Málefni Seðlabankans

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:28:33 (121)


[15:28]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Hér í síðustu viku höfðum við utandagskrárumræður um starfskjör tiltekinna heilbrigðisstarfsstétta á sjúkrahúsunum. Starfskjör sem heilbr.- og trmrh. sá ekkert athugavert við að hrófla við og segja þeim upp. Nú koma menn hér upp og ræða starfskjör seðlabankastjóra og þá tala ráðherrar eins og þeir komi engum vörnum við. Seðlabankinn heyri ekki undir þá, það sé sérstakt bankaráð sem fari með þessi mál sem semji um kaup og kjör við þessa menn og ráðherra og ríkisstjórn komi engum vörnum við. Við heyrum líka í blöðunum þau svör frá þessum ráðamönnum í bönkunum, í Seðlabankanum og víðar, að þetta sé hluti af starfskjörum. Jú, jú, það megi kannski velta því fyrir sér hvort þetta séu eðlileg starfskjör en þetta sé nú einu sinni partur af starfskjörunum.
    Þegar hinn almenni launþegi á í hlut þá vefst þetta ekki svona mikið fyrir mönnum að höggva í starfskjörin. Ég vil í þessu sambandi minna á þá umræðu sem átti sér stað hérna í síðustu viku.
    Ríkisstjórnin kemur fram og krefst sparnaðar og krefst í rauninni þegnskapar af vinnandi fólki í landinu. Það er höfðað til einhvers konar þegnskapar. Hvar er þegnskapur þeirra manna sem stjórna þessum stofnunum? Og þá er ég ekki bara að tala um Seðlabanka, ég er líka að tala um ríkisbankana. Við erum nýbúin að sjá myndir í blöðunum af forstjóra Byggðastofnunar með nýjan jeppa. Það er tiltölulega nýkominn jeppi inn í Þjóðhagsstofnun. Ég veit ekki betur en heilbr.- og trmrh. sé nýbúinn að fá jeppa. Þannig að þetta er víðar en bara í Seðlabankanum. Hvar er þegnskapur þessara manna sem krefjast þess nú af almenningi í landinu að hann herði sultarólina? Ég hlýt að spyrja að því, hæstv. forseti.