíð barnanna þeirra en hún er ekki ríkistryggð. Enn skal frestað einsetnum skóla og skólamáltíðum. Skerða skal lífeyri ekkna, heimili fyrir farlama einstæðinga í Gunnarsholti skal lokað, heilbrigðisþjónustan skal háð efnahag og þetta heldur ríkisstjórnin að sé sparnaður. Varaforseti Bandaríkjanna hefði getað sagt hæstv. forsrh. að svo er ekki á fundi þeirra í Bandaríkjunum í ágúst sl.
    Hæstv. forseti. Þessi ríkisstjórn hefur lent í villu. Sá einn efnahagsbati er marktækur er tryggir velferð allra sem í landinu búa svo að þjóðin gangi hraust og sterk til orðs og æðis inn í nýja öld. Slíkt samfélag getum við rekið, við höfum öll efni til þess. En til þess þarf að kalla til fólk sem horfir til framtíðar og hefur kjark og þor til að læra af mistökunum. Við þurfum að henda burt ónýtu stýrikerfi og byggja nýtt. Kasta burt sjálfvirku skömmtunarkerfi hinna ríku, kveða kastaladraugana niður. Við eigum að fela sjómönnunum í hverjum landshluta að stjórna fiskveiðum, þeir vita það best á meðan ekki er búið að flagga þeim út til Suðurhafseyja. Við eigum að efla ríkisbankana en leggja niður sjóðabáknið. Við eigum að fela heilbrigðisstéttunum að hagræða í heilbrigðiskerfinu og kennurum að skipuleggja menntunina í landinu. Við eigum að kalla þjóðina til ábyrgðar um eigin málefni. Þessi litla þjóð getur einfaldað stjórnsýsluna og farið betur með það sem til er eins og konur á Íslandi gerðu um aldir.
    Börn og ungmenni innan 18 ára aldurs eru nú 30% landsmanna en eru um 20% í nágrannalöndum okkar. Hér á Íslandi verjum við um 2,5% af landsframleiðslu okkar til málefna sem varða velferð barna og fjölskyldna þeirra, svo sem félags- og heilbrigðismála, dagvistarstofnana, æskulýðsstarfsemi og barnaverndar. Aðrar Norðurlandaþjóðir verja 3,5% til þessara mála og Svíþjóð 5,1%.
    Á þessum haustdögum blasa við okkur hörmulegar afleiðingar skeytingarleysisins í fréttum af ofbeldisverkum ógæfusamra ungmenna sem búa þó í einu auðugasta þjóðríki veraldar.
    Hæstv. forseti. Það er kominn tími til að endurskoða fyrir hvað efnahagstákn ríkisstjórnarinnar standa. Við skulum taka höndum saman á ári fjölskyldunnar og búa þannig að henni að allir Íslendingar fái þrifist, ungir sem aldnir, heilir sem vanheilir. Samfélag sem ræðir ekki hvort hinir ríku njóti betri heilsugæslu en þeir sem minna hafa. Samfélag sem ræðir ekki hvort gamla fólkið skuli fá sömu heilbrigðisþjónustu og við hin yngri. Þá getur farið svo að fólkið í landinu hlýði með athygli á umræður eins og þær sem fram fara hér í kvöld og treysti þeim sem valist hafa til forustustarfa. Þá gæti farið svo að hið háa Alþingi endurheimti virðingu sína og greinilegur bati yrði sýnilegur í þjóðfélaginu. --- Ég þakka áheyrnina, hæstv. forseti og góðir landsmenn.