Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 23:13:13 (28)

[23:13]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Forseti, góðir landsmenn. Það hét víst svo samkvæmt dagskrá að hér yrði flutt stefnuræða forsrh. en í reynd heyrðum við talað í 30 mínútur um einhverja allt aðra veröld en þá sem landsmenn lifa í, veröld Stjórnarráðsins, veröld þar sem allt er á réttri leið. Meira að segja fortíðarvandinn var kominn ofan í tvær mínútur í ræðu hæstv. forsrh. þó samkvæmt venju væri byrjað á honum. En um leið og umfjölluninni lauk um fortíðarvandann þá hvarf hæstv. forsrh. í textum sínum inn í heimatilbúinn töfraheim, einhvers konar undraland hins mikla árangurs. Á bls. 2 í þessari kostulegu ræðu gefur m.a. að líta eftirfarandi:
    ,,Verkefnin fram undan eru ljós og skýr. Meginviðfangsefnið er að tryggja þann mikla ávinning sem orðið hefur af efnahagsstjórn á þrengingartímum.``
    Hver er hann þessi mikli ávinningur sem forsrh. á við? Er það vöxtur atvinnuleysis á Íslandi úr 1% í 5% á valdatíma þessarar ríkisstjórnar, úr 1.200 manns í 6.000? Er það atvinnuleysi yfir 3% um hábjargræðistímann á þessu sumri og spá upp á 5,5% atvinnuleysi á næsta ári eða að 6.500 Íslendingar muni ganga án atvinnu á næsta ári?
    Birtist þessi árangur, þessi mikli árangur sem rætt er um á bls. 2 í stefnuræðu forsrh., í 10 milljarða halla í fjárlagagfrv.?
    Birtist þessi mikli árangur, hæstv. forsrh., í hæstu raunvöxtum í nokkru vestrænu ríki? Á sama tíma og vextir hafa hríðlækkað allt í kring um okkur standa þeir í stað hér. Raunvextir bankalána á Íslandi hafa allt frá því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fíraði upp vöxtunum vorið 1991 verið 10%. Raunvextir bankalána í helstu viðskiptalöndum Íslendinga eru nú komnir niður fyrir 6% og fara lækkandi.
    Birtist árangurinn, hæstv. forsrh., e.t.v. í lægsta fjárfestingarhlutfalli miðað við landsframleiðslu sem um getur í hálfa öld eða liðlega 15%? Með öðrum orðum hlutfallslega minna fer nú til fjárfestingar í nýjum atvinnutækifærum og uppbyggingar í þjóðfélaginu heldur en nokkru sinni fyrr í 50 ára sögu íslenska lýðveldisins.
    Er það árangurinn, hæstv. forsrh., sem átt er við á bls. 2? Eða er árangurinn e.t.v. fólginn í því að það er búið að lækka skattleysismörkin í landinu um nokkur þúsund krónur í tíð þessarar ríkisstjórnar, þvert á gefin kosningaloforð vorsins 1991 um að þau yrðu hækkuð. Á tímum kjaraskerðingar, minni yfirvinnu og skuldasöfnunar heimilanna lækkar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar skattleysismörkin um nokkur þúsund krónur í valdatíð sinni. Eða er það e.t.v. nýja gjaldið með táknræna nafninu ,,atvinnuleysisskatturinn`` í fjárlagafrv. sem er til marks um árangurinn, hæstv. forsrh., sem vitnað er til á bls. 2 í ræðu þinni? Er það ,,atvinnuleysisskatturinn`` --- nafn við hæfi --- sem á að bera hróður ríkisstjórnarinnar inn í framtíðina eða ,,sjúklingakaskóið``?
    Hvað er það, hæstv. forsrh., sem átt er við, hinn mikla ávinning í efnahagsstjórninni? Nei, forsætisráðherra góður. Kaldur og grár veruleikinn í kringum 5--6 þúsund atvinnulausa Íslendinga, skuldsettar lágtekjufjölskyldur sem sitja uppi með 10% raunvexti á bankalánum, þessi kaldi veruleiki á ekkert skylt við þennan töfraheim hins mikla árangurs. Undraland Davíðs Oddssonar forsrh. er þessu fólki lokuð bók.
    Í reynd er það aðeins eitt sem hægt er að segja að hafi tekist í efnahagsstjórninni, eða öllu heldur ekki mistekist, og það er að verðbólgan hefur ekki farið úr böndunum að ráði, en þar er ekki um sértækan árangur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að ræða því eins og kunnugt er var verðbólgan komin niður í lága eins stafs tölu síðasta árið áður en ríkisstjórn Davíðs tók við.
    Staðreyndin er sú, góðir áheyrendur, að ríkisstjórninni hefur mistekist, hún hefur gefist upp og það er ekkert annað en hræðslan við dóm kjósenda í landinu sem heldur henni saman. Ríkisstjórnin lagði af stað með vitlaust stilltan og úreltan kompás frjálshyggjunnar. Með endalausu tali um fortíðarvanda og kreppu var kjarkurinn dreginn úr þjóðinni. Ósmekklegar samlíkingar við þá erfiðleika sem frændur vorir Færeyingar hafa lent í voru og eru reyndar enn notaðar til að hræða og hóta.
