Launagreiðslur til hæstaréttardómara

8. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 13:53:58 (106)

[13:53]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Það gefst ekki tími til þess hér og nú að ræða almennt um launa- og kjaramál. Það hefur komið fram í þessum umræðum að ný lög voru sett en nýr kjaradómur á grundvelli nýrra laga hefur ekki verið uppkveðinn.
    Ég ætla að eyða þessum fáeinu mínútum sem ég hef hér til þess að skýra einn hlut og það er munurinn sem kemur fram í kjaradómsúrskurðunum, þeim þremur síðustu. Árið 1991 segir berum orðum í kjaradómsúrskurði frá 27. maí eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Mánaðarlaun eru þannig ákveðin að ekki skal vera um frekari greiðslu fyrir venjubundin störf að ræða þó að vinnutími sé að jafnaði lengri en 40 stundir á viku. Innheimtu- og uppboðslaun falla niður þar sem um þau hefur verið að ræða.`` Síðan segir: ,,Komi til greiðslna fyrir yfirvinnu skal tímakaup vera rúmlega 1% af mánaðarlaunum þess sem í hlut á.``
    Sams konar klásúla var ávallt í slíkum kjaradómsúrskurðum. En 26. júní 1992 hverfur þetta út og þar er alveg blákalt sagt að nú sé ekki ætlast til þess að um yfirvinnugreiðslur sé að ræða. Eftir að bráðabirgðalögin voru sett í júlí 1992 eða í lok júnímánaðar, ég man ekki hvort heldur var, þá er kveðinn upp nýr dómur 12. júlí. Ég er með hann hérna og þá bregður svo við í þeim dómi að nú er sem sagt aftur komin inn þessi klausa: ,,Komi til greiðslna fyrir yfirvinnu skal tímakaup vera 1% af mánaðarlaunum þess sem í hlut á.`` En það er búið að fella niður klausuna sem ég las og hafði verið 1991 þannig að forsendurnar hafa breyst. Það er Hæstiréttur sem les inn í þennan texta og þeir eru sérfræðingar í að lesa inn í dómsúrskurði þeir sem starfa við Hæstarétt, eins og allir vita. Eftir að ég hef upplýst þetta og skýrt þetta jafnrækilega og ég hef gert hér, þá hljóta menn að sjá á hverju þetta byggist.
    Um aðra þætti málsins ætla ég ekki að ræða hér. Það getur beðið betri tíma. En eitt vil ég segja að lokum og það hef ég sagt áður, að um leið og farið verður að starfa eftir nýju lögunum ætti öllum slíkum misskilningi verða eytt. Og ég vil að allra síðustu, virðulegi forseti, segja það líka að mér finnst tími til kominn að 61. gr. stjórnarskrárinnar sé skýrð öðruvísi en hún hefur verið skýrð hingað til varðandi laun til eftirlaunamanna úr hópi hæstaréttardómara.