Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:27:39 (47)


[14:27]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Þetta er dálítið merkileg umræða að halda því fram hér af hálfu einstakra þingmanna Sjálfstfl. að deilan snúist um það hvort sveitarfélögin eigi að sinna

þessu verkefni eða ekki. Um það snýst þessi deila alls ekki. Hún snýst hins vegar um það hvort frá og með næstu áramótum verði hægt að halda þessum sjúkrastofnunum í rekstri. Vegna þess að það á að loka barnaheimilunum og fólkið sem þar er með börnin sín inni mun ganga út af þessum stofnunum. Það er farið að segja upp og fólk lítur svo á að þetta sé hluti af þeim ráðningarsamningi sem gerður var við það þegar það hóf störf. Og það er náttúrlega það hörmulegasta í þessari umræðu allri að hæstv. heilbrrh. gerir sér enga grein fyrir því að það þurfi starfsfólk á sjúkrastofnanirnar til að það sé hægt að reka þær. Það eigi bara að skera af allar stoðdeildir. Hvað eru stoðdeildir? Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kom inn á það hér áðan. Það væri fróðlegt að fá svar við þeirri spurningu. Kemur þá til greina að eldhúsum þessara sjúkrastofnana verði lokað af því að þau eru stoðdeildir? Það er hluti af ráðningarkjörunum. Fólkið hefur ráðið sig á þessar stofnanir með það í huga. Ætlar hæstv. ráðherra að svara því hér á eftir hvort það verði gert eins og annað í samræmi við þessa stefnu? Og það er auðvitað rangtúlkun af hálfu hæstv. heilbr.- og trmrh. og hann veit betur. Þegar gengið var frá verkaskiptalögunum um áramótin 1989--1990, af því að ég sat í þeirri nefnd, þá var aldrei rætt um það enda ekki gert ráð fyrir því í tekju- og gjaldatilflutningnum að sjúkrahúsin hættu þessum rekstri og það færðist yfir á sveitarfélögin. Það var beinlínis gert ráð fyrir því þá að þetta yrði með óbreyttu sniði. Og af hverju? Jú, vegna þess að þetta er sérhæfð þjónusta sem sveitarfélögin treysta sér ekki til að taka að sér. Deilan hér snýst um það hvort menn ætla að koma manneskjulega fram við sveitarfélögin og við það starfsfólk sem þarna á hlut að máli og menn geti tryggt það eftir áramótin að halda þessum stofnunum opnum.