Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 13:55:52 (36)

[13:55]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár vegna þeirrar tilskipunar hæstv. heilbr.- og trmrh. að þau sjúkrahús sem á undanförnum árum hafa rekið leikskóla og dagvistarheimili í tengslum við sína starfsemi skuli frá og með næstu áramótum hætta slíku. Það deilir enginn um að það er lagaleg skylda og lagalegt hlutverk sveitarfélaganna að sjá um slíkan rekstur. Hins vegar, þó eitthvað standi í lögum, þá verða menn að geta áttað sig á því hverjar ástæðurnar eru. Ástæðurnar fyrir því að þessar sjúkrastofnanir hafa farið út í að reka eigin dagvistarstofnanir eru þrjár. Í fyrsta lagi hefur verið skortur á dagvistarplássum í þeim sveitarfélögum þar sem viðkomandi sjúkrastofnanir eru. Í öðru lagi er nauðsynlegt fyrir þessar sjúkrastofnanir að geta boðið því sérhæfða starfsfólki, sem þarf að fá til starfa á viðkomandi stofnunum, dagvistarpláss fyrir börn sín. Í þriðja lagi veita þessar stofnanir, þ.e. leikskólarnir og skóladagheimilin, sérhæfðari þjónustu heldur en veitt er á sveitarfélagastofnununum með þeim hætti að opnunartími er lengri, það er opið um helgar og það er ekki lokað yfir sumartímann eins og gert er á flestum dagvistarstofnunum sveitarfélaganna. Það er ósanngjarnt af hálfu hæstv. heilbr.- og trmrh. þegar hann heldur því fram að með þessu fyrirkomulagi sé verið að mismuna fólki eftir búsetu. Það er ósanngjarnt að halda því fram af hæstv. heilbr.- og trmrh. að með þessu fyrirkomulagi sé verið að búa til í þjóðfélaginu ákveðinn forréttindahóp, hóp sem eigi að njóta forréttinda fram yfir hinn almenna þegn í viðkomandi sveitarfélagi. Við þessar aðstæður er auðvitað mikilvægt fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. að átta sig á því að það þarf starfsfólk til að reka sjúkrastofnanir. Og þetta ætti hæstv. heilbr.- og trmrh. að vera manna best ljóst og ekki síst í ljósi þess að um næstu áramót á að fara að selja aðgang með heilsukorti inn á þessar stofnanir. Það hlýtur því að vera krafa þess fólks sem þarf að greiða þennan aðgöngumiða að þar sé fólk til starfa sem á að veita þá þjónustu sem fyrirheit eru gefin um.
    Það er mikilvægt fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. áður en slíkar tilskipanir eru gefnar út að kynna sér þær aðstæður sem uppi eru í þeim sveitarfélögum sem í hlut eiga. Ef við tökum Reykjavík sem dæmi, sem stærsta sveitarfélagið, þá er ástandið þannig hér eftir langvarandi stjórnarsetu Sjálfstfl. í borgarstjórn Reykjavíkur --- og auðvitað ber Sjálfstfl. ábyrgð á þessari tilskipun hæstv. heilbr.- og trmrh., hún er í tengslum við fjárlagafrv., og fjárlagafrv. er lagt fram af öllu stjórnarliðinu nema að manni skilst af hæstv. félamrh., sem ekki stendur að ákvörðuninni --- þá er biðlisti um síðustu áramót hér í Reykjavík. Það eru 900 börn sem bíða eftir því að komast inn á dagvistarheimili í Reykjavík um síðustu áramót. Biðtíminn er mismunandi eftir hverfum. Börn þurfa að bíða eftir því í 15 mánuði að komast inn á dagvistarstofnanir hér í Reykjavík. Á barnaheimilum sjúkrastofnana í Reykjavík eru núna í kringum 450 börn. Með því að loka þeim um áramótin þá munu þessi 450 börn bætast á þann biðlista sem nú er fyrir, bætast við þau 900 sem fyrir eru. Þá sjá menn að biðtíminn mun einnig lengjast. Af þessum 450 börnum eru 50% eða um 200 börn hjúkrunarfræðinga. Staðreyndin er sú að það hefur skort hjúkrunarfræðinga til starfa á sjúkrastofnunum. Og ef 200 hjúkrunarfræðingar ganga út af þessum sjúkrastofnunum um næstu áramót vegna þess að barnaheimilunum verður lokað þá skapar það auðvitað neyðarástand á þessum stofnunum, það lamar þær. Og í mörgum tilfellum þar sem þjónustan er sérhæfðust, eins og t.d. á hjartaskurðdeild Landspítalans, þýðir það einfaldlega að þeirri deild verður lokað vegna þess að hjúkrunarfræðingar sem þar starfa eru með sín börn inni á þessum barnaheimilum. Það er sérhæfð þjónusta sem tekur fleiri vikur að skóla einstaklinga upp til að sinna. Þannig mætti lengi telja.
    Að lokum, virðulegi forseti, eru þrjár spurningar til hæstv. heilbr.- og trmrh. Í fyrsta lagi: Hvernig ætlar hæstv. heilbr.- og trmrh. að tryggja öllum þessum börnum dagvist eins og hæstv. ráðherra hefur látið liggja að þó svo að þessum heimilum verði lokað? Í öðru lagi: Kemur til greina að fresta þessari ákvörðun, taka upp viðræður við sveitarfélögin sem í hlut eiga, taka upp viðræður við foreldrana þannig að þessi breyting geti gengið yfir hægt og hljótt og á löngum tíma? Að lokum: Með hvaða hætti kynnti hæstv. heilbr.- og trmrh. viðkomandi sveitarfélögum ákvörðun sína og þeim foreldrum sem í hlut eiga?