    Nú síðast er svo ríkisstjórnin að leysast upp í innbyrðis deilum og illindum þar sem ásakanir um lögbrot og óheiðarleika eru daglegt brauð. Á þessa hluti minntist hæstv. forsrh. ekki einu orði. Svo kom hæstv. utanrrh. úr allt öðrum göngum hér inn í þingsalinn, hann situr greinilega í allt annarri ríkisstjórn og hefur ekkert heyrt um þennan mikla árangur hæstv. forsrh. Það hriktir í rá og reiða þegar hæstv. utanrrh. er að lýsa siglingunni. Það verður á súðum og hæstv. utanrrh. sér ekki betur en að það verði ekki björgulegar gjafir sem þjóðin fær á 50 ára afmæli lýðveldisins.
    En hverjar væru svo aðstæðurnar, aðstæður okkar Íslendinga ef hér í landinu sæti alvöruríkisstjórn sem með fólkinu í landinu, samtökum atvinnulífsins, sveitarfélögunum vildi bretta upp ermar og vinna sig með bjartsýni og kjark að leiðarljósi út úr þessum erfiðleikum?
    Staðreyndin er sú að hin margumtalaða íslenska kreppa sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur notað sem allsherjarafsökun fyrir atvinnuleysi og kjaraskerðingu er í raun litlu meiri en sem nemur samdrættinum í efnahagslægð umheimsins. Það kemur e.t.v. einhverjum á óvart en er samt staðreynd að á fjórum af sl. fimm árum hefur verið hér á Íslandi jákvæður hagvöxtur. Árið 1989, árið 1990, árið 1991 og árið 1993, öll þessi ár er hagvöxtur yfir núlli á Íslandi.
    Í töflu með sjálfu fjárlagafrv. á bls. 253, í þeirri bók, stendur það svart á hvítu að á sama tíma og spáð er samdrætti að meðaltali á öllum Norðurlöndunum upp á 0,4%, stefnir hér í hagvöxt upp á 0,5% á þessu ári og á sama tíma er spáð samdrætti í öllu Evrópubandalaginu. Í stað minni þorskafla hefur komið aukin loðnuveiði, rækja, síld og stórauknar veiðar utan íslensku landhelginnar. Á móti lækkandi afurðaverði hefur komið lægra olíuverð, lækkandi raunvextir erlendis og fleira sem er okkur hagstætt.
    Ytri skilyrði ein og sér eru ekki tilefni til þeirra miklu þrenginga sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur leitt yfir þjóðina. Kreppan er að talsverðum hluta til heimtilbúin, afleiðing rangrar stefnu, hárra vaxta, svartsýni og kjarkleysis sem ríkisstjórnin hefur haft forgöngu um að innleiða. Vissulega eru ytri skilyrði erfið og það mun kosta átak og taka langan tíma að vinna sig upp úr lægðinni, en það er hægt. Þrengstar skorður setja okkur miklar erlendar skuldir sem í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa vaxið háskalega eða úr um 130% af vergum útflutningstekjum eins og þær voru í árslok 1990 í um 170% á þessu ári. Gífurlegar skuldir sjávarútvegsins og ískyggileg skuldaaukning heimilanna samfara vaxandi greiðsluerfiðleikum yngri kynslóðarinnar, allt eru þetta brotalamir í okkar samfélagi sem horfast verður í augu við. En við Íslendingar eigum mikla möguleika. Við getum jafnað lífskjörin, við getum stóraukið verðmætasköpunina, við getum sótt í vannýttar tegundir á veiðar utan landhelginnar, sérhæft fiskvinnslustöðvar, unnið í dýrari pakkningar beint á borð neytenda. Þeir sem sóttu heim sjávarútvegssýninguna í Laugardalshöll á sl. hausti, komust ekki hjá því að fyllast bjartsýni þegar menn sjá árangur íslenskra fyrirtækja í útflutningi á tækjabúnaði og þjónustu við sjávarútveg. Fyrirtæki eins og Marel, J. Hinriksson og Sæplast, svo dæmi séu tekin, auka nú útflutning sinn ár frá ári og það sem ber hróður þeirra er betra nokkurri auglýsingu, sem sagt gæði framleiðslunnar og áreiðanleiki í viðskiptum.
    Við getum og við verðum að snúa vörn í sókn, við verðum að endurheimta þau störf sem tapast hafa í íslenskum iðnaði. Það er aumingjaskapur og til skammar okkur öllum sem hér sitjum að horfa á íslenska skipasmíðaiðnaðinn leggjast niður í landinu. Vegna hvers? Vegna þess að við höfum ekkert gert til að styðja við bakið á honum gagnvart samkeppni við niðurgreiddan iðnað nágrannalandanna. Við erum búin að tapa fleiri störfum út úr málmiðnaði á þessum árum heldur en átti að vinna í álverinu flóttamannsins í Seðlabankanum. Fyrst og fremst vegna þess að við höfum ekki leiðrétt með eðlilegum hætti samkeppnisskilyrði íslenskra atvinnugreina.
    Góðir áheyrendur. Verkefnið sem fram undan er er erfitt og krefjandi en jafnframt spennandi og því fyrr sem þjóðin getur snúið sér að því sameinuð og undir forustu nýrrar ríkisstjórnar, því betra. --- Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.