Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:27:22 (86)

[12:27]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. sjútvrh. að framganga Íslands á Ríóráðstefnunni og síðar á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á þessu ári um verndun sjávarstofna á úthafssvæðum er mjög merkilegt framlag til þeirrar þróunar og það ber að hæla stjórnvöldum fyrir það starf og við alþýðubandalagsmenn erum eindregnir stuðningsmenn þess að þar sinni menn málum af sama krafti og áður. En fyrst hæstv. ráðherra vék að þessu hér í umræðunni þá er óhjákvæmilegt að spyrja að því hvernig standi á því að sá sérfræðingur sem hefur veitt forustu þessu starfi af hálfu Íslands á þessum alþjóðlegu ráðstefnum og nafgreindur var af ráðherranum hér áðan, sérstakur sendiherra og þjóðréttarfræðingur utanrrn., var ekki hafður með í ráðum í viðræðum við Norðmenn um deilurnar í Smugunni. Á fundi utanrmn. og sjútvn. kom fram að álits hans hefði ekki verið leitað. Það vekur óneitanlega spurningar um meðferð mála í Stjórnarráðinu þegar svo er og ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvernig stendur á að sá sendiherra og þjóðréttarfræðingur, sem hann með réttu nafngreindi hér og hældi vel og ég vil taka undir það, var útilokaður frá því að veita ráðgjöf íslensku viðræðunefndinni við Norðmenn. Í staðinn var sóttur dr. Gunnar Schram, sem hefur sett fram nokkuð mótsagnakenndar álitsgerðir í þessum efnum, en sendiherrann og þjóðréttarfræðingurinn var víðs fjarri þegar viðræðurnar við Norðmenn fóru fram.