Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:31:08 (88)

[12:31]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér var fullkunnugt um að Guðmundur Eiríksson, sendiherra og þjóðréttarfræðingur, nýtur mikils álits fyrir þau störf sem hann hefur unnið og sjútvrh. gat um hér áðan. Það vakti hins vegar athygli að utanrrn., sem samkvæmt eigin yfirlýsingu fór með forræði deilunnar við Norðmenn, leitaði ekki til þessa sérfræðings. Nú hefur hæstv. sjútvrh. upplýst það hér að sjútvrn. hafi leitað til hans. Það er nýtt í málinu, það hefur ekki komið fram áður. Ég verð þess vegna að spyrja hæstv. utanrrh. hér í umræðunni, fyrst þetta er komið hér á dagskrá: Hvernig stendur á því að utanrrn. leitaði ekki til þessa ágæta starfsmanns síns sem nýtur þessarar alþjóðlegu viðurkenningar, Guðmundar Eiríkssonar, sendiherra og þjóðréttarfræðings, þegar Íslendingar í fyrsta sinn eftir Ríóráðstefnuna og ráðstefnuna New York í sumar lenda í alþjóðlegri deilu um þessi mál? Það er óhjákvæmilegt að utanrrh. svari því hér hvort það er utanrrn. sem er að útiloka álitsgerðir frá sínum eigin starfsmanni sem nýtur þessarar alþjóðlegu viðurkenningar sem hefur komið hér fram, m.a. í ummælum hæstv. sjútvrh., og kýs í staðinn að leita annað, í annan mann sem starfar utan ráðuneytisins og eins og hér hefur komið fram hafði áður lagt fram álitsgerð sem nokkuð gekk á svig við það sem hann sagði í þessu máli. Ég tel nauðsynlegt að þingið fái að vita þetta fyrst að hæstv. sjútvrh. hefur vakið máls á þessu hér og bið hæstv. utanrrh. þá hér í umræðunni að svara því alveg skýrt hvers vegna utanrrn. leitaði ekki álitsgerða hjá Guðmundi Eiríkssyni og hvers vegna hann var ekki í viðræðunefndinni og hvers vegna utanrrn. kaus að velja annan mann. Þetta eru svo mikilvæg mál að við þurfum að vita ef eitthvað er blandað málum til hvaða sérfræðinga menn bera traust í þessum efnum, sérstaklega þeir sem fara með málin fyrir hönd íslensku þjóðarinnar sem í þessu tilviki er utanrrn.