Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:15:44 (42)

                [14:15]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Þetta er í annað skipti sem umræður fara fram hér á Alþingi um að ríkið hætti að starfrækja dagvistunarstofnanir sem nú eru reknar fyrir sumar starfsstéttir en ekki allar á sjúkrahúsum á fjórum stöðum á landinu. Hið fyrra sinnið sem þessi umræða átti sér stað var verið að fjalla um þingsályktunartillögu sem við hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, 5. þm. Austurl., fluttum í þessa veru. Því er skemmst frá að segja að sú tillaga var mikið rædd hér í þinginu og hlaut einróma stuðning allra þeirra er til máls tóku sem voru raunar þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkunum. Þess vegna neita ég að trúa því að fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem átti öll fulltrúa í þessum umræðum hafi svo gjörsamlega snúið við blaðinu eins og ætla má af viðbrögðum þeirra síðustu dagana. Eða getur það verið að skoðanir þeirra hafi verið settar í einhvern pólitískan úreldingarsjóð og séu nú ekki lengur góðar og gildar?
    Hv. þm. og fyrrv. heilbrrh., Guðmundur Bjarnason, 1. þm. Norðurl. e., tók mjög undir efni okkar tillögu og sagði m.a., með leyfi virðulegs forseta: ,,Ég tel að hér sé hreyft máli sem gjarnan hefði mátt orða fyrr í þingsölum``. Enn segir hv. þm.: ,,Ég vil líka láta það koma fram á Alþingi að mál þetta hefur verið rætt í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna og verið tekið þar upp af hálfu tveggja þingmanna sem þar eiga sæti, þess sem hér stendur og hv. þm. Svavars Gestssonar``. Svo kemur hér hv. þm. Finnur Ingólfsson og fyrrv. pólitískur aðstoðarmaður Guðmundar Bjarnasonar og talar á allt öðrum nótum. Það fer ekki hjá því að upp rifjist fyrir manni gamalt vísubrot:
          Ekki sér hann sína menn,
          svo hann ber þá líka.
    Vissulega er skortur á starfsfólki í vissar starfsgreinar sjúkrahúsa. Sá skortur hefur verið notaður til að meina öðru starfsfólki sjúkrahúsanna aðgang með börnin sín í þessa ríkisreknu leikskóla. Það sjá auðvitað allir í hvílíkt óefni menn stefna ef þessi háttur verður viðurkenndur til frambúar.

    Víða úti um landið vantar kennara. Hvernig bregðast menn við því? Ætli ríkið leggi fram dagvistarstofnanir eða önnur hlunnindi til að laða að kennara? Nei, alls ekki, það eru sveitarfélögin sjálf sem bregðast við með hlunnindum af ýmsu tagi sem þau borga sjálf þótt það sé skýrt og skorinort í lögum að ríkið eigi að greiða launakostnað.
    Ég er þess hvetjandi að þetta mál sé leyst af fullri reisn gagnvart fólki sem notið hefur þjónustu á dagvistarstofnunum ríkisins. Í því sambandi finnst mér litlu skipta úr því sem komið er hvort þessi eðlilega og sjálfsagða breyting á rekstraraðild verði vikunni eða mánuðinum fyrr eða seinna og vil leyfa mér að hvetja hæstv. heilbrrh. til samningslipurðar í þeim efnum.