Frumkvöðlar í atvinnulífinu

8. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 14:36:00 (113)

[14:35]
     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 19 mæli ég fyrir þáltill. um stuðning við frumkvöðla í atvinnulífinu. Tillagan er flutt að nýju, áður flutt á síðasta löggjafarþingi, hinu 116., en athugun þess og umfjöllun í allshn. varð ekki lokið. Því er tillagan flutt að nýju í sama formi með sömu greinargerð.
    Ég sé ekki ástæðu til að flytja að nýju sömu ræðu og ég hafði hið fyrra sinnið en vek þó athygli á því að meginorsök þessa tillöguflutnings, samdráttur í atvinnulífi, er ennþá mikill og varanlegur. Rýrnun tekjustofna opinberra aðila er enn varanleg og þeirra afl til að standa fyrir framkvæmdum sem gætu orðið eftirspurn eftir atvinnu hefur ekki vaxið.
    Sú hugmyndafræði sem höfð hefur verið að leiðarljósi til að auka atvinnu, þ.e. hugmyndafræði stórframkvæmda eða stóriðju eða stóriðnaðar, hefur ekki gefið þann afrakstur sem við höfðum vænst. Niðurstaðan er sú eftir allmörg ár mikils fjárausturs í tilraunir án mikilla rannsókna og undirbúningsathugana til að fá fram nýjar atvinnugreinar, að þau hafa skilið eftir sig langan skuldahala en ekki ný störf. Störfum hefur á hinn bóginn frekar fækkað heldur en hitt.
    Á sama tímabili hefur sú breyting orðið á með grannþjóðum okkar að hlutdeild smárra fyrirtækja hefur farið vaxandi í umsvifum á vinnumarkaði, í aukningu hagvaxtar, í aukningu útflutningstekna og í bótum lífskjara. Hér hefur þessu kannski ekki verið veitt nægileg athygli en greinargerðin ber með sér að nokkrir menn hérlendir hafa gert það og vilja færa hingað heim hugmyndafræði sem að baki liggur og fá til þess tilstyrk hins opinbera í formi breyttra áherslna í menntun og veitingu nokkurra fjármuna. Breyttir atvinnuhættir að þessu leyti snúa að flestum greinum atvinnulífsins en einkum þó með þeim hætti að vekja athygli uppvaxandi kynslóða á því að þeim verður vart mikil atvinna boðin nema þær sjálfar taki til hendinni. Fram að þessu hefur að vísu nokkuð gætt þess að í menntun hafi fólki verið boðið upp á þá hugsun að að henni lokinni bíði störf. Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, sem margir fleiri en ég hafa vakið athygli á núna á síðustu árum, að þáttur langskólagenginna Íslendinga í frjálsri atvinnustarfsemi utan opinberra starfa hjá ríki eða sveitarfélögum, utan hálfopinberra starfa í þjónustu hagsmunasamtaka eða heilla atvinnugreina, er tiltölulega lítill.
    Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að minnast þess að það er ekki mjög langt um liðið síðan við stærsta atvinnuveg þjóðarinnar störfuðu tveir viðskiptafræðingar og annar þeirra var blaðafulltrúi. Það er ekki heil kynslóð gengin síðan þetta var svo. Að vísu hefur þetta breyst mikið. Sjávarútvegurinn notar nú starfskrafta og þekkingu margra vel menntaðra Íslendinga en enn er það svo að í skólanámi, jafnvel uppi í háskóla, er fólk menntað án þess að vakin sé athygli þess á möguleikum til eigin athafna. Framhaldsskólar starfa víða um landið og það er skoðun mín, virðulegi forseti, að þeir gætu tekið þátt í þessari mótun, þessari miðlun þekkingar og leyft því fólki, sem ætlar sér ekki að fara lengra í námi, hyggst ljúka sinni menntun í framhaldsskóla og fara síðan til þátttöku í atvinnulífinu --- ég tel mikilvægt að þeim verði boðinn sá kostur að reyna þar hugmyndir sínar --- að kynnast þar auðlindum mögulegum til nýtingar í atvinnustarfi og að kynnast þeirri staðreynd að atvinnulífið þarfnast þátttöku þess, ekki sem launþega eingöngu heldur líka sem drifkrafts.
    Á síðasta þingi gafst allshn. ráðrúm til þess að fá umsagnir nokkurra aðila um tillöguna. Þær eru nær allar á einn veg, jákvæðar, taka undir tillöguflutninginn og telja að hér sé mál sem við þurfum að taka höndum saman um og að við getum bætt um betur. Aðeins einn skóli lýsir annarri skoðun og hann er raunar skóli ólíkur öllum hinum og það má vel vera rökrétt að hugmyndirnar sem þarna er fitjað upp á eigi ekki við í starfsemi þess skóla.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri um tillöguna að þessu sinni þar sem ég hef áður talað fyrir henni og tel ekki ástæðu til að endurtaka það mál en legg til að henni verði vísað til 2. umr. og til nánari athugunar í allshn. þingsins.