Þingsköp Alþingis

4. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 15:58:23 (65)

[15:58]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa 1. umr. um þetta frv. Það sem ég tel mikilvægast í þessu samkomulagi sem hér hefur náðst milli þingflokksformanna á fundum þeirra sem ég trúi alveg að hafi verið mjög skemmtilegir, ég er ein af þeim sem trúi mjög vel því sem 1. flm. sagði um að það væru skemmtilegir fundir hjá þingflokksformönnum, en það er í sjálfu sér mjög óheppilegt að þurfa alltaf að vera að breyta þingsköpum þannig að ég get ekki sagt að ég sé mjög ánægð með það að þurfa ævinlega að vera að breyta þingsköpum. En þegar breytingar geta verið til bóta þá eigum við auðvitað að reyna breytingar. En ég legg áherslu á það sem hv. 3. þm. Norðurl. v. minntist hér á, þ.e. um ákvæði til bráðabirgða. Okkar þingflokkur lagði áherslu á það að þetta yrði tekið til endurskoðunar að ári og hefði gjarnan viljað sjá að þessi lög féllu úr gildi að ári en ekki að þau væru bara til endurskoðunar, en í sjálfu sér geri ég ekki mikið úr því, ég hef þá trú að þetta frv., ef að lögum verður, verði til bóta hér í þinginu.
    Ég legg áherslu á þessi atriði, sem hafa verið tekin hér upp af þingmönnum, að stjórnarandstaðan kemur nú að stjórn þingsins með meira afgerandi hætti, þ.e. að nokkrar nefndir verða undir forustu stjórnarandstæðinga. Auðvitað hefði verið best að skrefið hefði verið stigið til fulls, þ.e. að formennska í nefndum hefði verið í samræmi við þingstyrk, því að ég tel að það sé mjög mikilvægt að þingið sé sjálfstætt gagnvart framkvæmdarvaldinu en á því hefur verið mjög mikill misbrestur og á þeim 6 árum sem ég hef hér verið hefur þetta að mínu mati mjög versnað, þ.e. mér hefur fundist ríkisstjórnin ákvarða alltaf meira og meira um það hvernig þingið starfar.
    Ég vil sérstaklega taka fram varðandi 5. gr., ég er mjög sátt við þetta frv. að öllu öðru leyti nema 5. gr., þ.e. a-liðinn, um að í stað orðanna ,,gæslu þingskapa`` komi ,,fundarstjórn``. Ég vil bara lýsa því yfir að ég hefði gjarnan viljað breyta þessu. Ég hefði gjarnan viljað koma með brtt. við þetta, svo ósátt er ég

við að þetta skuli vera tekið hérna upp. Ég ætla hins vegar að stilla mig um að gera það þar sem hér hefur orðið samkomulag. Ég veit alveg að þetta ákvæði þingskapalaganna um að hægt sé að gera athugasemd við þingsköp hefur verið misnotað hér undanfarið af mörgum en alls ekki öllum. Það eru mjög margir sem aldrei hafa tekið til máls undir liðnum um þingsköp nema um þingsköp. ( RA: Það er búið að breyta þessum texta.) Það stendur hér: ,,Í stað orðanna ,,um gæslu þingskapa`` í 2. mgr. kemur: Um fundarstjórn forseta.`` Það var það sem ég var að gera athugasemd við. Ég var að gera athugasemd við að það skyldu vera tekin út orðin ,,um gæslu þingskapa`` eða ,,um þingsköp``, það má vera það, það þarf ekki endilega að vera þessi gæsla sem hefur víst farið í taugarnar á mörgum, og það skuli vera tekin upp þessi fundarstjórn. Ég er ósátt við þetta og tel að það eigi að halda þessu orði og vil að þingmenn biðji um orðið um þingsköp en ekki um fundarstjórn. Mér hefði fundist það vera mjög slæmt og vil óska eftir því að þetta verði eitt af því sem verður tekið til endurskoðunar hér að ári liðnu og lýsi því enn og aftur að ég ætla að stilla mig um að flytja brtt. við þetta vegna þessa samkomulags sem gert hefur verið en það breytir ekki því að ég er mjög ósátt við að þetta skuli hafa verið gert svona, ekki síst í ljósi þess að þetta var tekið upp á fundi forsætisnefndar og ég heyrði ekki betur en þar væru flestir þeirrar skoðunar að þetta væri til hins verra.