Samstarfssamningur Norðurlanda

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 13:45:58 (34)


[13:45]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil fagna því að þessi tillaga er fram komin og það er a.m.k. kunnugt þeim sem starfa fyrir hönd Alþingis á vegum Norðurlandaráðs. Ég vil hins vegar gagnrýna að hún skyldi ekki hafa komið fram á sl. vori sem ég vænti að hafi verið mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar, en legg á það áherslu að þetta mál hljóti skjóta afgreiðslu hér á Alþingi.
    Hér er um að ræða ákveðna niðurstöðu sem varð út úr þeirri vinnu sem fór fram í sambandi við endurskoðun á Helsingfors-sáttmálanum og það sem skiptir þar afar miklu máli er að forsætisráðherrar Norðurlandanna munu framvegis hafa á hendi meiri ábyrgð á norrænu samstarfi og það land sem gegnir formennsku hverju sinni mun að sjálfsögðu bera meiri ábyrgð en hingað til hefur verið. Það mun koma í Íslands hlut á næsta ári að hafa forustu í norrænu ráðherranefndinni og því legg ég á það áherslu að það verði upplýst eftir því sem kostur er, ekki endilega við þessa umræðu heldur síðar, með hvaða hætti íslenska ríkisstjórnin hyggst veita þessa forustu og styrkja stöðuna hér innan lands til þess að geta gegnt því hlutverki.
    Ég sé að vísu að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir nokkurri aukningu á fjármagni til þessara hluta, en auk þess held ég að það sé einsýnt að það verður að gera ráðstafanir í mörgum ráðuneytum til að samhæfa þar kraftana og þetta mun að sjálfsögðu leggja auknar skyldur á íslensku ríkisstjórnina og þá ráðherra sem þar sitja og þá sérstaklega forsrh.
    Þetta vildi ég ítreka hér og vænti þess að það verði tök á því að upplýsa það betur á síðari stigum. Ég er ekki að fara þess á leit við hæstv. utanrrh. að hann geri það hér, en vildi aðeins benda á þetta. Auk þess get ég tekið undir það að í þessu felst að sjálfsögðu sú mikilvæga breyting að vald ráðsins að því er varðar fjárveitingar verður meira. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvernig samstarf ráðsins og ráðherranefndarinnar mun takast. Það er ekki eingöngu í höndum okkar Íslendinga heldur allra ríkisstjórna Norðurlandanna og allra þingmanna sem starfa í Norðurlandaráði. Ég vil aðeins ítreka þá ósk að þetta mál fái skjóta afgreiðslu.