Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:01:40 (37)


           [14:01]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Þann 1. janúar 1990 tóku gildi lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þar var kveðið m.a. á um það að rekstur leikskóla skyldi verða á hendi sveitarfélaga. Í þessum sömu verkaskiptalögum var kveðið á um fleiri þætti þar sem verkefni fór annars vegar frá ríki til sveitarfélaga og hins vegar frá sveitarfélögum til ríkis. Þar var m.a. kveðið á um það að sjúkraflutningar skyldu verða verkefni ríkisvaldsins. Í samræmi við þá lagasetningu hefur ríkisvaldið kostað sjúkraflutninga þótt í sumum tilfellum hafi verið um samninga að ræða við einstök sveitarfélög. Samningar hafa tekist við velflest sveitarfélög. Hér í Reykjavík er málum hins vegar þannig háttað varðandi sjúkraflutningana að ekki hefur enn þá tekist að ná samkomulagi um þá og viðræður hafa staðið lengi yfir. Ríkisvaldið ber engar brigður á það að því ber að kosta sjúkraflutninga hér í Reykjavík sem og annars staðar og niðurstaða fæst í þeim efnum. En í samningum milli ríkis og sveitarfélaga, milli höfuðborgarinnar og ríkisins þá verða þessi mál auðvitað að ganga jafnt á báða vegu. Þannig gildir það auðvitað um þá leikskóla sem höfuðborgin og önnur sveitarfélög standa undir.
    Það er alveg ljóst að víða er skortur á leikskólarými hjá sveitarfélögum. En á það að ráða því hvar ríkið tekur um það ákvörðun að greiða niður dagvistun? Fyrirspyrjandi og málshefjandi vakti athygli á löngum biðlista í Reykjavík og ég skal ekki vefengja þær tölur. Er hann með þeim orðum að réttlæta nauðsyn þess að í þeim sveitarfélögum sem hugsanlega standa verr að vígi en önnur skuli ríkið hlaupa undir bagga og sjá um kostun? Ég hafna slíkum viðhorfum. Ég hygg að hér sé um skýra og afdráttarlausa verkaskiptingu að ræða eins og ég tel mjög skynsamlega í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Við

erum að ræða enn frekari verkaskiptingu í þessa veru. Við erum að hyggja á tilflutning verkefna milli ríkis og sveitarfélaga. Í því sambandi hefur verið rætt um heilsugæslu. Í því sambandi hefur verið rætt um öldrunarþjónustu í víðustu mynd. Í því sambandi hefur verið rætt um grunnskóla. Þetta er gert til að skýra mál og gera þau gleggri. M.a. trú manna á það að heimamenn geti sinnt þeim þáttum betur, í meiri nálægð við notendur viðkomandi þjónustu. En á þessi verkaskipting aðeins að virka sums staðar, í sumum málaflokkum og öðrum ekki? Á þessi verkaskipting aðeins að gilda hér á höfuðborgarsvæðinu, á Akranesi og á Akureyri en í öðrum sveitarfélögum ekki? Á þessi verkaskipting aðeins að gilda gagnvart tilteknum starfsstéttum í þjóðfélagi okkar en ekki gagnvart öðrum? Eru hv. þm. reiðubúnir til að tína út þær starfstéttir sem eru svo mikilvægar að þeirra áliti að þær eigi að njóta niðurgreiðslu ríkis hvað varðar leikskólana? Og hvaða starfstéttir eru ekki nægilega mikilvægar til að njóta ekki þeirrar niðurgreiðslu ríkisins? Þetta eru auðvitað lykilspurningar sem menn verða að hafa í huga um þessi mál.
    Ég veit vissulega að það er stuttur tími til stefnu. En ég vek athygli hv. Alþingis á þeirri staðreynd að það eru engin lög sem segja til um það, ekki fjárlög sem segja til um það, að það sé hlutverk Ríkisspítala eða annarra sjúkrahúsa að reka leikskóla. Það er stoðþjónusta sem lögum samkvæmt á að vera á hendi annarra aðila. Það er forgangsverkefni mitt sem heilbrrh. að tryggja að þær stofnanir sem undir mig heyra geti gengið fram með þeim hætti að þeir sem þjónustunnar eiga að njóta fái hana. Við höfum ekki, við þær aðstæður sem nú eru, efni á stoðþjónustu sem lögum samkvæmt á að vera á annarra hendi. Viðræður eru þegar komnar í gang. Ég veit um sveitarfélög sem notið hafa þessarar niðurgreiðslu. Ég nefni þar Akranes og Hafnarfjörð þar sem viðræður sveitarstjórnanna og viðkomandi rekstraraðila, forsvarsmanna sjúkrahúsanna, eru komnar vel á veg. Þar munu þessi mál ganga hægt og hljótt. Ráðuneytið og forsvarsmenn viðkomandi sjúkrastofnana munu á sama hátt, og eru þær viðræður þegar hafnar, ganga fram í þá veru að þessi breyting megi ganga hægt og hljótt, þannig að börnin sem eru lykilatriði í þessari umræðu allri, fái vist og áframhaldandi öryggi. Um það snýst málið.