Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:00:18 (80)

[12:00]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Fyrir fáum árum voru hafréttarmálin, í sem víðtækustum skilningi þess hugtaks, hvað mest áberandi í allri stjórnmálaumræðu hér á landi. Það er rétt sem fram hefur komið í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar að áhugi á þeim málum hefur því miður slævst á undanförnum árum. Ég held að það sé mjög margt sem bendir til þess núna að þetta sé að breytast. Þetta sjáum við á því að útgerðir einstakra skipa, sérstaklega frystiskipa sem hafa auðvitað meiri möguleika á þessu sviði, hafa verið að sækja út fyrir hefðbundna veiðislóð og verið að kanna möguleika á því að hasla sér völl á nýjum slóðum hvað þetta áhrærir. Jafnvel hefur komið fram eins og menn þekkja úr fréttum að einstaka útgerðir hafa skoðað þá möguleika að fara til veiða á Hatton-Rockall svæðinu og það mættu teljast nokkur nýmæli og nokkur tíðindi ef af því yrði.
    Ég held að það sé dálítið áhyggjuefni hversu mjög áhuginn á þessum hafréttarmálum hefur slævst upp á síðkastið. Ég held að það sé líka áhyggjuefni hversu margir gera sér litla grein fyrir mikilvægi hafréttarsáttmálans fyrir okkur sem þjóð. Ég hef orðið var við þetta í umræðunni sem fram hefur farið um hvalamálið þar sem mjög hefur verið vísað til hafréttarsáttmálans. Þá hafa menn haft tilhneigingu til að afgreiða þetta sem svo og segja: Úr því að hafréttarsáttmálinn hefur ekki lagagildi þá eigum við ekki að láta hann þvælast fyrir okkur um ákvarðanir í þessum málum. Þessi umræða sem hefur farið fram í dag, greinargerðin sem fylgir þessari þáltill. undirstrikar auðvitað þýðingu hafréttarsáttmálans. Það er auðvitað vandi þessa máls sem við erum hér að ræða, að málatilbúnaður okkar byggir á hafréttarsáttmálanum sem, þó að við höfum fullgilt hann hefur hann ekki alþjóðlegt lagagildi þó að lítið vanti þar á og vonir standi til eins og hæstv. utanrrh. nefndi að hann kunni að öðlast alþjóðlegt lagagildi innan mjög skamms tíma.
    Ég tel ástæðu til að taka undir þá þáltill. sem hér er sett fram og þau markmið sem hún stefnir að en ég held að það sé ástæða til þess að vekja athygli á þeirri meginhugsun sem þar kemur fram og byggir á hafréttarsáttmálanum. Hér er fyrst og fremst verið að vísa til 76. gr. hafréttarsáttmálans, eins og fram hefur komið, sem gerir ráð fyrir því að ríki þar sem þannig háttar til að um er að ræða eðlilega framlengingu landsins, þá geti menn haslað sér völl eða tileinkað sér svæði, ýmist einir eða í samráði við aðra, þrátt fyrir að þessi svæði séu utan hefðbundinna 200 mílna sem eru alþjóðlega viðurkennt svæði. Það er á þessum grunni sem við byggjum okkar málatilbúnað og okkar sókn og það skiptir auðvitað mjög miklu máli á hvaða hátt menn koma til með að líta á hafréttarsáttmálann hvernig það mun ganga fyrir okkur.
    Ég held að það sé þessu máli mjög til framdráttar að við samþykkjum þáltill. af þeim toga sem hér er lögð fram og það yrði til þess að undirstrika vilja Alþingis, vilja þjóðþingsins, í þessum efnum og gæti vonandi orðið til þess að vekja upp þær nauðsynlegu umræður sem hér þurfa að fara fram. En ég nefndi raunar áðan að mjög margt bendir til þess að þær umræður væru að hefjast, áhuginn væri að vakna, sem sýndi sig m.a. í sókn ýmissa útgerða á svæði utan 200 mílnanna.
    Ég held hins vegar að það þurfi að velta því fyrir sér og verður sjálfsagt gert í utanrmn. hvort það eigi að gerast með sérstakri nefnd eins og hér er lagt til eða hvort hæstv. utanrmn. eigi að fjalla um þetta mál.
    Hér er gert ráð fyrir því að kosin verði sérstök sjö manna nefnd þingsins hlutbundinni kosningu til að starfa með ríkisstjórninni að framgangi þessara mála. Ég vona að menn geti komist sameiginlega að einhverri niðurstöðu um þetta. Ég tel að út af fyrir sig geti hvort tveggja komið til greina almennt í málum af þessu taginu að það geti stundum verið skynsamlegt að kjósa sérstaka nefnd til þess að fylgja eftir tilteknum málum og ekkert við því að segja. En mér finnst hins vegar við það að skoða sögu þessa máls flest benda til þess að það sé eðlilegra að hv. utanrmn. fjalli um þetta mál. Ég vek sérstaka athygli á því að með því að lesa gegnum greinargerðina þá kemur það auðvitað fram að það hefur verið utanrmn. Alþingis sem almennt hefur haft forræði þessa máls í gegnum tíðina af hendi Alþingis. Ég nefni sem dæmi, eins og ég les a.m.k. greinargerðina, þá kemur það m.a. fram í henni að á árinu 1980 var lögð fram þáltill. í þessum anda og þar var raunar gert ráð fyrir því eins og í þessari þáltill. að kosin væri sérstök nefnd, fimm manna, sem starfi með ríkisstjórninni að framgangi málsins. Niðurstaðan varð hins vegar sú að Alþingi kaus að hafa þetta þannig að það var utanrmn. sem starfaði með ríkisstjórninni að framgangi málsins. Ég tel að það séu söguleg rök, þó ekki væri fyrir annað, og í samræmi við þann framgang sem Alþingi hefur jafnan haft á hafréttarmálum af sinni hálfu, að utanrmn. Alþingis hefði forræði þessa máls.
    Þetta held ég að sé hins vegar ekki aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er auðvitað hið efnislega innihald tillögunnar, sú ákvörðun að Íslendingar fylgi fast á eftir á grundvelli ítrekaðra ályktana sinna, réttmætum kröfum Íslendinga til hafsbotnsréttinda á Reykjaneshrygg og Rockall-svæðinu. Þetta eru auðvitað efnisatriði málsins og þetta eru aðalatriði þess þannig að við ættum auðvitað ekki að velta því mjög lengi fyrir okkur hvaða form við hefðum síðan á því að fylgja þessu eftir.
    En ég ítreka hins vegar stuðning minn við þessa tillögu. Ég tel að hún sé tímabær og í raun og veru sett fram á réttum tíma vegna þess, eins og ég hef rakið, þá er vaxandi áhugi íslenskra útgerða á því að nýta réttinn utan 200 mílna og þess vegna mjög í samræmi við það að við fylgjum eftir till. til þál. sem gerir ráð fyrir auknum réttindum Íslendinga á Reykjaneshrygg og Rockall-svæðinu.