Fjárframlög til Gunnarsholts

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:50:38 (54)


[14:50]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég efast ekki um það að hæstv. heilbrrh. langar að ganga hægt og hljótt um. Hann langar að ná árangri í sínum störfum en því miður þá er ráðherrann ekki sjálfum sér líkur. Ég hef mjög velt því fyrir mér eftir að Guðmundur Bjarnason, fyrrv. heilbrrh., hvarf úr embætti hvers vegna þessir ágætu menn sem hafa verið heilbrigðisráðherrar síðan hafa ekki ráðið við gjörðir sínar. Þeir ganga um með þeim hætti að það er ekki líðanlegt. Ég velti því fyrir mér hvort það búi eitthvert fól í heilbrrn. sem skipi þeim fyrir verkum með þeim hætti sem þeir vinna. Nú er það ljóst að hæstv. fyrrv. heilbrrh., Sighvatur Björgvinsson, komst að þessari sömu niðurstöðu og núv. ráðherra --- að leggja Gunnarsholt niður. En hann fór í mjög nákvæma vinnu. Hann lét ekki útvega sér tölur. Hann komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri vinnustaður sem mundi hjálpa fólki og ákvað að þetta heimili skyldi starfa áfram. Hann lét endurbyggja heimilið. Ég vil skora á hæstv. heilbrrh. að fara ofan í þær upplýsingar sem hér hafa komið fram í dag, hann er mataður einhvers staðar frá, og hann endurskoði afstöðu sína og fari ofan í það hvort þetta heimili á ekki rétt á sér. Hvort þar sé ekki sú sérþekking sem hefur verið að bjarga hundruðum manna og koma þeim út í lífið á nýjan leik. Ég skora á hæstv. heilbrrh. að kynna sér alla vega hvað varð til þess að Sighvatur Björgvinsson skipti um skoðun og að þessu blessaða fólki sem þarna hefur athvarf í fögru umhverfi verði ekki vísað út á guð og gaddinn eins og hér er því miður verið að leggja til.