Valfrelsi í lífeyristryggingum

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 11:04:50 (73)


[11:04]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hér er vissulega hreyft afar stóru og mikilvægu máli og flm. leggja til að ríkisstjórnin leggi fram frv. um breytingu á lífeyriskerfi landsmanna í þá veru að færa það til frjálsræðisáttar og að menn geti ávaxtað sinn lífeyri í séreignasjóðum og það geti reyndar fleiri aðilar en lífeyrissjóðirnir tekið þá ávöxtun að sér. Hv. frsm. bar fram þá ósk í sinni ræðu að nú yrði ríkisstjórnin fljótt og vel við þessari beiðni.
    Nú vill svo til að fyrir þinginu liggur frv. einmitt um þessi atriði. Þrír þingmenn Framsfl. lögðu í þá miklu vinnu á síðasta vetri, sem ekki er algengt varðandi þingmenn, að semja frv. um svo veigamikinn málaflokk sem lífeyrismálin eru. Það vaknar því í mínum huga m.a. sú spurning, virðulegi forseti, varðandi stjórn þingsins, þó svo ég hafi ekki farið hér upp með það undir þeim lið, hvernig eigi að fara með mál þegar svo háttar eins og hér er. Í mínum huga er enginn vafi að hér ætti að nota þá almennu reglu í þingsköpum og fundarstjórn að taka fyrst til umræðu þá tillögu sem gengur lengra og það er enginn vafi í mínum huga að fullmótað frv. um eitt tiltekið mál gengur mun lengra en þáltill. sem skorar á ríkisstjórnina að semja og leggja fram slíkt frv. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þennan þátt málsins en ég bendi á þetta.
    Ég ætla að koma að örfáum atriðum sem framsögumaður nefndi í annars ágætri framsöguræðu sinni og m.a. um það óréttlæti sem nú gildir varðandi lífeyrismál. Vissulega er það rétt hjá framsögumanni. Hann nefndi sérstaklega þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa til lífeyris. Það er alveg rétt að þeir hafa mun betri lífeyrisréttindi heldur en starfsmenn á almennum markaði. Ég hygg hins vegar að þorri opinberra starfsmanna, svo ég nefni bara einstakar stéttir, t.d. kennara, hjúkrunarfræðinga og fleiri, telji að þeir greiði fyrir þessi réttindi mánaðarlega, þ.e. í hvert skipti sem þeir fá sitt launaumslag. Að mínu mati er tekið fyllilega tillit til þessa þáttar þegar samið er um laun opinberra starfsmanna, þ.e. að þau eru vegna þessa mun lægri heldur en annars þyrfti að vera. Ég tel reyndar að í þeim umræðum, sem hafa átt sér stað að undanförnu um breytingar á þessu, sé fullur skilningur á þessu af hálfu ríkisvaldsins. Þetta þýðir ekki að mínu mati að þessu eigi ekki að breyta, ég held að þessu eigi að breyta, þannig að landsmenn sitji sem mest við sama borð varðandi lífeyrismál en þá verða menn að horfast í augu við að sú breyting mun á næstu árum þýða verulegan útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Það mun þýða hærri laun vegna væntanlega minni lífeyrisréttinda heldur en þessir starfshópar njóta núna en skuldbindingar ríkisins á næstu árum um þó nokkra framtíð munu ekki lækka meðan verið er að standa við þær skuldbindingar sem eru áunnar í dag og eru færðar inn á ríkissjóð sem skuldbindingar fram í tímann. Á þessu vildi ég vekja athygli við þessa umræðu.
    Ég ætla einnig aðeins að nefna að ávöxtun lífeyris hér á landi er eingöngu hluti af okkar peningakerfi. Það er alveg rétt að lífeyrissjóðirnir hafa verið að styrkjast á síðustu árum, þó nokkrir sjóðir sem horfðu fram á það fyrir nokkrum árum að geta ekki staðið við sínar skuldbindingar hafa rétt af sinn hag. En þetta hefur verið nokkuð dýru verði keypt. Þetta hefur gerst á þann hátt að ávöxtun peninga í okkar landi hefur um nokkurra ára bil verið langt umfram það sem atvinnuvegir og verðmætasköpun í landinu hefur getað staðið undir. Það sjáum við best með því að skoða hvernig eigið fé atvinnulífsins og heimilanna hefur þróast á síðustu árum.
    Framsögumaður, hv. 3. þm. Reykn., sagði í ræðu sinni áðan að þetta hefði að vísu endurspeglast í afkomu lífeyrissjóðanna og að vextir hefðu verið hæstir að undanförnu á síðustu mánuðum síðustu ríkisstjórnar, ef ég man rétt. Nú veit ég ekki hvers vegna hv. þm. kaus að færa inn í þessa umræðu karp um hvenær vextir hafa verið hæstir. Um það getum við deilt endalaust. En ég minni hv. þm. á það að tvisvar á ferli núverandi ríkisstjórnar hafa vextir á Íslandi farið upp fyrir eða upp undir 20%. Í árslok árið 1991 fóru vextir á óverðtryggðum skuldbindingum upp í 21%. Á því sumri sem nú er að líða fóru vextir --- nú man ég ekki alveg töluna --- en hæst upp í 19--20%. Ég er löngu hættur að gera nokkurn greinarmun á nafnvöxtum og raunvöxtum. Einfaldlega vegna þess --- svo við nefnum nú aftur fyrrv. ríkisstjórn --- að eftir að fyrrv. ríkisstjórn tókst að koma hér á stöðugleika í verðlagsmálum og kveða niður verðbólgudrauginn þá verðum við að fara að hugsa vextina líka á annan hátt. Það er alveg ljóst að fyrir launamanninn sem fær enga launahækkun, fyrir fyrirtækið sem fær enga hækkun á sínum afurðum (Forseti hringir.) þá eru nafnvextirnir á hverjum tíma hinir raunverulegu raunvextir, 20% eins og hefur verið í tvígang hjá núverandi ríkisstjórn.
    Virðulegi forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Ég kem nú reyndar víðar við í okkar þjóðfélagi heldur en hér á þingi. Ég var fyrir nokkrum dögum að ganga frá með öðrum lántöku fyrir fyrirtæki sem er að hasla sér völl í útflutningi. Það átti kost á því annars vegar að taka lánið hjá sínum viðskiptabanka hér heima. Þetta var fram yfir áramót, ( Forseti: Tíminn er búinn.) --- virðulegi forseti, ég er að ljúka máli mínu --- á 15% vöxtum, hins vegar í landinu sem er verið að flytja til, vestur í Boston í Bandaríkjunum, á 6,5% vöxtum. Þetta er munurinn sem er á peningastefnu og vaxtastefnu á okkar landi og þeim löndum sem við erum að reyna að hasla okkur völl í og keppa við.