Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 22:25:01 (22)

[22:25]
     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Það var sérkennileg sýning sem landsfeðurnir settu á svið fyrir alþjóð á liðnu sumri. Farsi er tæplega rétta orðið til að lýsa þessu sjónarspili, svo yfirgengilegt hefur það verið. Hér hefur enn einu sinni sýnt sig að veruleikinn tekur öllum skáldskap fram, jafnvel fjarstæðusögur blikna.
    Frestun þingsins af hálfu forsrh. sl. vor var einstæður atburður í sögu Alþingis og slík óvirðing við löggjafarsamkunduna og forseta hennar að engu tali tekur. Síðan tók við setning bráðabirgðalaga þó ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að kalla þingið saman. Um það voru þeir samtaka, flokkarnir í ríkisstjórninni. En þá var heimilisfriðurinn úti og ráðherrarnir töldu sig betur komna í útlandinu en heima fyrir. Utanrrh. sameinaði raunar hvort tveggja í einni og sömu ferð. Ráðherrann hélt til Ísafjarðar og taldi sig þar kominn til Grænlands.
    Varla var hann kominn frá þeim köldu ströndum að stríðið um landbúnaðarmál sem næstum hafði gengið af ríkisstjórninni dauðri á vordögum blossaði upp að nýju. Eins og menn vita, þá er orðið djúpt á hugsjónamálum í Alþfl., en þegar kemur að innflutningi á landbúnaðarvörum breytist gömul glóð í loga hjá þeim fáu sem enn hafa ekki komið sér fyrir hjá því opinbera. Fyrr en varði var hálf ríkisstjórnin komin í hár saman og hver veifaði sínu tré. Nú þegar komið er til þings hafa þeir engan veginn jafnað sig eftir hildarleiki sumarsins.
    Í stefnuræðunni sem við heyrðum áðan bar forsrh. sig mannalega og telur ríkisstjórnina vera á réttri leið. Í tvö ár hafa stjórnarflokkarnir verið að draga kjark úr þjóðinni og notfært sér tímabundna erfiðleika til að koma fram grundvallarbreytingum á samfélaginu. Niðurskurði á félagslegri þjónustu, aðgangseyri hinna betur stæðu að heilbrigðis- og menntakerfinu, einkavæðingu og síðast en ekki síst óheftum markaðsbúskap eftir forskrift Evrópubandalagsins.
    Eitt alvarlegasta sjúkdómseinkenni í efnahagslífi hér á landi og raunar um allan hinn vestræna heim er vaxandi atvinnuleysi. Hér á landi hefur það verið nær óþekkt á síðustu áratugum. Því miður virðist ekkert lát á þeim ófögnuði. Stefna ríkisstjórnarinnar í glímunni við atvinnuleysið minnir helst á Bakkabræður sem ætluðu að bera ljósið í húfunum sínum inn í gluggalaust húsið. Raunar efast ég um að stjórnarflokkunum sé í mun að uppræta atvinnuleysið.
    Stefna ríkisstjórnarinnnar í efnahags- og atvinnumálum magnar upp þann vanda sem við er að fást.

Í landbúnaðarmálum á innflutningur að koma í stað innlendrar framleiðslu. Í sjávarútvegi er kvótabrask það sem á að leysa allan vanda. Frystitogarar eiga að leysa fiskvinnslustöðvar og minni fiskiskip af hólmi og fiskur er í auknum mæli fluttur út óunninn. Í iðnaði halda menn enn dauðahaldi í stóriðjudrauminn þótt hann sé löngu orðinn að martröð. Jafnvel vaxtarbroddur eins og ferðaþjónusta fær ekki að vera í friði fyrir Bakkabræðrum ríkisstjórnarinnar sem leggja á hana skatta umfram aðrar útflutningsgreinar. Samanlagt leiða þessar aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar til þess að þúsundir starfa tapast og heill og hamingja þeirra sem verða fyrir þeirri þungbæru reynslu að þjóðfélagið vill ekki lengur nýta krafta þeirra. Forsrh. hefur ekki miklar áhyggjur af þessari þróun ef marka má orð hans hér áðan. Það kemur líka skýrt fram í stefnu ríkisstjórnarflokkanna hverjir eiga að herða ólarnar. Það eru ekki hátekjumennirnir heldur þeir sem hafa varla til hnífs og skeiðar. Á aðeins tveim árum hefur ríkisstjórninni og stuðningsmönnum hennar tekist að gera mikinn óskunda. Menntakerfið hefur verið svelt, kennslustundum er fækkað, skólagjöld lögð á nemendur og námsmönnum vísað á bankakerfið eða foreldra sína séu þeir þá aflögufærir.
    Í heilbrigðismálum hefur verið gengið fram með dæmalausu offorsi og nýi heilbrrh. gengur þar fram með enn meiri gassagangi og hroka en sá fyrri og er þá langt til jafnað.
    Stefna ríkisstjórnarinnar er slæm fyrir þjóðina í heild en sérstaklega bitnar hún á konum. Niðurskurður í velferðarkerfinu kemur fyrst og fremst niður á þeim. Sparnaður á sjúkrahúsum leiðir til þess að fólk er sent heim og þá eru það konurnar sem ætlast er til að sjái um hina sjúku. Hver haldið þið að hugsi um börnin sem send eru heim af leikskólunum? Fyrst og fremst konurnar. Það hefur komið í ljós eins og við óttuðumst, að breytingar á reglum Lánasjóðs ísl. námsmanna leiða til þess að þeim konum fækkar sem fara í nám. Miklu fleiri konur en karlar eru atvinnulausar. Forsrh. ætlast augljóslega til þess að konur sýni fórnarlund og samstöðu með ríkisstjórninni. En nú er nóg komið. Konur ætla ekki enn einu sinni að láta skáka sér til eftir reikniformúlum sem búnar hafa verið til í fílabeinsturni karlaveldisins. Nú er mikilvægt sem aldrei fyrr að konur standi saman og komi í veg fyrir að sá árangur verði gerður að engu sem náðst hefur í réttindabaráttu kvenna.
    Það neitar því enginn að á móti hefur blásið og nauðsynlegt sé að endurskoða og endurbæta, en það verður að gera það þannig að ekki sé rifið niður allt sem byggt hefur verið upp. Stuðningsmenn samningsins um Evrópskt efnahagssvæði lýstu honum í fyrra sem eina ljósinu í svartnætti kreppunnar. Það hefur hins vegar lítið farið yfir yfirlýsingum í þessa átt síðan og forsrh. var næsta lágmæltur þegar hann minntist á þetta óskabarn meiri hlutans hér á Alþingi.
    Ekkert bitastætt hefur verið gert til að búa íslenskt atvinnu- og efnahagslíf undir þann veruleika sem við tekur þegar EES-samningurinn gengur í gildi. Afleiðingar hans verða þó m.a. þær að samkeppni harðnar verulega, að fyrirtæki neyðast til þess að hagræða og fækka starfsfólki og með EES kasta stjórnvöld frá sér helstu stjórntækjum í efnahagsmálum. Það er þessi gerningur sem við stöndum nú frammi fyrir. Ábyrgðin er þeirra sem greiddu götu samningsins hér á þinginu, beint og óbeint.
    Sú ríkisstjórn sem enn hangir við völd nærist á kreppunni, raunverulegri og tilbúinni. Kreppan er hennar hreyfiafl sem notað er til að knýja fram þær þjóðfélagsbreytingar sem Alþfl. og Sjálfstfl. hafa fest trú á. Vandi samfélagsins er ekki fyrst og fremst minnkandi tekjur þjóðarinnar heldur misskipting þess sem aflað er og margháttuð sóun. Hver trúir því að aukinn hagvöxtur einn saman útrými atvinnuleysi og lækni aðrar þær meinsemdir sem hrjá vestræn samfélög, þar á meðal okkar fámenna þjóðfélag í vaxandi mæli? Við eigum gjöfult land, auðug fiskimið og mannauð sem staðið getur undir góðum lífskjörum ef rétt er á málum haldið. Gæði lands okkar þurfum við að vernda og hlúa að þeim þannig að við skilum komandi kynslóðum betra landi og lífsmöguleikum. Umhverfisvernd er því mál mála nú og í framtíðinni.
    Skilningur ríkisstjórninnar á umhverfismálum nær hins vegar skammt. Ekki þarf annað en að líta í fjárlagafrv. sem barst inn á borð þingmanna í gær. Það er því miður aðeins hægt að samhryggjast hinum nýja og orðglaða umhvrh. með þá ömurlegu niðurstöðu sem þar blasir við.
    Virðulegur forseti. Íslenskt samfélag stendur um margt á tímamótum. Vegið er að sjálfstæði þjóðarinnar með því að binda okkur á klafa framandi skrifræðis og miðstýringar. Alþingi verður ekki svipur hjá sjón eftir að fjórfrelsi Evrópubandalagsins er orðin ófrávíkjanleg regla. Ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks er að brjóta niður velferð á flestum sviðum og misskipting og óréttlæti fer ört vaxandi. Hagsmunir barna eru látnir víkja, einstæðir foreldrar gerðir að hornrekum og ekki er hlustað á konur sem fylla láglaunahópana. Eigum við konur þessa lands að láta okkur þetta lynda öllu lengur? Er ekki kominn tími til að þessum leikreglum verði breytt? Eigum við ekki að gera afturrækt það fádæma siðleysi þar sem landsfeðurnir ganga á undan í sólundinni með biðlaun á biðlaun ofan og blygðunarlausar stöðuveitingar? Í stað spillingar og valdhroka þurfa að koma önnur og uppbyggileg gildi. Kvennalistinn býður fram krafta sína til að þrífa upp eftir þá valdsmenn sem sett hafa mark sitt á samfélagið allt of lengi. Ef við konur fáum aukinn styrk og skilning er von um betri tíð. --- Góðar stundir.